03.02.1965
Sameinað þing: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í D-deild Alþingistíðinda. (3234)

93. mál, Tunnuverksmiðjur ríkisins

Fyrirspyrjandi (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér, ásamt 5. landsk. þm. (RA), fyrirspurn til hæstv. sjútvmrh. varðandi rekstur Tunnuverksmiðja ríkisins. Fyrirspurnin er svofelld: „Hvað er fyrirhugað um tunnusmíði í Tunnuverkamiðjum ríkisins nú í vetur: a) í Akureyrarverksmiðjunni, b) í Siglufjarðarverksmiðjunni?“ Og í öðru lagi: „Hvað líður undirbúningi að byggingu tunnugeymslu við Akureyrarverksmiðjuna?“

Áður en ástæður fyrir þessari fsp. eru frekar skýrðar, er rétt að minna á, að það eru nú meir en 2 mánuðir liðnir frá því, að hún var lögð hér fram á hv. Alþingi, og gangur mála síðan hefur að nokkru svarað fsp., þ.e.a.s. fyrri lið hennar, en þó aðeins að nokkru leyti. Það er nú orðið ljóst, að á þeim vetri, sem nú er að líða, verður ekki um það að ræða, að starfsemi Tunnuverksmiðja ríkisins á Akureyri eða Siglufirði verði lögð niður með öllu, en þegar fsp. var lögð fram, var uppi um það orðasveimur og ótti, sérstaklega meðal Akureyringa, sem m.a. studdist við það að, að áliðnum desembermánuði var enn ekkert efni komið til tunnusmíðinnar og ekki reyndist þá heldur fram að þeim tíma unnt að fá neinar upplýsingar um það, hvað fyrirhugað væri um rekstur verksmiðjunnar. Óvissan um þetta annars vegar og hins vegar sú staðreynd, að atvinna fyrir verkamenn hefur verið ófullnægjandi á Akureyri það sem af er þessum vetri, gerði menn þar í bæ harla órólega, eins og marka mátti af samþykktum bæjarstjórnar Akureyrar og áskorunum til forráðamanna Tunnuverksmiðja ríkisins og einnig sams konar áskorunum frá verkalýðsfélögunum á staðnum um það að tryggja þessu eina atvinnufyrirtæki, sem rekið er af ríkinu á staðnum, rekstur á þessum vetri. Eins og ég sagði, er ótti manna um það, að þessi rekstur verði algerlega stöðvaður, að þessu sinni úr sögunni, en engu að síður þykir fyrirspyrjendum rétt, að það komi fram, þó að seint sé, hvað fyrirhugað er um mikinn rekstur og mikla framleiðslu á tunnum í þessum verksmiðjum.

Annar liður fsp. okkar er um það, hvað fyrirhugað sé um byggingu tunnugeymslu á Akureyri. Spurt er um þetta vegna þess, að hér er um að ræða mál, sem í rauninni varðar allan framtíðarrekstur þessa fyrirtækis vegna þess, hve það er sérstaklega óhagstætt að reka slíka verksmiðju án þess að geta geymt bæði efnisbirgðir og framleiðslu á forsvaranlegan hátt og í beinum tengslum við vinnslustöðina. Þetta mikla óhagræði, sem verið hefur um mörg ár við rekstur verksmiðjunnar á Akureyri, hefur síðan verið notað sem röksemd gegn því að starfrækja verksmiðjuna á Akureyri og jafnvel sem röksemd gegn innlendri tunnusmíði yfirleitt. En ég tel hins vegar og þeir munu fleiri, sem telja, að innlend tunnusmíði sé ekki einasta mikil nauðsyn fyrir síldariðnaðinn, heldur einnig mjög veigamikið atvinnumál fyrir þá staði, þar sem þessar umbúðir um okkar framleiðslu eru unnar.