18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (3179)

43. mál, húsnæðismál Alþingis

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Mér fannst svar hæstv. forsrh. vera nokkuð loðið og hann víkja sér undan því að svara fsp., þar sem hún fjallar um það, hvenær megi vænta álits forsetanna og þeirra meðnm. En ég vil aðeins í framhaldi af því, eins og ég hef áður sagt, leggja áherzlu á það, að þessu áliti verði hraðað og það svo, að annaðhvort liggi það fyrir, a. m. k, þegar þing kemur saman á ný í vetur, hvort forsetar hafa getað komið sér saman, eða ef svo er ekki, þá álít ég, að þeir eigi að hætta störfum hvað þetta snertir og þeir menn, sem með þeim vinna og þá verði að taka málið upp á annan hátt. Ég tel, að forsetar og þeir, sem með þeim hafa unnið, hafi fengið alveg nægan tíma til að athuga það, hvort hægt er að ná einhverju heildarsamkomulagi í þessu efni, þar sem þessi nefnd er búin að vera að störfum hátt á fjórða ár og ef það liggur fyrir, þegar þing kemur hér saman að nýju, að forsetar hafa ekki getað skilað neinu áliti, þá verði óhjákvæmilegt og eðlilegt að taka málið upp með einhverjum nýjum hætti.

Ég vil jafnframt segja það, þó að það sé að sjálfsögðu mikilvægt, að reynt sé að ná heildarsamkomulagi um þetta mál, þá álit ég, að það eigi ekki að dragast von úr viti að taka einhverjar ákvarðanir, vegna þess að slíkt samkomulag næst ekki og þegar það sé búið að reyna það á hæfilega löngum tíma, hvort hægt sé að ná heildarsamkomulagi eða ekki, þá verði að leita eftir lausn málsins með öðrum hætti og þá verði t.d. atkvgr. hér í þinginu að skera úr um það, hvora stefnuna eigi að aðhyllast heldur, að byggja nýtt þinghús eða viðbótarbyggingu við þetta þinghús. Og það verð ég að leggja áherzlu á og láta vera lokaorð mín að þessu sinni, að ég álít, að við eigum að reyna að halda þannig á þessu máli, að enginn einstakur flokkur geri það að flokksmáli, heldur fái þm. að taka afstöðu til þess án tillits til afstöðu flokka, heldur á þann veg, sem þeir telja réttast og eðlilegast að leysa þetta mál.