18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (3173)

35. mál, akbrautir milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgmrh. skýr svör. Ég þarf ekki að leggja frekari áherzlu á þessa fsp. Ég sýndi fram á, hve umferðin væri geysilega mikil á þessu svæði og hve það er mjög áríðandi að unnið verði að þessum málum, þ.e. lagningu nýrra akbrauta um þetta svæði, eins fljótt og verða má. Það gleður mig, að nú um áramótin skuli verða gerð áætlun um nýja akbraut á þessu svæði, því að nauðsynin er brýn. Það er einnig fagnaðarefni, að ráðstafanir hafa verið gerðar eða munu verða gerðar, ekki eingöngu af vegamálaskrifstofunni, heldur einnig af hreppsnefnd Garðahrepps svo og bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar, til þess að auka umferðaröryggi á þessu svæði. — Ég endurtek þakklæti mitt til hæstv. samgmrh.