10.02.1965
Sameinað þing: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í D-deild Alþingistíðinda. (3242)

114. mál, hlustunarskilyrði útvarps á Norður- og Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Jónas G. Rafnar) :

Herra forseti. Á þskj. 234 höfum við hv. 3. þm. Austf. leyft okkur að bera fram eftirfarandi fsp til hæstv. menntmrh.

„1) Hvaða ráðstafanir hefur ríkisútvarpið gert til þess að bæta hlustunarskilyrði á Norður- og Austurlandi?

2) Verður ekki tryggt, að allir hlustendur hafi full not af útvarpinu, áður en framkvæmdir hefjast að að koma upp sjónvarpi?“

Það er alkunnugt, að á undanförnum árum hafa ríkisútvarpinu hvað eftir annað borizt kvartanir frá hlutendum á Norður- og Austurlandi um, að illa heyrðist til þess og þá sérstaklega í skammdeginu. Til þess að bæta hlustunarskilyrði í þessum landshlutum hefur verið komið upp endurvarpsstöðvum í Skjaldarvík við Eyjafjörð og að Eiðum fyrir Austurland. Þrátt fyrir þessar ráðstafanir heyrist enn mjög illa til útvarpsins og munu því valda sterkar erlendar stöðvar, sem trufla útsendingar þess.

Ég vil leyfa mér að nefna örfá dæmi. Nú í vetur hefur heyrzt mjög illa í útvarpinu í Flatey á Skjálfanda og í Húsavík. Sömu söguna er að segja frá Raufarhöfn. Um hátíðarnar var óvenjumikið ólag á símanum þangað, en útvarpið notar hann til flutnings. Morgunblaðið hefur nýlega skýrt frá því, að útvarpsfréttir og annað efni ríkisútvarpsins hafi heyrzt mjög illa í Breiðdal í vetur.

Það er ekki nema eðlilegt, að fólk sé óánægt með þetta ástand og krefjist sem fyrst úrbóta. Útvarpið er fyrir marga ein helzta dægradvölin og þá ekki sízt til sveita að vetrinum.

Með fyrri lið fsp. er þess farið á leit, að hæstv. menntmrh, sem ríkisútvarpið heyrir undir með rekstur sinn, gefi upplýsingar um, hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að bæta hlustunarskilyrði á Norður- og Austurlandi, en þaðan hafa kvartanirnar fyrst og fremst borizt.

Að undanförnu, hefur mikið verið rætt og ritað um nauðsyn þess að koma upp sjónvarpi, sem yrði á vegum ríkisútvarpsins og þá að sjálfsögðu undir stjórn þess. Þótt allur kostnaður við slíka stofnun leiki enn mjög í lausu lofti, þá er þó vitað, að hann muni verða mjög mikill. Til þess að tryggja góða þjónustu útvarpsins um land allt, þarf án efa verulegt fé. Því er spurt, hvort ekki muni vera tryggt, að allir hlustendur hafi full not af útvarpinu, áður en lagt verður í kostnað við að koma upp sjónvarpi.