10.02.1965
Sameinað þing: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í D-deild Alþingistíðinda. (3244)

114. mál, hlustunarskilyrði útvarps á Norður- og Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Jónas G. Rafnar) :

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir hans mjög svo greinargóðu svör og gagnlegu upplýsingar, sem hann gaf hér í d. Og það er sýnt af þeim upplýsingum, að ríkisútvarpið og landssíminn hafa nú á prjónunum margvíslegar ráðstafanir til þess að ráða bót á þeim vanda, sem við er að glíma í sambandi við hlustunarskilyrðin fyrir norðan og austan. Ég er að sjálfsögðu enginn sérfræðingur í þessum málum, hef satt bezt að segja litla þekkingu á þeim, en þó virðist mér, að líklegasta leiðin til þess að ráða þarna verulega bót á væri sú, ef reistar væru allöflugar langbylgjustöðvar á Norðurlandi og Austurlandi. Með því móti yrði á varanlegastan hátt unnt að koma hér verulegum úrbótum á. Sem betur fer mun fjárhagur ríkisútvarpsins vera allgóður og því má vænta þess, að það verði ekki dregið úr hömlu fram að hefjast nú handa um að bæta hlustunarskilyrðin úti á landi.