09.12.1964
Sameinað þing: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í D-deild Alþingistíðinda. (3218)

81. mál, innheimta á stóreignaskatti

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem kom hér fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. Það er allt annar háttur hafður á um innheimtu á þessum stóreignaskatti, en þeim sköttum, sem lagðir eru á almenning af hendi hæstv. ríkisstj. Það er alveg augljóst af þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf. Það er alveg rétt hjá honum, að það hafa verið mikil málaferli út af þessum skatti og var stofnað félag stóreignamanna í landinu til þess að reyna að rífa niður löggjöfina, ef þess væri kostur. Hefur það verið sótt af ofurkappi og sérstaklega fóru þeir í málaferli út af því, hvernig metnar voru eignir einstaklinga í hlutafélögum. En þær voru metnar þannig, að hver einstaklingur átti að greiða af öllum sínum eignum og voru eignir í hlutafélögum þá metnar eftir því, hvað var innra verðmæti, sem kallað er, hlutabréfanna, þ.e.a.s. hve miklar eignir stóðu að baki hlutabréfunum í hlutafélögunum, sem þýðir, að eignir hlutafélaganna voru metnar á sama hátt og eignir einstaklinga. Þessu fengu þeir hnekkt fyrir dómi og fengu þá dómsniðurstöðu, að það ætti að meta hlutabréfin með tilliti til gangverðs, en mætti ekki meta eignir í hlutafélögum á þennan hátt, eins og eignir annars staðar. Þessi niðurstaða kom að vísu mjög á óvart, og hún var mjög mikið atriði í þessu sambandi. En þessi dómur, sem ég hér ræði um og er aðalalatriðið, er fyrir löngu fallinn. Það var ekkert óeðlilegt að bíða eftir þeim dómi um þetta mikilsverða mál, þótt það væri sératakt að bíða, því að venjan er sú, að innheimtur fara fram, en síðan er endurgreitt, ef dómar ganga skattgreiðendum í vil út af skattamálum.

En það var kynsamlegt að bíða eftir niðurstöðunni af þessum dómi og láta svo hlutabréfamatið fara fram. En því er lokið fyrir löngu,og þó að einhver önnur mál kunni að vera enn í gangi fyrir dómstólunum út af stóreignaskatti, sem er nú raunar undarlegt, jafnlangur tími og liðinn er, þá er engin ástæða fyrir hæstv. ráðh. til að láta skattinnheimtuna bíða eftir því, ekki hin minnsta ástæða og hlýtur að vera gert af annarlegum ástæðum. Við, sem erum kunnugir þessum málum, vitum, að það er ævinlega á gangi eitthvað af málaferlum og það um prinsip-atriði í skattamálum og það dettur engum í hug að láta alla skattheimtu í landinu bíða eftir niðurstöðum í slíkum málum. Það væri algerlega óhugsandi að framkvæma skattheimtu með beinum sköttum, ef þannig væri farið að, að ævinlega væri látin bíða skattheimtan eftir dómum um „prinsip“- mál í skattalegum efnum. Það eru ætíð á ferðinni mörg mál, sem snerta „prinsip-atriði“ í skattamálum.

Ég tel því, að hér hafi átt sér stað vítaverð vanræksla í innheimtunni á þessum skatti, ekki sízt á þessu ári, sem núna er að líða, samkv. því, sem hæstv. ráðh. hefur upplýst, og er í þessu tilliti sýnilega allt önnur regla látin gilda um þetta, en skattgreiðslur almennings.