10.02.1965
Sameinað þing: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í D-deild Alþingistíðinda. (3245)

114. mál, hlustunarskilyrði útvarps á Norður- og Austurlandi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt, að það komi fram í sambandi við þær upplýsingar, sem hér hafa verið gefnar, að við þm. af Austurlandi áttum fyrir stuttu allýtarlegan fund með útvarpsráði og sérfræðingum útvarpsins í tæknimálum einmitt út af þessum vandamálum, en þannig mun nú hafa verið um útsendingar útvarpsins, að um langa hríð hafa þær verið langlélegastar á Austurlandi. Á þessum fundi fengum við flestar þessar upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf hér, en ég verð að segja, að þó að okkur sé sagt frá því, að ríkisútvarpið og sérfræðingar þess hafi ýmislegt til athugunar í þessum málum, sem vissulega geti gefið vissar vonir, þá fer því alls fjarri, að við séum ánægðir með það að heyra, að þessi mál liggi nú enn til athugunar og að enn sé ekki hægt að segja neitt til um það, hvað í rauninni verði til bragðs tekið, eins og hæstv. ráðh. sagði hér.

Ég vil að hæstv. ráðh., sem stjórnar þessum málum, átti sig vel á því, að málið er þannig, að nú, eftir að ríkisútvarpið íslenzka hefur starfað í 34 ár, er ekki hægt að hlusta á íslenzka ríkisútvarpið langtímum saman í heilum landsfjórðungum. Það er búið að finna að þessu ár eftir ár og það er búið að fá loforð eftir loforð um það að reyna að kippa málinu í lag. Okkur er skýrt frá því, að það séu uppi nýjar athuganir, nýjar till. í málinu. Stundum hefur verið kvartað undan því, að fjármagn vantaði, en Alþingi hefur jafnan brugðist vel við, þegar leitað hefur verið til þess um að fá fé til nauðsynlegra ráðstafana, en allt hefur komið fyrir ekki. Ástandið t.d. á þessu hausti á Austurlandi hefur verið þannig, að segja má, að á nær öllu Austurlandi, hafi menn ekki getað heyrt kvölddagskrá útvarpsins, nema við mjög illan leik mestallan tímann.

Ég var staddur á Austurlandi nú um nokkurn tíma rétt upp úr áramótunum og heyrði þá, hvernig ástatt var í þessum efnum. Það var þann tíma, sem ég var þá staddur í Neskaupstað, með öllu útilokað öll þau kvöld, sem ég var þar, að hlusta á kvölddagskrána.

Það átti að bæta úr þessu á fjörðunum fyrir austan með því að koma þar upp litlum stuttbylgjustöðum og það urðu nokkrar úrbætur þar á tímabili, á meðan sendingar landssímans virtust vera í lagi austur. En það bar þó allmikið á því, að sendingar landssímans austur á dagskránni féllu niður vegna bilana á landssímanum. Var þó nokkur bót að þessu. En reksturinn á þessum litlu stöðvum hefur verið í mesta lamasessi. Stöðvarnar hafa bilað hvað eftir annað og það hefur dregizt um langan tíma oft og tíðum að gera við stöðvarnar. T.d. í mínu byggðarlagi í Neskaupstað, hefur þetta verið þannig, að þar er um svo litla stöð að ræða til sendingar á útvarpsefninu yfir Norðfjörð, að hún hefur ekki dregið jafnt yfir kaupstaðinn, sem yfir sveitabyggðina innar. Það er ómögulegt að una við þetta.Ég hef þá trú, að útvarpsráð vilji vel í þessu máli og hafi gert ýmsar till. til þess að fá úr þessu bætt. En það virðist, að málið hafi strandað á þeim, sem hafa með tækniframkvæmd málsins að gera og vil ég því undirstrika það hér, að hæstv. ráðh. beiti nú öllu sínu afli til þess, að það líði a.m.k. ekki önnur 34 ár, þangað til við förum að heyra dagskrána allan tímann.