18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í D-deild Alþingistíðinda. (3172)

35. mál, akbrautir milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Út af fyrir sig er ekki óeðlilegt, þótt fsp. komi fram um þetta mál, sem vissulega snertir ekki aðeins þá, sem búa í Kópavogi eða þar í grennd. Slysahættan hlýtur að vera mál allrar þjóðarinnar,og það hlýtur að vera áhugamál allra að reyna að koma í veg fyrir slysin. En eins og umferðinni er háttað þar syðra, er slysahætta mjög mikil og umferðaröngþveiti, eins og oft hefur verið að orði komizt. En ástæðan til þess, að ekki hefur enn verið hafizt handa um nýjan veg, er ekki aðeins fjárskortur, heldur að það hefur staðið á skipulaginu í Kópavogskaupstað, til þess að nokkuð væri hægt að byrja á þeim framkvæmdum. Kópavogskaupstaður hefur átt kost á að fá drjúgan hluta af þeim 10% af kaupstaðaframlaginu, sem fallið hefur til á þessu ári, en þetta fé hefur ekki verið hægt að nota og er það þess vegna geymt, þar til skipulaginu er lokið á staðnum og hægt verður að nota féð.

En í sambandi við fsp. er það að segja um a-lið hennar, að í sambandi við heildarskipulag Reykjavíkur og nágrennis hefur lega aðalumferðaræða á svæðinu verið ákveðin í aðalatriðum af hlutaðeigandi aðilum. Samkvæmt því er ákveðið, að aðalleiðin milli Reykjavíkur, Kópavogs, Garðahrepps og Hafnarfjarðar verði um Miklubraut og Kringlumýrarbraut á núverandi Reykjanesbraut við Fossvogslæk og fylgi þaðan núverandi vegi um Kópavog og Garðahrepp til Hafnarfjarðar. Núverandi vegur úr Fossvogi til Hafnarfjarðar verður síðan endurbyggður miðað við þá umferð, sem vænta má þar í framtíðinni. Þá er samkv. heildarskipulaginu gert ráð fyrir nýrrí hraðbraut frá Elliðaám við Blesugróf um austanverðan Kópavog, Garðahrepp, á Reykjanesbraut austan Hafnarfjarðar. Er gert ráð fyrir, að þessi nýi vegur muni létta töluvert umferð af núverandi Reykjanesbraut um Kópavog. Þessar breytingar á þjóðvegakerfinu koma að sjálfsögðu til kasta Alþingis við afgreiðslu á vegáætlun fyrir árin 1965–1968. Unnið er nú að áætlunum og tæknilegum rannsóknum í sambandi við lagningu á fyrsta áfanga hins nýja vegar af Miklubraut um Fossvog og Kópavogskaupatað, suður fyrir Kópavog. Er þess vænzt, að frumáætlanir geti legið fyrir upp úr áramótum.

Reykjavíkurborg hefur þegar hafið framkvæmdir við Kringlumýrarbraut sunnan Miklubrautar og lokið malbikun á, kaflanum suður að Öskjuhlíð og er nú verið að sprengja í vegarskerðingu í gegnum Öskjuhlíðina niður í Fossvogsdalinn. Vonir standa til, að hægt verði að hefja framkvæmdir við veginn í Fossvogi og um Kópavog á vori komanda.

Um b-liðinn er það að segja, en hann hljóðar svo:

„Er að vænta frekari bráðabirgðaráðstafana af hálfu vegamálastjórnarinnar til þess að bæta úr því umferðaröngþveiti, sem nú ríkir á leiðinni milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar .

Með tilliti til þess, að áætlað er, að framkvæmdir geti hafizt við endurbyggingu Reykjanesbrautar um Kópavogskaupstað á vori komanda, er ekki talið gerlegt að gera neinar teljandi bráðabirgðaráðstafanir vegtæknilegs eðlis í Kópavogskaupstað til þess að draga úr núverandi erfiðleikum vegna umferðarinnar þar. Um leið og framkvæmdir við lagningu vegarins verða hafnar, verður óhjákvæmilega að gera víðtækar bráðabirgðaráðstafanir vegna umferðarinnar, sem kosta munu mikið fé. Sérstakar vegtæknilegar ráðstafanir nú yrðu því aðeins til nokkurra mánaða og koma því tæplega til greina. Hins vegar mun vera í ráði að tilstuðlan dómsmrn. og bæjaryfirvalda í Kópavogskaupstað, að lögreglulið kaupstaðarins verði aukið, m.a. til þess að bæta löggæzlu og eftirlit með umferðinni og þá sérstaklega með umferð yfir Reykjanesbraut innan kaupstaðarins. Gæti það einnig orðið til þess að draga úr slysahættunni. Unnið er nú að því að leggja gangstétt meðfram Reykjanesbraut frá Silfurtúni og auður fyrir Hraunsholtslæk. Er það gert í samvinnu við hreppsnefnd Garðahrepps og á að geta dregið verulega úr slysahættu gangandi manna á þessum stað. Eins og hér er að vikið, standa vonir til, að frumáætlanir liggi fyrir upp úr næstu áramótum, en endanlegar áætlanir geti legið fyrir með vorinu og að hefjast megi handa um framkvæmdir á þessum stað á sumri komanda.