11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í D-deild Alþingistíðinda. (3154)

211. mál, umferðarkennsla

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég tel mig ekki geta komizt hjá að segja, að þau ummæli, sem hv. þm. las úr tímaritsgrein eftir tilgreindan mann, séu mjög orðum aukin og vægast sagt nálgast það að vera sleggjudómur, eins og allir þm. geta dæmt um með hliðsjón af þeim upplýsingum, sem ég veitti og eru fyrir hendi samkv. opinberum skjölum. Þegar hliðsjón er höfð af því, að sérstakur maður hefur haft það sem hálft starf undanfarin 3 ár að annast umferðarkennslu samkv. gildandi lögum og reglugerðum og hann verður með engu móti talinn hafa slegið slöku við sitt starf, heldur þvert á móti unnið það af prýði, fyrst og fremst með því að halda námskeið fyrir kennara í barnaskólum og unglingaskólum og enn fremur með því að halda námskeið fyrir kennara við Kennaraskóla Íslands og Íþróttakennaraskólann, þá finnst mér það vera harður dómur og ósanngjarn um hans verk og hans yfirmanna, ef þarna er talið hafa verið um vítaverða vanrækslu að ræða. Og það er auk þess ekki alveg víst, að menn, sem gegna öðrum og alveg óskyldum störfum, geri sér ljóst það starf, sem fer fram innan sjálfra skólanna og þá fyrst og fremst barnaskólanna. Með því getur að sjálfsögðu enginn fylgzt nema sá, sem ber ábyrgð á hlutaðeigandi barnaskóla, eða þeir, sem eiga börn í hlutaðeigandi barnaskóla. En í þeirri skýrslu, sem ég gaf áðan, kom fram, að umferðarkennslu hefur verið haldið uppi í barnaskólum, þó alveg sérstaklega hér í þéttbýlinu á Suðvesturlandi, fyrir forgöngu þessa trúnaðarmanns ríkisvaldsins um umferðarkennslu í skólum. Hefði þeirri kennslu ekki verið haldið uppi, jafnvel, þó að hann hefði haldið sín námskeið, eins og hann hefur gert, mætti segja, að málinu væri mjög ábótavant. En kennararnir sjálfir hafa sem lið í sínu almenna skólastarfi haldíð slíkri kennslu uppi og með því tel ég að grundvallarhugsuninni í gildandi lögum og reglugerð hafi verið framfylgt.

Hitt er annað mál, að ég skal fúslega á það fallast, að þessi kennsla mætti og ætti að stóraukast frá því, sem verið hefur. Hins vegar er það engin nýlunda, að jafnalgert nýmæli og hér var lögtekið 1958 og ekki tókst að setja reglugerð um fyrr en 1960, komi ekki til fullra framkvæmda þegar, við skulum segja á fyrstu 5 árunum, sem nýmælin eru í gildi. Það er áreiðanlega ekkert einsdæmi. Auðvitað verða menn að gera sér ljóst, að umferðarkennsla í skólum fellur að sumu leyti utan við venjulegt námsefni skólanna, utan við venjulegan verkahring kennaranna og ég tel það alls ekki ámælisvert, tel það ekki ástæðu til ámælis, hvorki í garð kennarastéttarinnar né heldur í garð þess umsjónarmanns, sem þessa umsjón hefur annazt, þó að framkvæmd málanna sé ekki orðin eins fullkomin og ég játa fúslega að hún ætti að vera og þarf að vera.

Varðandi það, að engin almenn fyrirmæli hafi borizt frá fræðslumálastjóra til skólanna um þetta efni, bréfleg eða munnleg, er það að segja, að fræðslumálastjórnin fól sérstökum fulltrúa að hafa framkvæmd þessara mála með höndum, Jóni Oddgeiri Jónssyni og að því hefur hann starfað í 3 ár og var það að sjálfsögðu miklu líklegra til árangurs, en að skrifa skólastjórunum bréf.