02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í D-deild Alþingistíðinda. (3193)

208. mál, bifreiðaferja á Hvalfjörð

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir glögg svör og þær upplýsingar, sem hann hefur veitt. Þær upplýsa málið að verulegu leyti, þó að enn sé ekki komið að endanlegum áætlunum, sem varla var við að búast í krafti þessarar till. einnar.

Mér finnst athyglisvert við þessa miklu samgöngubót, að hér er allt í einu farið að tala um, hvort hún geti borið sig eða ekki. Það hafa verið lagðir vegir og gerðar brýr um allt land á undanförnum árum og áratugum, en ég hef aldrei heyrt umr. á þingi um það, hvort viðkomandi samgöngubót mundi bera sig eða ekki. Nú er það að vísu sjálfsagt, að ferjan taki gjald af hverju farartæki, sem hún flytur og það er sjálfsagt að reyna að hafa það mjög í huga, hvort a.m.k. ferjan sjálf geti ekki borið sig. Mér finnst þó rétt að benda á, að hér ríkja nú þegar um mikilsverða samgöngubót, dálítið annarleg sjónarmið, sem ég held, að við megum ekki láta ráða.

Samkvæmt þeim áætlunum, sem hæstv. ráðh. las fyrir okkur, er gert ráð fyrir, að þessi ferja gæti nú þegar flutt 120–150 þús. bíla á ári. Ég held, að umferðaraukning sé svo hröð, að það sé engin goðgá að taka hærri töluna. Segjum svo, að ferjan flytji 150 þús. bíla á fyrsta ári og segjum svo, að það sé aðeins einn maður í hverjum bíl. Við vitum, að ferjan sparar hverju farartæki rúmlega klukkustund. Ef við ætlum þessu fólki aðeins lægsta kaup Dagsbrúnarmanns, þá er um að ræða vinnustundir, sem kosta 4.8 millj. á einu ári. Þetta gefur ef til vill örlitla hugmynd um, hvaða þýðingu Hvalfjarðarferja muni hafa. Ég vil undirstrika, að hér mundi vera um að ræða bíla af öllu landinu, Suður-, Suðvestur-, Vestur-, Norður- og Austurlandi.

Ég tel, að þær upplýsingar, sem fram hafa komið, gefi tvímælalaust í skyn, eins og hæstv. ráðh. sagði í lok ræðu sinnar, að þetta sé fjárhagslega viðráðanlegt fyrirtæki, þannig að tekjur muni örugglega standa undir einum ferjubát. Ég er þeirrar skoðunar, að aukningin verði svo mikil og ör á umferðinni, að hún muni gera betur, ferjan ætti að geta byrjað að safna fyrir annarri ferju, sem þarf að koma eftir 8–10 ár, eða hjálpað til við hafnarframkvæmdirnar, sem gera þarf.

Það er talað um að malbika veginn fyrir Hvalfjörð. Ég hygg, að hv. alþingismenn hafi nokkra hugmynd um, hvað Keflavíkurvegur hefur kostað og get ímyndað mér, hvað kosta mundi að malbika veginn fyrir Hvalfjörð. Ef ferjuframkvæmd gæti frestað því verki í einn eða tvo áratugi, þá er um að ræða gífurlegan fjárhagslegan sparnað. Ég vil því beina þeirri eindregnu áskorun til hæstv. ráðh., að hann láti fara fram nánari rannsóknir á málinu, sérstaklega varðandi hafnarmannvirkin, sem virðast hafa verið minna skoðuð og verði vandlega athugað, hvort hér er ekki framkvæmd, sem við getum ráðizt í fljótlega.

Ég vil einnig benda á, af því að slík bílaferja væri nýmæli hér á landi og ferja er vegaframkvæmd samkv. nýju vegal., að mér finnst það geta komið til greina, að eitthvert fyrirtæki, sem t.d. sveitarfélög og ríki væru verulegir aðilar að, tæki að sér kaup og rekstur ferjunnar. Það er ekki víst, að það væri hentugast að setja upp nýja deild hjá vegamálastjórninni til að reka þessa ferju, enda eru ýmsir aðilar, sem hafa aðstöðu og hagsmuni, sem gætu komið til greina. Þessu varpa ég fram til umhugsunar, en vil ítreka, að ég þakka hæstv. ráðh. þær upplýsingar, sem hann hefur veitt.