04.11.1964
Sameinað þing: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í D-deild Alþingistíðinda. (3146)

209. mál, hjúkrunarmál

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Vegna skiptingar starfa okkar ráðh. mun ég svara hér 1. lið spurningarinnar, en menntmrh. 2. og 3. lið.

1. liður er um það, hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu heilbrigðisstjórnarinnar vegna skorts á hjúkrunarfólki í sjúkrahúsum. Ég hygg, að það komi nokkuð ljóst fram af bréfi landlæknis til mín, dags. 29. okt., sem er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á s.l. hausti fóru fram viðræður, einkum milli borgarlæknis og landlæknis og síðan við ýmsa aðila hjúkrunarstéttarinnar, um þjálfun á nýju starfsliði til hjúkrunarstarfa, til þess að reyna að einhverju leyti að bæta úr hinum mikla skorti, sem nú er á hjúkrunarkonum í landinu. Hinn 20. febr. s.l. var málið tekið fyrir á fundi skólanefndar Hjúkrunarskóla Íslands. Auk nefndarmanna sátu þennan fund skólastjóri hjúkrunarskólans, frk. Þorbjörg Jónsdóttir, formaður Hjúkrunarfélags Íslands, frk. Anna Loftsdóttir og varaformaður, frk. María Finnsdóttir, varaforstöðukona landsspítalans, frk. Sigurlína Gunnarsdóttir og borgarlæknir. Voru menn á einu máli um, að nauðsyn bæri til að fá sérstaklega þjálfað fólk til að létta einfaldari störfum af hjúkrunarkonum á sjúkrastofnunum hér á landi. Greindi menn nokkuð á um, hve mikla menntun þetta hjálparlið skyldi hljóta, en flestir álitu, að rétt væri að gera ekki háar kröfur í þessu efni, a.m.k. ekki fyrst í stað, betra væri að fikra sig áfram, eftir því sem reynslan segði til um.“

Kvaðst landlæknir fús til að beita sér fyrir nánari athugun málsins. Í samræmi við það tilnefndi ég í byrjun marz 1964 menn til þess að gera till. um nám og starfssvið hjálparfólks við hjúkrunarstörf í sjúkrahúsum og öðrum stofnunum og hafa þessi átt sæti í n.: Príorinna St. Jósefsspítalans að Landakoti, systir Hildegard, forstöðukona landsspítalans, frk. Sigríður Bachmann, skólastjóri Hjúkrunarskóla Íslands, frk. Þorbjörg Jónsdóttir, varaformaður Hjúkrunarfélags Íslands, frk. María Finnsdóttir, forstöðukona Kleppsspítalans og borgarlæknir, dr. Jón Sigurðsson, sem jafnframt var tilnefndur formaður n. N. hélt alls 7 fundi og var hún sammála um nauðsyn á þjálfun hjálparfólks við hjúkrunarstörf og setti fram till. um nám og starfssvið. Til þess að koma á sérstökum reglum um nám þetta þótti eðlilegast að breyta hjúkrunarlögunum á þann veg að fá þar inn heimild til að setja á stofn slíkt nám og ákveða það síðan nánar með reglugerð.

Þessu bréfi landlæknis fylgdu svo drög að frv. til nýrra hjúkrunarlaga og þau drög eru samin í samráði við skólastjóra Hjúkrunarskóla Íslands og stjórn Hjúkrunarfélags Íslands. Til rökstuðnings fyrir þessum frumdrögum að frv. til nýrra hjúkrunarlaga er þetta tekið fram:

„Aðalástæðan til endurskoðunar hjúkrunarkvennalaganna er hinn mikli skortur á hjúkrunarkonum á landinu. Ein leið til að bæta að nokkru úr þeim skorti, er að þjálfa sérstaka stétt aðstoðarfólks, er vinni við hjúkrunarstörf undir stjórn hjúkrunarkvenna. Hefur þessi leið verið farin erlendis og mun hafa reynzt vel. Þykir því rétt að heimila með lögum sams konar ráðstöfun hér á landi. Aðstoðarfólk þetta hlýtur aðallega verklega þjálfun um nokkurra mánaða skeið. Það vinnur ekki á eigin spýtur, en tekur að sér ýmis vandaminni störf undir stjórn hjúkrunarkvenna og getur því að vissu marki komið í stað þeirra.“

Mál þetta eða frv. hefur verið undirbúið af landlækni og borgarlækni í samráði við hjúkrunarkvennasamtökin í landinu og stjórn Hjúkrunarskóla Íslands og fleiri aðila og er í ráði, að Rauði kross Íslands taki að sér að stjórna þjálfun þessa starfsfólks.

Till. um þetta nýja frv. til breyt. á hjúkrunarlögunum er nú til athugunar í dómsmrn., og geri ég ráð fyrir að leggja fram frv. hér að lútandi innan mjög skamms á Alþingi. Ég skal aðeins í þessu sambandi vegna þess, sem fram hefur komið hjá hv. fyrirspyrjanda um hjúkrunarkvennaskortinn, veita eftirfarandi upplýsingar, sem skrifstofa ríkisspítalanna hefur gefið mér varðandi helztu stofnanir, sem undir hana heyra. Það er í fyrsta lagi Landsspítalinn. Er talið, að í spítalanum séu 58–59 hjúkrunarkonur, en ættu að vera 64 samkv. áætluðum fjölda. Það eru því 91.4% af stöðum hjúkrunarkvenna þar setnar. Síðan segir um legudaga og nýtingu sjúkrarýmisins, að nýtingin á sjúkrarýminu hafi verið þar um 99.07% fyrstu 3 ársfjórðungana, en mánuðina júní–sept. fór fram viðgerð á fjórum sjúkrastofum, einni í einu, í handlæknisdeild landsspítalans. Nýting rúma í þessari deild er 95.3% að meðaltali fyrstu 9 mánuði ársins. Í októbermánuði var ein sjúkrastofa í handlæknisdeild ónotuð vegna skorts á hjúkrunarkonum. Þessi stofa er nú aftur í notkun frá 1. nóv. Um fæðingardeildina segir svo, að í deildinni starfi um 13 hjúkrunarkonur og 20 ljósmæður. Í áætlun var gert ráð fyrir 19 hjúkrunarkonum og 14 ljósmæðrum. Í fæðingardeildinni starfa því 6 ljósmæður í stöðum, sem í áætlun er gert ráð fyrir hjúkrunarkonum, en heildartalan er svo sem þar hefur verið áætlað. Samkv. legudögum og nýtingu í fæðingardeild hefur hún verið að fullu nýtt, eins og gert hefur verið ráð fyrir. Í Vífilsstaðahælinu starfa nú 10 hjúkrunarkonur, en ættu að vera 11 samkv. áætlunum þar um. Í Kleppsspítalanum starfa nú 21–22 hjúkrunarkonur, en þar hefur verið gert ráð fyrir að störfuðu 33. Vantar því þar um 1/3 hluta þeirra hjúkrunarkvenna, sem þörf er fyrir. Að nokkru leyti mun bætt úr þessu með starfi ófaglærðs vinnukrafts, en þarna er ástandíð mjög alvarlegt, einkum og sér í lagi vegna þess, hve yfirálagið er mikið á Kleppsspítalanum og er það yfirálag sjúklinga um 34 að meðaltali á dag, miðað við það, sem teljast mætti eðlilegt. Það er eins og hv. þm. er kunnugt um, eitt alvarlegasta viðfangsefnið á sviði heilbrigðismálanna eða varðandi byggingu nýrra heilbrigðisstofnana að bæta úr hinum tilfinnanlega skorti vegna geðsjúklinga hér á landi og gerði ég nánar grein fyrir því á síðasta þingi. Það er að því unnið og gert ráð fyrir vissum bráðabirgða ráðstöfunum, sem ég vék einnig að þá og skal ekki minna á nú. En hér er mjög alvarlegt mál á ferðinni og mikið átak framundan, sem sjá verður fyrir úrlausn á, á næstu árum, bæði með miklum fjárveitingum og einnig skjótum aðgerðum. Í fávitahælinu í Kópavogi er umönnun og gæzla vistmanna unnin af gæzlusystrum í stað hjúkrunarkvenna og undanfarin ár hefur hælið haft þann vinnukraft, sem þörf hefur verið fyrir.

Ég held þá, að með þessu sé svarað, eftir því sem hægt er að svo komnu máli, 1. lið fsp.