16.12.1964
Efri deild: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

107. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að þetta frv. er afleiðing af frv. því, sem verið var að vísa til n. áðan. Það er dilkur með því frv. Söluskattshækkunarfrv. er móðir þess. Ég kann ekki við annað en vekja athygli á því, að þessi dilkur er ekki á vetur setjandi, eins og hann er á sig kominn. Mér þykir það í raun og veru hálfraunalegt, að hæstv. fjmrh. skuli leggja fram og mæla með svona frv., sem felur það í sér, að söluskattshluti sá, sem á að ganga til sveitarfélaganna, á að standa í stað í þeirri miklu dýrtíð, sem nú er, og jafnframt því, að álögur til ríkisins eru hækkaðar, álögur, sem leiða af sér hækkun á tekjuþörf sveitarfélaganna m.a. Eitt sinn var það, að hæstv. fjmrh. beitti sér fyrir því, að sveitarfélögin fengju 1/5 af söluskatti. Ég fylgdi honum fast í því máli.

Það er nú svo með hæstv. ríkisstj., að það er eins og hún sé alltaf á flótta nú orðið. Og undan hverju? Ja, menn segja: Hún er á flótta undan skugganum af sjálfri sér. Dýrtíðin hrekur hana. Menn hafa hér í sambandi við móðurfrv. þessa frv. lagt áherzlu á það með ýmsu móti, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur beðið ósigur og hrökklazt frá markmiðum þeim, sem hún í upphafi síns starfs lýsti yfir, að hún hefði, og kallaði þá stefnu sína viðreisnarstefnu. Í hug minn hefur sérstaklega komið undir þessum umr. kvæði eftir Davíð Stefánsson, eitt af sterkustu kvæðum hans. Það heitir „Skriftamál gamla prestsins.“ Gamli presturinn leit yfir ævi sína og var nú hættur prestsskap. Og hann taldi upp mistök sín, stór og mörg, og sagði m.a.: „Ég barst eins og flak fyrir bylgjum og straumi.“ Mér finnst það eiga við um þessa hæstv. ríkisstj., að hún berist eins og flak undan bylgjum og straumi. Presturinn var orðinn hempulaus, þegar hann gerði sín skriftamál, og ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti sem fyrst að fara úr hempunni, þegar svona er komið. Ég veit það, þó að hún geri ekki sínar skriftir nú, þá mun sá tími koma, að hún skriftar eins og gamli presturinn og sér þá eftir því, hvað hún hékk lengi í embætti sínu.

Eins og ég gat um áðan, var hlutur sveitarfélaganna af söluskatti upphaflega fimmtungur, og fyrir því beitti hæstv. fjmrh. sér. Þetta hefur gilt hingað til um þann skatt, 3% söluskattinn. En þegar skattur þessi var hækkaður upp í 5 1/2% í fyrra, á síðasta þingi, var ekki við það komandi, að sveitarfélögin fengju fimmtung af honum. Á flótta sínum hafði þá hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. týnt áhuga á því að láta sveitarfélögin njóta síns hlutfalls af söluskattinum.

Samkv. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að söluskatturinn verði 677.4 millj. kr. 1965. Og á hinu nýja frv. er gert ráð fyrir, að rúmlega 300 millj. kr. bætist þar við. Segja má því öfgalaust, að líkur séu til, að stofnað sé til þess að innheimta með þessum söluskatti 1 milljarð. Eftir gömlu hlutaskiptareglunni ættu sveitarfélögin að fá af þessari upphæð 1/5 eða 200 millj. Hins vegar er nú með frv. þessum, sem lögð hafa verið fram, aðeins gert ráð fyrir, að í hlut sveitarfélaganna komi 75 millj. eða nálega alveg sama upphæð og í fjárlagafrv., áður en viðbótarsöluskattur sá, sem nú er á döfinni, er á lagður. En til þess að sýna ríkisstj. fulla sanngirni, og það er sjálfsagt að gera það, — það á að sýna öllum sanngirni, gömlum poka- og syndaprestum líka, — þá er rétt að geta þess, að 76.65 millj. eru hluti sveitarfélaganna af aðflutningsgjöldum á fjárl. Þessi hluti fékkst þannig, að þegar bráða birgðasöluskatturinn. sem eitt sinn var á lagður og margendurtekinn til bráðabirgða, var látinn hverfa, til eilífrar þjónustu, vil ég segja, inn í tollheimtuna, var ákveðið, að jöfnunarsjóður sveitarfélaganna skyldi fá 5% af aðflutningsgjaldatekjunum og þær gera 76.65 millj. samkv. fjárlagafrv. Og þess vegna er það svo, að samkv. fjárlagafrv. og samkv. þeim nýju frv., sem nú liggja fyrir, er gert ráð fyrir, að sveitarfélögin fái alls 151 millj. 650 þús. í sinn hlut af þessum afla. Ég vil telja, að þetta sé fráleitt tillitsleysi við sveitarfélögin. Dýrtíðin bitnar á sveitarsjóðunum ekki síður en á ríkissjóði. Og þeirra hlutverk eru ekki síður þýðingarmikil á sínum sviðum en hlutverk ríkissjóðsins.

Mikið hlutfall af útgjöldum sveitarfélaganna er bundið með löggjöf og hreyfist til hækkunar, án þess að þau fái við það ráðið löggjöf sú, sem nú á að setja um hækkun söluskatts, bitnar hreint og beint á þeim, vegna þess að starfsemi þeirra er að verulegu leyti þjónusta, sem skatturinn fellur á. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann vilji ekki taka þátt í því eða beita sér fyrir því að breyta frv. þessum á þá leið, að sveitarfélögum verði tryggt að fá í sinn hlut alls ekki minna en einn fimmtung af sölusköttum, eins og áður var. Þá skilst mér, að sá hluti, sem sveitarfélögin fá gegnum jöfnunarsjóðinn, gæti orðið yfir 1000 kr. á mann, auk þess sem jöfnunarsjóðurinn héldi svo töluverðu eftir af skatti til sinna þarfa, t.d. til þess að hlaupa sérstaklega undir bagga hjá þeim sveitarfélögum, sem eiga í þröngri vök að verjast, en það þarf jöfnunarsjóðurinn að geta gert. Ég mun sennilega við 3. umr. gera brtt. á þessa leið, þ.e.a.s. ef hæstv. fjmrh. tekur ekki af mér ómakið, þegar hann hefur hugsað sig um og gert smávegis skriftir. Og ég er viss um það, að sveitarstjórnarmenn munu taka undir það, að hér sé verið að beita rangindum, og óska þess, að hlutur. sveitarfélaganna verði réttur frá því, sem er í þessu frv.

Mér virðist, að þótt hæstv. ríkisstj. eigi bágt, eins og hæstv. fjmrh. hefur í raun og veru lýst í ræðum sinum, sé ekkert vit í því af hæstv. ríkisstj. að taka ekki til greina till. um það, að jöfnunarsjóðurinn fái sama hlutfall og áður af aðflutningsgjöldum og söluskatti samanlagt, sem sé 1/5, eins og byrjað var með. Mér virðist, að hin botnlausa ráðleysis- og flóttasaga hæstv, ríkisstj. í sambandi við álagningu skattanna og útsvaranna 1964 geri hæstv. ríkisstj. enn þá skyldugra en ella, þótt fullskylt væri að vísu annars, að lækka ekki söluskattshlut sveitarfélaganna, en með því að ætla að láta hann standa í stað að krónutölu, er hann stórlega lækkaður að gildi.

Ég lít svo á, að það uppþot, sem varð í sumar sem leið út af sköttum og útsvörum, hafi verið réttmætt og þær undirtektir, sem þær kvartanir og klögumál, sem fram komu í þessum efnum, fengu, hafi gefið það í skyn, að á einhvern hátt yrðu léttar byrðar þeirra, sem þessi gjöld féllu óvænt á, óvænt segi ég, vegna þess að hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsflokkum hafði tekizt með gyllingum að koma þeirri skoðun inn hjá almenningi, að byrðarnar yrðu léttari en áður, það væri verið að létta af fólki byrðum. Og ég lit svo á, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v., að í ræðu hæstv. fjmrh. í ágúst í sumar hafi verið sá andi, sem réttmætt var að fólk liti svo á að boðaði það, að á einhvern hátt mundi stjórn landsins stuðla að því á þessu ári, að menn yrðu ekki ofreyndir undir þeim álögum, sem fallnar voru á herðar þeim. Það má vera, að hæstv. ráðh. geti sýnt fram á það með því að leggja fram þessa ræðu, að engin bein loforð hafi í henni falizt. En allur andinn var sá. Ég kann ekki þá ræðu, þó að ég hlustaði á hana, en hún verkaði þannig á mig og ég fann það greinilega, að hún verkaði almennt á þá leið, að menn töldu það gamla prestinum til heiðurs að taka þannig undir við sóknarbörnin. Ég tel þess vegna, að skyldan sé fullkomin og ríkisstjórninni beri fullkomlega skylda til að gera eitthvað og megi ekki minna vera en að láta sveitarfélögin fá 1/5 hlut af söluskattinum, svo að þau geti verið vægari í álögum á næsta ári en á þessu ári, sem nú er að líða.

Ég endurtek það, að ég vildi mega vænta þess, að hæstv. fjmrh. athugaði, hvort hann getur ekki fallizt á að breyta frv. á þá leið, sem ég hef bent á að er skylt og nauðsynlegt, hef svo ekki um þetta fleiri orð, því að frv. kemur í þá nefnd, sem ég á sæti í.