28.10.1964
Sameinað þing: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í D-deild Alþingistíðinda. (3133)

24. mál, Áburðarverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Í þeim fólust ýmsar upplýsingar, sem ég tel að full ástæða hafi verið til að kæmu fram. Ég hef ekki aðstöðu til þess að ræða nokkuð að ráði þá, skýrslu, sem hæstv. ráðh. gaf mér í sambandi við það, sem um var spurt, en skal aðeins minnast á tvö eða þrjú atriði stuttlega.

Það er mjög illt til þess að vita, að ekki skuli hafa tekizt að bæta um áburðinn, að fá kornastærðina í lag. Hæstv. ráðh. hafði það eftir sérfræðingum, að enn væri að vísu ekki alveg vonlaust um, að þetta kæmist í lag og færi betur að svo yrði, því að allir, sem nota þennan áburð, eru sammála um, að það mundi skipta geysilega miklu máli í sambandi við hagkvæmni alla við notkun hans, ef þetta mætti takast.

Það er sjálfsagt ekki við verksmiðjustjórn eða framkvæmdastjórn að sakast um það, þó að það hafi ekki tekizt að bæta þarna um, en þá virðist aftur á móti, að ekki hafi í upphafi gætt nægrar fyrirhyggju um þetta efni, vandræðin stafi af óheppilegu vali í upphafi á framleiðsluvélum eða framleiðsluaðferð. Er vitanlega illt til þess að vita, þó að nú sé ekki um annað að gera, en að reyna að bæta þar um, eftir því sem mögulegt er.

Skýrsla sú, sem hæstv. ráðh. las hér eftir sérfræðing í jarðvegsfræðum, sýnir ljóslega, að það er rétt, sem margir hafa haldið fram, að kjarnaáburðurinn er tiltölulega mjög einhæfur áburður. Þetta eru að vísu ekki ný sannindi, en ég geri ráð fyrir, að mönnum hafi þó ekki almennt verið gert það nægilega ljóst, ekki nægilega snemma, að áburðurinn er með þessu marki brenndu, og því er ég smeykur um, að það sé rétt, sem mjög margir bændur halda fram, að of einhæf notkun þessarar áburðartegundar hafi valdið ýmsum skakkaföllum í sambandi við ræktunarmál.

Að því er varðar síðasta lið fsp., um það, hvort orðið hafi sparnaður eða ekki af þeirri ráðstöfun að leggja Áburðarsölu ríkisins undir Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi, um það atriði skal ég ekki ræða að þessu sinni. Ég hef ekki plögg í höndunum um það og raunar ekki annað við að styðjast, en annars vegar skýrslu verksmiðjustjórnar og þá grg., sem hæstv. ráðh. las hér og sýnir tölulega allverulegan hagnað af þessari ráðstöfun. Hins vegar hef ég fyrir því orð ýmissa glöggra manna, m.a. úr bændastétt, að eitt og annað sé við þessa útreikninga að athuga, þannig að þar komi ekki öll kurl til grafar. En sem sagt, um þetta efni hef ég ekki þau gögn í höndum, að ég geti um það rætt frekar.

Ég endurtek þakklæti mitt til hæstv. ráðh. og tel vel farið, að þessi mál hafi nú skýrzt nokkuð við þá grg., sem hann flutti.