04.11.1964
Sameinað þing: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í D-deild Alþingistíðinda. (3145)

209. mál, hjúkrunarmál

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég vil biðja velvirðingar á þeim formgalla þessarar fsp. minnar um hjúkrunarmál, að ég hef beint henni í öllum liðunum til hæstv. heilbrmrh., enda þótt sumir liðanna fjalli um Hjúkrunarskóla Íslands, sem heyrir undir menntmrh. Ég vona, að þetta komi ekki að sök.

Það er öllum hv. alþm. kunnugt, að hér er mjög mikill og að því er virðist vaxandi skortur hjúkrunarliðs. Þetta er orðið svo mikið og alvarlegt vandamál, að það torveldar stórlega eðlilegan rekstur þeirra sjúkrahúsa, sem nú eru í landinu og mega þau þó sízt við því, þar sem sjúkrahúsaskortur er hér mikill, eins og allir vita. Nú er hins vegar unnið að því að bæta mjög verulega úr sjúkrahúsaskortinum, sérstaklega hér í höfuðstaðnum, þar sem bæði er í smíðum mikil viðbót við Landsspítalann og Borgarsjúkrahús. Þessum framkvæmdum hefur að vísu miðað of hægt miðað við hina ákaflega brýnu þörf, en nú er auðsæ viðleitni í þá átt að auka heldur skriðinn í þessum efnum og ber að fagna því. En áður en ný sjúkrahús geta með eðlilegum hætti tekið til starfa, þarf tvímælalaust að gera mikið átak í þá átt að bæta úr hinum mikla og alvarlega skorti sem hér er nú þegar á sérmenntuðu hjúkrunarliði. Það þarf vitanlega að kanna allar hugsanlegar leiðir til þess að bæta úr til bráðabirgða. Mér er ljóst, að það er fráleitt auðgert, en þörfin er svo brýn, að til allra tiltækra ráða verður að grípa. Þrennt sýnist koma þar helzt til greina. Í fyrsta lagi að freista þess að ráða hingað erlent hjúkrunarfólk. Þetta mun vafalítið torvelt, a.m.k. í stórum stíl, því að víðast hvar er mikill skortur á fólki með þessa þjálfun og menntun. Það er víðar en hér, sem þannig er ástatt. Í öðru lagi að gera hjúkrunarkonum, sem eru húsmæður, kleift að vinna hjúkrunarstörf, t.d. með skipulagðri heimilishjálp í einni eða annarri mynd. Og í þriðja lagi væri vissulega vert að athuga, hvort ekki mætti efna til námskeiða fyrir stúlkur og jafnvel pilta, fólk, sem gæti orðið aðstoðarfólk við hjúkrunarstörf, meðan skorturinn á fulllærðu hjúkrunarfólki er eins mikill og hann er nú.

Þetta eru þau atriði, sem m.a. þyrfti að taka til athugunar nú þegar, ef það hefur ekki verið gert, til þess að bæta úr allra brýnustu þörfinni. En hitt er svo öllum ljóst, að til frambúðar er það eina úrræðið að stækka mjög og efla hjúkrunarskólann, jafnframt því sem hjúkrunarfólki verði á hverjum tíma tryggð viðunandi launakjör. Nýtt húsnæði fyrir hjúkrunarskólann er nú í byggingu og það þarf vitanlega að komast í fullt gagn sem allra fyrst. Því ber að fagna, að í fjárlagafrv. fyrir næsta ár eru ætlaðar 7 millj. kr. til þessarar bráðnauðsynlegu framkvæmdar, en hvort það er hins vegar nægilegt, eins og á stendur, miðað við hina brýnu þörf, það er mér ókunnugt um. En þess er að vænta, að hæstv. ríkisstj. tryggi það, að hið nýja húsnæði hjúkrunarskólans komist í notkun sem allra fyrst.

En jafnframt þarf að huga hér að mikilvægu atriði. Það verður að tryggja hjúkrunarskólanum næga og góða kennslukrafta. Það er nú þegar, eftir því sem mér er tjáð, alvarlegur skortur á hjúkrunarkonum með nauðsynlega framhaldsmenntun, sem geta tekið að sér þjálfun og kennslu við skólann, þegar hann stækkar. Mér er jafnvel tjáð, að skólastjóri og þær kennslukonur aðrar, sem nú bera hita og þunga dagsins að því er varðar þetta starf, þær séu þegar ofhlaðnar störfum. Það skortir mikið á, að við eigum í dag næga kennalukrafta til að vinna við skólann og þá enn þá fremur, þegar hann stækkar verulega.

Hér þarf tvímælalaust að gera skjótar ráðstafanir af hálfu hins opinbera til þess að ráða bót á þessu, t.d. með því að veita sérstaka styrki vel hæfum hjúkrunarkonum, sem vildu búa sig undir þetta ábyrgðarmikla starf, með því að leita framhaldsnáms erlendis.

Ég tel ekki þörf á að fylgja þessari fyrirspurn úr hlaði með fleiri orðum. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. gerir sér grein fyrir, að skortur hjúkrunarliðs er mikið vandamál. sem verður að ráða sem skjótasta og bezta bót á. Ég er þess einnig fullviss, að hv. Alþingi mun stuðla að því fyrir sitt leyti, að farsæl lausn þessa máls náist, svo sem með því að heimila nauðsynlegar fjárveitingar í því skyni.