10.03.1965
Sameinað þing: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í D-deild Alþingistíðinda. (3271)

88. mál, útflutningur á dilkakjöti

Fyrirspyrjandi (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir þá ýtarlegu skýrslu, sem hann hefur gefið hér og greinargóðu svör við minni fsp. Mér þótti athyglisvert ýmislegt, sem kom fram í ræðu hans og ég vil sérstaklega láta í Ijós ánægju mína yfir því, sem nú nýlega hefur verið komið í framkvæmd, en það er opnun þessarar sölustöðvar í London, sem er fyrst og fremst árangur af starfi þeirrar n., sem hefur haft þessi mál með höndum, allt frá því að þessi þáltill. var samþ. hér eða litlu síðar. Og það er sérstök ástæða að fagna því, að enda þótt þessi till. fjallaði fyrst og fremst um sölu á dilkakjötinu, þá er gert ráð fyrir því með stofnun þessarar sölustöðvar, að þar verði einnig margar aðrar íslenzkar afurðir til sýnis og sölu, þannig að það má ætla, að af þessu geti orðið miklu víðtækara gagn heldur en að því er snertir kjötið eitt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta. Ég vil leggja áherzlu á það, að þessu máli verði fylgt vel eftir, hér eftir sem hingað til, því að það er tvímælalaust eitt af okkar stóru hagsmunamálum að afla viðhlítandi markaðar erlendis fyrir okkar sauðfjárafurðir. Það má að vísu segja, að hingað til hafi það ekki verið neitt vandamál með sölu á gærum og ull., en liggur þó í augum uppi, að því betra verð sem fæst fyrir þær afurðir, þeim mun betur stöndum við að vígi með framleiðslu á dilkakjötinu, því að það er verðið, sem fæst fyrir þessar afurðir sameiginlega, sem segir til um, hvernig afkoma sauðfjárræktarinnar er.

Ég vil sem sagt þakka ráðh. fyrir upplýsingar hans og leggja áherzlu á það, að þessu máli verði hér eftir sem hingað til fylgt eftir af festu og dugnaði. Og ég ber fullt traust til þeirra manna, sem valizt hafa til forustu í hinni nýju sölustofnun.