10.03.1965
Sameinað þing: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í D-deild Alþingistíðinda. (3275)

218. mál, aðstoð til vatnsveitna

Sjútvmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Spurt er, eins og hv. fyrirspyrjandi lýsti hér áðan, hvað líði athugun á frv. því til breyt. á l. nr. 93 5. júní 1947, um aðstoð til vatnsveitna, sem vísað var til ríkisstj. á síðasta þingi.

Þetta frv. var fljótlega eftir þinglokin sent til umsagnar vegamálastjóra, en hann er, eins og kannske flestir hv. alþm. vita, tæknilegur ráðunautur ríkisstj. um framkvæmd l. um aðstoð til vatnsveitna. Svar hefur borizt frá honum og tel ég það skýra málið bezt, að ég lesi upp umsögn vegamálastjóra, sem hann hefur skilað rn., en hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í 1. gr. téðs frv. er lagt til, að í 1. mgr. 4. gr. l. nr. 93 1947 verði bætt orðinu „aðaldreifiæðar“, sem yrðu þá styrkhæfar á sama hátt og stofnæðar, vatnsgeymar, dælur og jarðboranir eru nú. Í grg. með frv. benda flm. á, að stofnæðar séu skilgreindar sem aðalleiðsla frá vatnsbóli að fyrsta dreifipunkti af þeim, sem úthluta styrk til vatnsveitna. Hins vegar sé nauðsynlegt, að styrkur nái einnig til aðaldreifiæða, ef að fullu gagni eigi að koma og eigi þetta bæði við í kauptúnum og þorpum og ekki hvað sízt í sveitum, þar sem strjálbýlt er og dreifingarkerfið því mjög víðáttumikið. Ég lít svo á,“ segir vegamálastjóri, „að það geti orðið nokkuð umfangsmikið að veita styrk til aðaldreifiæða í öllum tilvikum. Í flestum þorpum og kauptúnum yrði þá aðaldreifiæðin vatnsleiðslan að frystihúsi eða sláturhúsi staðarins eða öðrum álíka vatnsfrekum iðnaði, sem tæplega getur talizt rétt að styrkja af opinberu fé á þennan hátt. Hins vegar hefur það færzt mjög í vöxt hin síðari ár, að vatnsveitufélög hafi verið stofnuð í sveitum, og ná þau þá oftast til 5–10 býla. Hjá þessum félögum hefur víðast hvar verið um óverulegan kostnað að ræða við virkjun vatnsbóls, enginn vatnsgeymir byggður og stofnæð og aðaldreifiæð sama leiðslan, sem allir neytendur hafa verið tengdir beint við. Stofnkostnaður þessara veitna er oft mjög verulegur miðað við notendafjöldana og sökum mikillar vegalengdar milli býlanna. ~Styrkhæfur hluti stofnkostnaðar hefur því víða aðeins orðið 10–20% af heildarkostnaði og þar sem ríkisstyrkurinn er bundinn við 50% hámark, hefur heildarstyrkur til þessara félaga í sumum tilvikum aðeins orðið 5–10% af stofnkostnaði og því komið að mjög takmörkuðu gagni. Ég lít því svo á, að full þörf sé á því að styrkja þessi dreifbýlisfélög sérstaklega. Mætti þá e.t.v. bæta við 1. mgr. 4. gr. ákvæði, sem væri á þá leið, að heimilt væri að láta styrk ná til aðaldreifiæðar, þegar sjálfstæðir notendur vatnsveitufélags væru 10 eða færri.“

Þetta er umsögn vegamálastjóra um málið. En í framhaldi af þessari umsögn hans varðandi aðstoð við vatnsveitufélög í sveitum telur rn., að ná megi því marki, sem hann telur æskilegt, með rýmri skýringu á orðinu „stofnæð“ og það atriði er nú til athugunar í rn., og eru enda fordæmi fyrir því, að það hafi verið skýrt rýmra, en stofnæð væri frá vatnsbóli að fyrsta dreifipunkti. Og ef það reynist svo, að hægt sé að gera þetta án lagabreytingar, er hún að sjálfsögðu óþörf þess vegna.

En að öðru leyti er ástæða til að vekja athygli á því, að svo takmörkuð sem aðstoð til vatnsveitna er samkv. núgildandi l., hefur þó ekki verið unnt að láta þessa aðstoð í té nema á lengri tíma, vegna þess að þær fjárveitingar, sem Alþingi hefur veitt til vatnsveitna, hafa hrokkið mikið til of skammt. Á síðari árum hefur fjárveiting þessi þó verið mjög hækkuð eða úr 800 þús. kr., eins og hún var á árinu 1958, í 2 millj. á þessu ári. Rn. hefur lagt til, að fjárveiting þessi væri hækkuð í 3 millj., en það hefur ekki náð fram að ganga.

Þegar lokið var úthlutun styrkja fyrir árið 1964, námu ógreiddir styrkir samkv. till. vegamálastjóra 2 millj. 805 þús. kr. Síðan hafa bætzt við margar styrkheimildir og sumar mjög háar. Af þessu má vera ljóst, að þó að aðstoð til vatnsveitna verði aukin samkv. l., stoðar það ekki, nema fjárveiting úr ríkissjóði í þessu skyni fáist hækkuð, svo að verulegu nemur.

Svo vænti ég, að með þessu sé fsp. hv. þm. svarað.