11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í D-deild Alþingistíðinda. (3158)

211. mál, umferðarkennsla

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður sagði, að af þeirri grein, sem annar hv. þm. las eftir Baldvin Þ. Kristjánsson um þetta mál. virtist mega draga þá ályktun, að allt væri ómögulegt á þessu sviði. Hins vegar mætti e.t.v. draga þá ályktun af skýrslu minni, að allt væri í himnalagi í þessum efnum. Ég tel skýrslu mína bera vott um það, að ef það væri satt, sem ég vil nú ekki um segja, sem Baldvin Þ. Kristjánsson hafi sagt, því að ég hef ekki lesið hans grein, en ef af henni mætti draga þá ályktun, að hann teldi allt vera ómögulegt á þessu sviði, þá væri það sleggjudómur og mjög ranglátur dómur um það starf,sem unnið hefur verið hér s.l. 3–4 ár. Hins vegar vil ég mælast alveg undan þeirri túlkun á minni skýrslu, að ég telji allt vera í himnalagi í þessum efnum. Ég sagði þvert á móti í upphafi minnar skýrslu, að hér væri um mikið vandamál að ræða og í niðurlagi hennar, að ég teldi brýna þörf á að gera hér mun betur, en gert hefði verið hingað til og lauk máli mínu með því, að ég mundi beita mér fyrir því, að starf Jóns Oddgeirs Jónssonar, sem að þessum málum vinnur, yrði framvegis fullt starf, þegar ráðningartíma hans sem hálfs dags starfsmanns lýkur nú í lok þessa árs, ef ég man rétt og hygg mig þar fara rétt með. Ég vil enn fremur minna á, í þessu sambandi, að það var upphaflega tilætlun menntmrn., að starf hans yrði heilt starf, og fram á það farið við þau yfirvöld, sem um það mál fjalla, þegar nýir opinberir starfsmenn eru ráðnir. Þá komst málið hins vegar ekki lengra en það, að hans starf skyldi vera hálft starf. Nú tel ég reynsluna af starfi hans í hálfu embætti þessi 3 ár tvímælalaust vera þannig, að starfið eigi að auka og það eigi að búa betur að því en hingað til hefur verið. Hins vegar vil ég segja það til afsökunar þeirri nefnd, sem ekki vildi fallast á, að starfið yrði nema hálft starf í byrjun, að hér var um algert nýmæli að ræða og það er oft hyggilegt að fara varlega af stað, þegar um nýmæli er að ræða og stofna ekki til meiri kostnaðar eða meiri fjölgunar embættismanna en bráðnauðsynlegt er. N. taldi gagnstætt því, sem við töldum í menntmrn., að hér væri ekki um að ræða nema hálft starf. Nú tel ég og mínir embættismenn í menntmrn. reynsluna hafa sannað, að hér sé um fullt starf að ræða, hér geti verið um fullt starf að ræða, að fullum starfskröftum eins manns væri vel varið með þessu móti. Þess vegna lauk ég skýrslu minni áðan með þeim orðum að, að því mundi verða unnið, að starf þessa manns yrði gert að fullu starfi.

Hv. 5. þm. Vestf. spurði, hvað hann væri búinn að heimsækja marga skóla og hvort kennurum væri skylt að víkja eða láta honum í té hluta af sínum kennslutímum, ef hann óskaði eftir því, þegar hann heimsækti skóla. Ég hef því miður ekki á reiðum höndum hér skýrslu um það, hversu marga skóla Jón Oddgeir Jónsson hefur heimsótt, en ég veit, að þeir eru margir og ég veit ekki betur en hann sé einmitt nú um þessar mundir á ferðalagi til heimsókna í skóla. Mér er ekki kunnugt um það, að nokkru sinni hafi komið til ágreinings milli hans og kennara varðandi það, hvernig umferðarkennslunni skuli hagað. Ég veit ekki betur, en kennarar og skólastjórar, hafi verið mjög samvinnuliprir við Jón Oddgeir Jónsson varðandi tilhögun kennslunnar og þess er ég fullviss, að ef einhvern tíma hefði komið til ágreinings milli umferðarkennarans eða námskeiðshaldarans annars vegar og skólastjóra eða kennara hins vegar, hlyti vitneskja um það að hafa borizt til fræðslumálastjóra og þá væntanlega einnig til mín. Um slíkan ágreining er mér ekki kunnugt.

Að síðustu vil ég undirstrika það, að þó að því fari víðs fjarri, að ég telji allt vera í himnalagi í þessum efnum, allt vera orðið eins og það gæti bezt verið, þá vil ég samt undirstrika, að mikið hefur verið gert. Það hefur þegar verið samin kennslubók í umferðarmálum. Það var auðvitað forsenda þess, að hægt væri að hefja kennsluna og henni hefur þegar verið dreift í 8.000 eintökum í skólana. Og með þessa bók að handbók hefur umferðarkennsla átt sér stað meira eða minna í flestum skólum landsins. Enn fremur hafa verið haldin í 3 ár námskeið með starfandi kennurum, þannig að þeim sé kleift að annast kennsluna sjálfir, eins og gert er ráð fyrir að eigi sér stað á skólaskyldualdrinum. Þegar á s.l. vori var haldið próf í umferðarreglum í öllum barnaskólum og nokkrum unglingaskólum í mesta þéttbýli landsins, Reykjavík, Kópavogi og nágrenni, þannig að það mikilvæga atriði reglugerðarinnar, að próf skuli haldið, kom til framkvæmda á s.l. vori og enn fremur er unnið að því núna, að slíkt próf verði haldið í öllum 12 ára bekkjum barnaskóla í öllum kaupstöðum landsins á næsta vori.

Með því að undirstrika þessi atriði vona ég, að hv. alþm. sannfærist um, að ekki hefur verið sofið á verðinum í þessu efni. Það er ekki um svo mikla vanrækslu að ræða eins og kann að mega álykta af þeirri grein, sem hér hefur verið vitnað til. Síðustu orð mín skulu enn vera þau að viðurkenna fúslega, að hér er um mjög brýnt úrlausnarefni að ræða, og það mun ekki standa á menntmrn. að standa sem fastast á því, að gildandi lögum og reglugerðum í þessu efni verði framfylgt.