18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (3184)

214. mál, héraðslæknar

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Bjarnason) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið og enn fremur þakka ég fyrir það, að þetta mál skuli vera komið á þann rekspöl, er hann lýsti. En eitt er víst, að enda þótt það frv., sem lagt verður fyrir hv. Alþingi innan skamms, kunni að fela í sér margvísleg úrræði til bóta í þessum málum, þá verður það ekki til þess að bæta úr þeirri brýnustu þörf, sem er fyrir þessu málefni nú í dag. Þess vegna vænti ég þess, að hæstv. ráðh. beiti sér fyrir því, þar til hin nýja löggjöf kemur til framkvæmda. að gerðar verði þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar mega teljast til þess, að varðandi þau læknishéruð, sem eiga í mestum erfiðleikum nú sökum læknaskorts, verði reynt úr að bæta, enda þótt kunni svo að fara, að það kosti ríkið eitthvað meira í bili, því að mér skilst, að nýtt frv., sem á eftir að ganga í gegnum báðar deildir Alþingis, geti aldrei náð samþykki á þessu ári, og þurfi líka sinn aðdraganda til þess að skipuleggja ný verkefni, sem það boðar. Þess vegna er það, að það þarf að hafa hraðan á að bæta úr brýnustu þörfum nú, þar til hin nýja löggjöf tekur til starfa.