18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í D-deild Alþingistíðinda. (3177)

43. mál, húsnæðismál Alþingis

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Á Alþingi 1960 flutti ég ásamt hv. 3. þm. Vesturl., Halldóri E. Sigurðssyni, svo hljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að kjósa 5 manna nefnd, er vinni að því í samráði við ríkisstj. að gera tillögur um stækkun alþingishússins eða byggingu nýs þinghúss eftir því, hvort betur þykir leysa þörf Alþingis fyrir viðunandi húsnæði. N. skal skila till. til Alþingis eigi síðar en haustið 1962.“

Þessi till. var afgreidd frá Alþingi 28. marz 1961 á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela forsetum þingsins í samvinnu við fulltrúa frá þingflokkunum að gera tillögur um framtíðarhúsnæði Alþingis.“

Þar sem 3 ár eru liðin síðan umrædd till. var samþ. á hv. Alþingi, beindi ég fyrir nokkru utan dagskrár þeirri fsp. til hæstv. forseta, hvenær mætti vænta álits forseta og meðnm. þeirra. Hæstv. forseti kvaðst ekki vilja svara þessari fsp. utan dagskrár og hef ég því lagt hana formlega fram. Í samráði við forseta er fsp. nú beint til hæstv. forsrh., þar sem húsnæðismál þingsins heyra undir ráðuneyti hans og hann hlýtur því að fylgjast með störfum forseta varðandi það efni, er áður nefnd till. fjallar um.

Ég hygg, að allir hv. þm. séu sammála um, að Alþingi býr nú við algerlega óviðunandi húsnæði. Fyrst má byrja á því, að inngangurinn inn í húsið er raunar ekki mönnum bjóðandi, en þar á ég við þrengslin í fatageymslunni. Þrengslunum í þessum sal þarf ekki að lýsa, einkum þó þegar fundur er í sameinuðu þingi. Þó er þetta ekki verst. Starfsskilyrði þm. eru fyrir neðan allar hellur, enginn aðgangur að bókasafni, alveg ófullnægjandi fundaherbergi, ekki nein sérher

bergi, þar sem þm. geti unnið eða rætt við menn, sem koma til fundar við þá.

Við látum mikið af því, Íslendingar, að Alþingi sé elzt núverandi þjóðþinga. Þetta auglýsum við okkur til frægðar utan landssteinanna. En hvað skal þeim, sem sjá og koma í þinghúsið, þykja um ræktarsemi okkar við þetta elzta þing veraldar? Má í því sambandi minna á, að allar nýfrjálsar þjóðir hafa yfirleitt byrjað á því að reisa þingum sínum vegleg húsakynni.

Það hefur tafið mjög aðgerðir í þessum efnum, að menn hefur greint á um, hvort byggja eigi nýtt þinghús ella koma upp viðbótarbyggingu við núverandi þinghús. Meðan engin stefna er mörkuð varðandi þetta, halda menn að sér höndum. Það, sem þarf því að gera, er að taka ákvörðun um þetta sem allra fyrst og miða síðan framkvæmdir við það. Þess vegna var umrædd till. flutt á sínum tíma. Þess vegna má það ekki dragast, að umrætt álit forseta og meðnm. þeirra liggi hér svo tímanlega fyrir, að hægt verði að taka ákvörðun um þetta mál á þessu þingi.