09.12.1964
Sameinað þing: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í D-deild Alþingistíðinda. (3220)

81. mál, innheimta á stóreignaskatti

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. segist enn bíða eftir dómsúrslitum í þessum málum og segir, að ekki sé neitt sambærilegt að innheimta stóreignaskatt og almennan skatt.

Það er auðséð, að hæstv. ráðh. hefur haft allt aðra reglu, hefur búið allt öðruvísi að skattgreiðendum þessum, en almennum skattgreiðendum eins og hér hefur verið lögð áherzla á. En ég vil aðeins enn segja þetta út af því, sem hæstv. ráðh. sagði síðast: Það er langt síðan dómar gengu um þau atriði, sem verulegu máli gátu skipt í sambandi við þessa skattheimtu. Það var skynsamlegt að bíða eftir dómnum, um hlutabréfamatið. Það var líka gert. En það er engin afsökun fyrir hæstv. ráðh. og hefur engin afsökun verið á þessu ári fyrir því að bíða með innheimtuna, því að þau mál, sem nú eru í gangi, eru alls ekki þannig vaxin, að það sé hægt að verja það að bíða með skattheimtuna eftir úrslitum þeirra. Enda sjáum við, að það er eitthvað verið að bauka við að innheimta skattinn, þótt lítið sé, svo að það eru þó ekki allir, sem verða þeirrar hjálpar aðnjótandi að fá að bíða.

Ég tel, að þessi innheimtuaðferð hæstv. ráðh. sé í algeru ósamræmi við það, sem á að vera og það, sem almenningur býr við.