02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í D-deild Alþingistíðinda. (3202)

215. mál, Aflatryggingasjóður

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera margorður, en það er sjálfsagt ástæða til þess að tala töluvert mikið um aflatryggingasjóðinn og þær reglur, sem úthlutað er eftir. Viðvíkjandi togurunum hélt ég því fram fyrir tveimur árum, að það væri meir en vafasamt að reka mikla togaraútgerð hér á landi við þau skilyrði, sem hún býr við nú. Og ég er sömu skoðunar enn. Ég vil benda á það, að togararnir veita tiltölulega miklu minni vinnu í landi, en bátaútvegurinn vegna þess, hve mikið er siglt með af aflanum beint og hann seldur ísaður eða frystur að einhverju leyti. Og annað það, að gjaldeyririnn, sem fæst fyrir slíkar ferðir, er miklu ódrýgri en sá gjaldeyrir, sem bátarnir afla fyrir, þegar fiskurinn er unninn í landi, vegna þess, hve miklu er eytt af þessum gjaldeyri ytra, bæði í ýmsan kostnað þar og í það, sem skipshafnirnar eyða, sem er sennilega erfitt að færa fullar sönnur á, hve mikið er og vafalaust eitthvað, sem kemst tollfrjálst inn í landið þannig. En reglurnar, sem úthlutað er eftir úr aflatryggingasjóði, eru algerlega úreltar.

Það er t.d. þessi svæðaskipting, sem veldur því, að þau svæði, sem lítið aflast á, fá svo sáralítið. Þegar miðað er við 5 ára meðaltal, þá gefur það auga leið, að það er útilokað, að þessi svæði fái svo sem nokkuð að gagni. Ég vissi það, að fyrir Norðurlandi s.l. vetur, þegar aflatregða var mikil, þá fengu bátar, sem töpuðu um 100 þús. kr. á mánuði, eftir allt að því 3 mánaða vertíð höfðu tapað allt að 300 þús. kr., þótt ekki sé reiknað með afborgun af skipi eða annað slíkt, þeir fengu þetta 20–40 þús. kr. Sem sagt, þessar reglur eru þannig, að þær ná engan veginn tilgangi sinum. Þetta er algerlega ósanngjarnt og óeðlilegt, því að þessir bátar standa algerlega undir atvinnulífi í þessum þorpum og kauptúnum. Ef þeir væru ekki starfræktir, þá væri fólkið atvinnulaust og yrði að flytja burt, svo framarlega sem ekki væru myndaðar nýjar atvinnugreinar. Það nær því engri átt, hvernig þetta er. Og þá má einnig benda á verðið á fiskinum, að það er línufiskurinn, sem er langbezta varan, sem framleidd er hér á landi og ég hygg, að það sé gerður allt of lítill verðmunur á honum og t.d. netafiskinum á erlendum markaði. Það ætti að borga þeim húsum bætur, sem framleiða betri vöruna. Það ætti að gera verðmuninn meiri, en nú er hjá þeim fyrirtækjum, sem annast um söluna, því að þetta er ekki sambærileg vara, halda því meira sér og borga hærra verð. Þetta er allt önnur vara. Annars skal ég ekki fjölyrða um þetta frekar í þetta skipti.

En það sama er að segja um tryggingakerfið. Það er níðzt á bátum innan við 100 tonn. Þetta er borgað af sameiginlegu gjaldi, sem er tekið í útflutningsgjöldunum. Tryggingarnar eru borgaðar þannig, að bátar innan við 100 tonn eru skyldaðir til að tryggja hjá Samábyrgðinni og þeir fá engar viðgerðir borgaðar. Ef vélar bila eða einhver tæki í skipunum, þá fá þeir ekkert af þessu borgað, en bátar, sem eru yfir 100 tonn, fá þetta allt borgað. Það skiptir mörg hundruð þús. á bát á ári. Það eru einmitt þessir litlu bátar, sem halda fyrst og fremst uppi atvinnulífinu með dragnótaveiðum og veiði á línu, sem skapar mjög mikla atvinnu í bæjunum.

Nú er það þannig með báta innan við 100 tonn og þó einkum báta milli 40 og 100 tonn, sem geta ekki stundað dragnótaveiðar, að aðstæður þeirra eru lakastar af bátum í bátaflotanum, vegna þess að þeir hafa léleg skilyrði til þess að veiða síld. Þeir eru orðnir of litlir. Beztu skipstjórarnir eru keyptir á stærri bátana. Þeir halda, að þeir hafi þar meira upp. Þeir hafa ekki eins vana og góða skipstjóra, þessir bátar og þess vegna er mjög erfitt að veiða síld á þá nokkuð að ráði og þeir geta ekki stundað dragnótaveiðarnar. Bátar, sem stunda dragnótaveiðar t.d. fyrir sunnan land, virðast hafa haft sæmilega afkomu s.l. sumar og viðunandi fyrir norðan. Og það má benda á það, að dragnótaveiðin á Skagafirði og Húnaflóa bjargaði alveg atvinnulífinu í þessum kauptúnum í sumar. En ég álít, að kjör báta innan við 100 tonn séu þannig, að það sé óviðunandi, bæði hvað snertir tryggingar og eins hvað snertir bætur úr aflatryggingasjóði. Hins vegar er mokað í togarana. Ég er ekki að segja, að þeim veiti ekki af því, en fyrir þjóðfélagið held ég, að reksturinn borgi sig ekki.

Viðvíkjandi því að hleypa þeim inn fyrir línuna, þá tel ég það mjög varhugavert, ef ekki eyðileggjandi fyrir línuútgerðina. Annars held ég nú, að eftirlitið fyrir Norðurlandi sé þannig, að þeir skjótist kannske inn fyrir, án þess að það sé tekið mikið eftir því. Bæði eru þessar reglur svo flóknar, sem farið er eftir, að það er ákaflega erfitt að fylgjast með því, jafnvel fyrir fiskibátana og svo hafa þeir enga aðstöðu til að mæla út eða staðsetja togarana, þó að þeir verði varir við þá og annað það, að eftirlitið er það lítið að vetrinum, að ég held, að það sé mjög ófullnægjandi. Og ég vildi ekki sverja fyrir, að eitthvað af þeim fiski, sem þeir veiða, sé tekið innan þessarar ákveðnu línu. Annars er þetta mál sem er ekki hægt fyrir mig að fullyrða um.

Ég álít, að þessir hlutir séu þannig, að það sé óhjákvæmilegt að taka þá til endurskoðunar. Ég hef þegar gert frumdrög að breytingum viðvíkjandi úthlutun úr aflatryggingasjóði eða reglum um hann og ég býst við að bera það undir Fiskifélagið nú á næstunni og hef rætt um þetta við sjútvmrh. En vitanlega hef ég ekki aðstöðu til að koma málum fram, ef stjórnarliðið beitir sér á móti því og æskilegast væri auðvitað, að þetta væri leyst á þann hátt, að sjútvmrh. léti endurskoða þessar reglur og breyta þeim í skynsamlegt horf.