18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (3178)

43. mál, húsnæðismál Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Að þessu máli hefur verið unnið eins og ráðgert hafði verið á undanförnum missirum. Enn hefur ekki tekizt að ná samkomulagi milli þeirra aðila, sem um málið fjalla, og hefur þótt ráðlegra að láta ekki skerast í odda, heldur kanna, til hlítar, hvort samkomulagi sé hægt að ná, eða a.m.k. að leita eftir eins víðtæku samkomulagi og frekast er unnt að fá. Málið hefur enn verið tekið upp á s.l. hausti, bæði varðandi framtíðarbyggingu fyrir þinghúsið og eins með hverjum hætti eða hvort unnt sé að ráða til bráðabirgða bót á þeim vandræðum, sem við er að etja. Ég geri ráð fyrir, að fulltrúar flokkanna hafi haft samráð við flokka sína um þau atriði, sem til greina koma, eða a.m.k. er auðvelt fyrir hvern flokksmann að krefja sinn umboðsmann í n. sagna um, á hvaða stigi málið er. En þar sem álit forseta og samstarfsmanna þeirra í heild liggur enn ekki fyrir, tel ég ekki rétt að ræða um málið nú í einstökum atriðum. Hitt hygg ég, að öllum sé ljóst, að hér er umbóta þörf og æskilegt er, að heildartill. um lausn málsins geti orðið sem fyrst lagðar fram.