03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í D-deild Alþingistíðinda. (3260)

128. mál, skólamál

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þær fróðlegu upplýsingar, sem hann hefur gefið og vissulega draga upp ljósa mynd af því viðfangsefni, sem hér er við að fást, að því marki, sem þær ná, en eins og hann sagði, vantar enn þá töluvert inn í þessa mynd. Ég tel, að það sé mjög þakkarvert að hafa safnað þeim upplýsingum varðandi skyldunámið og aðstöðu unglinga til að ljúka því í heimahéraði, sem gert hefur verið og að þeirri athugun eigi að ljúka.

Mér þykir ánægjuefni að fá yfirlýsingu ríkisstj. um það, að nú þegar sé ríkisstj. reiðubúin til þess að greiða fyrir því að því marki, sem henni er skylt lögum samkvæmt, að allir unglingar geti notið þeirrar aðstöðu að ljúka skyldunámi í sínu heimahéraði og ríkisstj. sé reiðubúin til þess að greiða þann kostnað, sem af því leiðir, að þeim hluta, sem henni er skylt lögum samkvæmt. Og ég er hæstv. ráðh. alveg sammála um það að, að því beri að stefna, annars vegar, að skyldunám verði alls staðar að 15 ára aldri og hins vegar, að hægt sé að ljúka skyldunámi til 15 ára aldurs í þeim sama skóla og barnaskólanámið er stundað og því sé það eðlileg stefna og sjálfsögð að vinna að því með öllu móti, sem við vitum að sums staðar hefur mætt nokkurri andstöðu í bili a.m.k., að reistir verði myndarlegir skólar, heimavistarskólar, fyrir stærri einingar eða fleiri hreppa saman og þannig tryggð aðstaða til þess, að hægt sé að ljúka þar skyldunáminu. Og það má gera ráð fyrir, að jafnvel í sumum tilfellum kynnu slíkar skólabyggingar að geta lagt grundvöll að því, að þar væri einnig hægt að reka miðskólanám.

Mér sýnist því eftir þessum upplýsingum að dæma, að þess megi vænta, að varðandi skyldunámið verði unnið að því með öllum ráðum og á það lögð áherzla af ríkisstj. hálfu, að námsstjórar vinni að því hver á sínum stað, að framkvæmdir komist í það horf, að skyldunámi verði lokið í heimahéraði, svo sem lög gera ráð fyrir. En það er að sjálfsögðu frumatriði, að hægt sé að uppfylla kröfur fræðslulaga að þessu leyti.

Varðandi miðskólana er það vitanlega rétt hjá hæstv. ráðh., að þar er um töluvert meira vandamál að ræða. Í mörgum héruðum eru miðskólar, annars vegar héraðsskólar svo kallaðir og aðrir miðskólar eða gagnfræðaskólar og það er auðvitað rétt, að það er ekki hægt að ætlast til, að þessir skólar séu jafnvíða og jafnmargir og skyldunámsskólarnir. En ég held, að það hljóti að vera okkur öllum ljóst að, að því beri að stefna, að a.m.k. sé hægt innan hverrar sýslu að ljúka miðskólanámi fyrir alla þá unglinga, sem þess óska í því héraði og að því beri að stefna.

Það er auðvitað rétt að, að þessu verður að vinna eftir áætlun og því er fsp. okkar orðuð varðandi þennan seinni lið þannig að spyrjast fyrir um, hvað ríkisstj. hyggist gera í þessu efni, því að það er öllum áreiðanlega ljóst, að þetta verður ekki gert í einu átaki, heldur verður að þessu að vinna. En það ber brýna nauðsyn til þess að, að þessu verði unnið sem skjótast og með sem markvissustum hætti, þannig að komið verði í veg fyrir þau vandræði, sem af því hlýtur að leiða fyrir þau héruð, þar sem aðstaða er ekki fyrir hendi til þess að ljúka miðskólanáminu.

Í þessu sambandi er mjög mikilvægt, að fengin verði ákveðin niðurstaða varðandi kostnaðarskiptingu, því að ég tel það fullkomlega eðlilegt, að höfð sé þar hliðsjón af aðstöðu héraðanna og mismunandi kröfur gerðar í þessu efni, hvort um er að ræða hin þéttbýlli héruð eða stærri bæjarfélög eða strjálbýlli héruð, sem efnahagslega eiga erfiðara um vik.

Ég vék áðan að héraðsskólunum, sem voru nokkrir teknir alveg yfir á herðar ríkisins. Að vísu höfðu héruðin lagt fram sinn hlut til að byggja þessa skóla á sínum tíma, en með þessu sýnist hafa verið mörkuð sú stefna, að eðlilegt sé, að skólar í strjálbýlinu njóti betri kjara, en þéttbýlisskólarnir að þessu leyti og vil ég mega vænta þess, að einmitt þetta sjónarmið verði haft í huga við þá endurskoðun á skólabyggingarkostnaði og skiptingu hans, sem ráðh. minntist hér á.

Við höfum heyrt nýlega, að það sé gert ráð fyrir því, að nú séu um 30% þjóðarinnar, sem séu á skólabekk og við sjáum af þessu, hvílíkt geysilegt vandamál er hér við að glíma. Skólabyggingamálin og kennslumálin í heild eru geysi þungur baggi á okkar litlu þjóð. En ég held, að það muni vera öllum ljóst, að hér er um svo stórkostlegt atriði að ræða miðað við þá menningar- og tæknitíma, sem við lifum á, að það verði með öllum ráðum að beita þeirri orku, sem þjóðfélagið hefur yfir að ráða, til þess að við drögumst ekki aftur úr öðrum þjóðum að þessu leyti. Það hefur verið okkar stolt og einn grundvöllurinn að okkar tilveru, að við getum byggt hér upp menningarþjóðfélag, sem sé þess umkomið að veita æsku sinni þá menntun, sem tímarnir gera kröfu til.

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingar hans og jafnframt vænta þess, að áfram verði haldið af fullum krafti á grundvelli þeirra athugana, sem hann hefur lýst yfir, að séu þegar hafnar.