02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í D-deild Alþingistíðinda. (3208)

216. mál, landleið til Vestur- og Norðurlands (stytting)

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Þann 30. maí 1958 var samþ. hér á hv. Alþingi svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að vegagerð ríkisins láti fram fara rannsókn á því, á hvern hátt unnt sé að stytta landleiðina frá Reykjavík til Borgarfjarðarhéraðs og Vestur- og Norðurlands. Skal í því sambandi m.a. athuga möguleika á framkvæmd og kostnaði við endurbót á veginum um framanverðan Svínadal og Geldingadraga, brúargerð yfir Borgarfjörð milli Seleyrar og Borgarness og að komið yrði á ferju yfir Hvalfjörð milli Hvaleyrar og Kataness.“

Síðan þessi þál. var afgreidd hér á hv. Alþingi hinn 30. maí 1958, eins og ég tók fram áðan, hefur verið nokkuð hljótt um þetta mál, a.m.k. að meginmáli. Ástæðan fyrir því, að svo hefur verið, er m.a. sú, að ég, sem var upphaflega flm.till. um athugun á brúargerð yfir Borgarfjörð, er fór til fjvn. og fjvn. stóð öll að þessari ályktun taldi, að mönnum sýndist þetta mál vera nokkuð veigamikið og þeir yrðu að hafa nokkurn tíma til þess að átta sig á því. Ýmsir þættir málsins hafa þó verið teknir hér upp á hv. Alþingi, sbr. fsp., sem gerð var hér áðan út af þál., sem gerð var hér á hv. Alþingi fyrir tveimur árum og var einn þáttur þessarar þál. þar sérstaklega tekinn fyrir. Ég þykist líka muna það rétt, að hér á hv. Alþingi hafi komið fram einnig þál. um athugun á brúargerð frá Þyrilsnesi yfir Hvalfjörð. Þess vegna hef ég talið, að nokkur tími þyrfti að líða, þangað til menn áttuðu sig almennt á því, hversu mikið nauðsynjamál þetta raunverulega var og er.

Enn fremur hefur á þessu svæði, á Vesturlandi, verið unnið að stórvirkri vegagerð, svo sem í Búlandshöfða og Ólafsvíkurenni, sem talið var rétt að gengi fyrir. Og svo hefur verið unnið að því að tengja þá bæi, sem enn áttu eftir að fá vegasamband, í vegasamband og að því er unnið enn.

Nú hafa hins vegar komið fram ný viðhorf í sambandi við þetta mál og þykir nú rétt að vekja athygli á þeim. Í fyrsta lagi vil ég benda á það, að á s.l. og þessu ári varð sú breyting á í sambandi við mjólkurflutninga frá Borgarnesi til Reykjavíkur, að þeir fara nú allir fram landleiðina, en fóru áður sjóleiðina. Þetta gerir það að verkum, að meiri þörf er á að stytta þessa leið heldur en verið hefur, þar sem hér er um að ræða neyzlumjólk, sem allir landsmenn þurfa að neyta, og mjólkurflutningar eru þeir flutningar, sem í okkar vegakerfi ganga venjulega fyrir. Ég vil enn fremur benda á það, að með þeirri hafnargerð, sem nú er verið að gera á Snæfellsnesi, bæði í Ólafsvík og Rifi, hlýtur að stórfjölga fólki á norðanverðu Snæfellsnesi, í útgerðarhöfnunum öllum fjórum og það gerir það að verkum, að þungavöruflutningar breytast þangað verulega. Enn fremur hefur það sýnt sig, að ár frá ári aukast þungavöruflutningarnir og sá þáttur, sem skipin áður höfðu í flutningakerfi landsmanna, hefur færzt meira og minna inn á landleiðirnar og fjölgað ár frá ári stóru vörubílunum, sem flytja vörur landsmanna. Nú er svo komið, að jafnvel allt til Austfjarða eru fluttar vörur héðan úr Reykjavik eftir þessari leið, sem hér um ræðir.

Í sambandi við þessa breytingu hlýtur það og að verða verkefni næstu ára að gera það upp við sig, hvort heldur á að taka ýmsa þætti, sem hér er bent á, til þess að stytta landleiðina til Borgar jarðarhéraðs og Vestur- og Norðurlands, eins og ferju yfir Hvalfjörð eða brú á Hvalfjörð, ef það væri talið tiltækilegt, eða þá stórfelldar vegaumbætur í Hvalfirði. Enn fremur verður að gera það upp við sig, hvort heldur á að endurnýja alveg vegakerfið inn Borgarfjörð, sem verður að gera með nýrri brú á Hvítá, nýrri brú á Ferjukotssíki og stórbættum vegum eða taka brúargerð yfir Borgarfjörð.

Ég er ekki í nokkrum vafa um, að þegar þetta mál verður nú athugað í fullri alvöru með tilliti til þeirrar umferðar, sem þegar er orðin og þeirrar umferðar, sem vænta má að verði, verður að gera upp þessi dæmi í heild og taka það, sem skynsamlegast er.

Þessi fsp. á þskj. 111 er ekki flutt til þess að deila á vegagerðina eða aðra aðila, þó að framkvæmd hafi ekki farið fram á þessari athugun nema að litlu leyti, heldur til þess að spyrja um það, hvað gert hafi verið og svo hitt, að vekja athygli á því, að nú er fullkomin þörf á því að rannsaka þetta mál allt í heild hleypidómalaust og reyna að gera sér grein fyrir því, hvað skynsamlegast er. Og þá verður að gera sér grein fyrir því, að höfuðtakmarkið í okkar samgöngum á aðalleiðum verður að stytta landleiðirnar eins og mögulegt er og gera þær góðar. — Ég treysti því, að hæstv. ráðh. gefi mér upplýsingar í þessu efni.