02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í D-deild Alþingistíðinda. (3195)

208. mál, bifreiðaferja á Hvalfjörð

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. forsrh.

Mér hefur sagt sjómaður, sem var viðriðinn tilraunir með ferju skömmu eftir stríðslok, að þá hafi ferjunni, sem nú flytur sement milli Reykjavíkur og Akraness, verið siglt á milli Hvaleyrar og Kataness á 6 mínútum. Hins vegar var þá um að ræða ferjur, sem voru innrásarprammar og hefðu orðið að snúa sér við á leiðinni. Þetta hefði að sjálfsögðu tafið töluvert, auk þess sem útbúnaður þeirra var engan veginn fullkominn til þess að taka bíla um borð og skila þeim aftur í land. Nú er hins vegar hugsað um ferjur, sem snúa sér ekki við, eru opnar í báða enda og nota bryggjur, sem fljóta. Ferjurnar festa sig sjálfkrafa, um leið og þær sigla að, þannig að hraðinn á að geta verið miklu meiri, en hann var í þá tíð.

Ég sló fram reikningsdæmi með klukkustundina, sem ef til vill má ekki taka of hátíðlega. Þetta jafnar sig út, þegar stóru bifreiðarnar, þunghlöðnu vörubílarnir og langferðabílarnir með fjölda farþega, eru sennilega meira en klukkutíma, en litlir bílar eru að jafnaði minna og fer þó allt eftir færð.

Ég geri ráð fyrir því, að fólkið í næstu byggðum mundi telja það mestan kost við ferju, að það losnar við að fara Hvalfjörðinn að vetrarlagi, og það eitt mundi skapa umferð frá Borgarnesi og Akranesi annars vegar og Reykjavík hins vegar, sem væri t.d. sambærileg við umferðina milli Keflavíkur og Reykjavíkur.

Ég vil því ekki, að menn taki það, sem ég sló fram um tímasparnað, of nákvæmlega. Að vísu var þar reiknað aðeins með einum manni í bíl, sem einnig vegur nokkuð á móti, en hitt er rétt hjá hæstv. forsrh., að það er ekki um hreinan klukkustundarsparnað að ræða. En ég geri ráð fyrir því, ef bíll hagar ferðum sínum eftir því, hvenær ferjan fer, þá eigi hann að vera kominn yfir Hvalfjörð innan 15 mín.