09.12.1964
Sameinað þing: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í D-deild Alþingistíðinda. (3217)

81. mál, innheimta á stóreignaskatti

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þar sem ég hafði á Alþingi hinn 8. maí s.l. gefið yfirlit um stóreignaskattinn, var ég sannast sagna undrandi yfir því, að þessi fsp. skyldi koma fram nú svo skömmu síðar. En í síðustu orðum hv. fyrirspyrjanda skýrðist það, hvers vegna fsp, er komin fram. Það er til þess að koma því að hér á Alþingi, að ríkisstj. hafi beitt mildari innheimtuaðferðum við stóreignaskattinn, heldur en við innheimtu skatta hjá öllum almenningi.

Ég gerði í maí mánuði ýtarlega grein fyrir þessu máli öllu og m.a. hvers vegna svo mörg ár hefði tekið að innheimta stóreignaskattinn og að allstór hluti hans væri óinnheimtur enn. Þetta er hv. þm. allt saman mæta vel kunnugt og gersamlega ástæðulaust fyrir hann að bera fram þær sakir, sem í seinustu orðum hans felast, að mildari aðferðum hafi verið beitt um stóreignaskattinn.

Ég skal aðeins rifja það upp, hvernig þetta mál er til komið. Þrátt fyrir aðvaranir, þegar lögin voru til meðferðar á Alþingi um, að þessi lög mundu ekki geta staðizt gagnvart stjórnarskránni, voru þessi lög keyrð í gegn engu að síður. Í fyrstu var talið, að skatturinn mundi nema 135 millj. kr. Raunar reyndist hann við fyrstu álagningu vera 136.8 millj. kr. En það voru þegar sendar margar kærur út af þessum skatti og var hann við meðferð þeirra lækkaður niður í 125.9 millj. Málið var síðan borið undir dómstóla af ýmsum aðilum, og hefur hver hæstaréttardómurinn gengið eftir annan, þar sem því hefur verið slegið föstu, að ýmis ákvæði stóreignaakattsl., sem sett voru í tíð vinstri stjórnarinnar, gætu ekki staðizt samkv. stjórnarskrá landsins. Þannig hefur þessi upphaflega álagning, 138.8 millj. kr., hrapað niður í 65.8 millj, kr., eftir því sem næst verður komizt nú og er þó ekki öllum málum lokið.

Meðan dómstólar og skattanefndir og matanefndir hafa verið önnum kafnar við það undanfarin ár, að hrinda ýmsum ákvæðum þessara laga, sem stjórnarskrárbroti, er eðlilegt, að innheimta slíks skatts hafi gengið treglegar, en venjulegra álagna. Að beita hinum hörðustu innheimtuaðgerðum án þess að vita, hvort slíkt stæðist fyrir lögum og þurfa kannske að endurgreiða stórkostlegar fúlgur, hefði náttúrlega verið fásinna.

Ég veit ekki, hvort hv. fyrirspyrjandi hefur ætlazt til þess, að þessar 138 millj. hefðu verið innheimtar með harðri hendi og síðan hefði orðið að greiða mismuninn á þeirri upphæð og þeim 65–86 millj., sem skatturinn virðist vera í dag. Ég held, að engum hefði verið gerður greiði með slíku. Ef á að telja, að þessi skattur hafi innheimst of slælega, þá er það sök þeirra manna, sem settu þessi lög, sem eru einsdæmi á íslenzkri löggjafarsögu, og það er því þeirra sök og þeirra einna, ef dráttur hefur orðið um of.