10.02.1965
Sameinað þing: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í D-deild Alþingistíðinda. (3249)

114. mál, hlustunarskilyrði útvarps á Norður- og Austurlandi

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Mér þykir rétt að taka það fram, sem raunar hefur þegar verið nefnt hér, að um langt árabil hefur það verið stefna og ákvörðun forráðamanna ríkisútvarpsins, að undirbúningur sjónvarps megi ekki á nokkur hátt ganga út yfir hljóðvarpið, eins og það sennilega verður kallað í framtíðinni og svo hefur raunar ekki verið hingað til og verður væntanlega ekki í framtíðinni. Gleggsta dæmið um þetta er, að fyrir fáum árum tók ríkisútvarpið ákvörðun um það að kaupa 12–14 millj. kr. nýja langbylgjusendistöð frá Sviss , en ef þar hefði ríkt stefna, sem rétt var tæpt á hér, hefði útvarpið eins getað látið gömlu stöðina duga eitthvað áfram og notað þessa peninga til þess að koma upp sjónvarpsstöð fyrir Suðvesturland, ef það hefði vilji manna. En það hvarflaði ekki að nokkrum manni og því var ráðizt í þessa miklu undirstöðuframkvæmd undir viðhald og endurbætur á útvarpskerfinu.

Ég vil einnig taka það fram að, að svo miklu leyti sem mér er kunnugt um, hefur aldrei staðið á peningum til þess að gera ráðstafanir, sem gætu verulega bætt hlustunarskilyrði útvarps í landinu. Þetta er teknískt vandamál og sú tekníska lausn liggur ekki fyrir. Og ég hygg, að ráðh. geti ekki sagt ákveðið, að þetta verði gert í ár, af því að tæknimennirnir hafa ekki enn fylgt eftir þeim hugmyndum, sem hann nefndi í bréfi sínu, með ákveðnum áætlunum um það, hvað þær kosti og hvernig sé hægt að gera þær.

Vandamálið, sem við höfum alltaf átt við að stríða og eigum enn við að stríða, er ekki að eignast svo og svo margar sendistöðvar. Vandamálið er að koma dagskránni frá einni sendistöð til annarrar. Það gæti vel verið ágæt lausn að útvarpa til Austfjarða frá Færeyjum, en vandinn er ekki að koma upp stöð í Færeyjum, ef það væri leyft. Vandinn er að koma íslenzku dagskránni til Færeyja til að endurvarpa henni þaðan. Það er vitað mál, að þótt langbylgjustöðvar séu sterkar og langbylgjan flæði yfir landið eins og vatn út í krók og kima, sem stuttbylgjur gera aftur á móti ekki, þær fara eins og ljósgeisli og skilja eftir skugga, þá er ekki hægt að ná til alls Íslands með einni langbylgjustöð og þess vegna þurfa þær að verða tvær. En af hverju eru þær ekki orðnar tvær? Vegna þess að það hefur ekki verið hægt að koma dagskránni á viðunandi hátt til þeirra staða á Austurlandi, þar sem hin langbylgjustöðin mundi vera.

Fyrir nokkrum árum réðst síminn í að koma upp þráðlausu sambandi kringum landið. Og jafnskjótt og landssíminn var kominn yfir Vestmannaeyjar og Hjörleifshöfða til Hornafjarðar, var útvarpið komið í gang með spurninguna: Getum við ekki í sambandi við þessar nýju, þráðlausu símalínur komið upp stöðvum á Hornafirði og síðan á Vestfjörðum? Og það er sú tilraun til að leysa þetta mál, sem hefur staðið yfir. Hún byrjaði með Hornafjarðarstöðinni á eftir Eiða- og Akureyrarstöðinni og síðan með öllum litlu stöðvunum, sem eru í símasambandi á fjörðunum fyrir austan. En við, sem tölum í síma langar leiðir, vitum, að það er ekki nógu gott samband til þess að flytja dagskrána og rannsóknir á því, sem hefur misfarizt, hafa oftar sýnt, að það voru símalínurnar, sem biluðu, en ekki stöðvarnar sjálfar, þó að það hafi einnig orðið bilanir í þeim. Nú er þráðlausi síminn kominn í hina áttina til Akureyrar, og landssíminn mun, að ég hygg, innan árs halda áfram með þráðlausa símann frá Akureyri og til Austfjarða og um leið og þessi nýja leið til að flytja dagskrána opnast, kemur til þess að reyna stóra langbylgjustöð á Austfjörðum, svo að það er sýnilegt, að það verður næsta skrefið. Það virðist a.m.k. leikmanni eftir upplýsingum tæknimanna. En útvarpið getur bara ekki stokkið langt á undan þráðlausa símanum eða þá kapli fyrir útvarpsdagskrána, sem er mjög dýr.

Við höfum spurt símann, af hverju þeir vilji ekki leggja jarðkapla á milli stöðvanna á Vestfjörðum. Þeir segja: Íslendingar eru að buslast með jarðýtur um allt og rífa alla kapla upp, þannig að það er óvíst, að það sé nokkru betra en sá sími, sem nú er. — Mér virðist því, þó að tæknimenn verði að segja endanlega fyrir um það og ég vona, að þeir leggi fram nákvæmari áætlanir á næstu vikum, að langbylgjustöð á Austfjörðum og síðan fleiri umbætur á langbylgju- og miðbylgjusviðinu verði næsta skrefið. En framtíðin í þessu verða örbylgjur, FM, sem eru truflunarlitlar. Og ég vil taka það fram, að sjónvarpið byggist allt á því að flytja sjónvarpsdagskrána á þennan hátt um landið, þannig að það er teknískt óhugsandi að fara neitt með sjónvarp, án þess að það skapist undireins aðstaða til þess að flytja útvarpsdagskrá og útvarpa henni með örbylgjustöð um leið. En helmingurinn af sjónvarpinu er útvarp og tónninn í sjónvarpinu er einmitt fluttur á örbylgjum, en ekki langbylgjum eða miðbylgjum. Ég hygg því, að næsta skref hljóti að verða á langbylgjusviðinu, en framtíðarlausnin verður truflunarlaust FM eða örbylgjuútvarp, og það er náskylt sjónvarpinu og ég held, að það sé engin hætta á því, að sjónvarpið geti þar hlaupið fram fyrir á kostnað útvarpsins, frekar en það hefur gert hingað til.