17.03.1965
Sameinað þing: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í D-deild Alþingistíðinda. (3281)

219. mál, ríkisábyrgðir

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það mátti skilja svo orð hv. fyrirspyrjanda, að skýrslur um ábyrgðir ríkisins væru gefnar hv. þm. og almenningi síðar, nú en áður fyrr. Þetta ætla ég, að sé á misskilningi byggt. Í ríkisreikningi fyrir árið 1962 er birt skýrsla um ábyrgðir ríkissjóðs í árslok 1962 á bls. 219–258. Í ríkisreikningi fyrir 1963 er birt skýrsla um ábyrgðir ríkissjóðs í árslok 1963 á bls. 224–262. Varðandi greiðslur vegna ríkisábyrgða er í ríkisreikningi 1963 birt skýrsla á bls. 160–166 um greiðslur vegna ríkisábyrgða fyrir árin 1962 og 1963, og ástæðan til þess, að í þessum ríkisreikningi er skýrsla um árið 1962 einnig, er sú, að þegar gengið var frá ríkisreikningi 1962, var ríkisábyrgðasjóður samkv. l. frá árinu 1962 nýlega tekinn til starfa og hafði ekki lokið endanlegu uppgjöri fyrir það ár. Þegar þetta er haft í huga og um leið, að nú síðustu árin hefur það nýmæli verið upp tekið, að ríkisreikningur hefur verið lagður fyrir Alþingi fullprentaður og endurskoðaður næsta haust eftir reikningsárið, er ljóst, að hv. alþm. hafa fengið skýrslur um greiðslur vegna ríkisábyrgða og skrá um allar ríkisábyrgðir miklu fyrr en áður var, þegar ríkisreikningur með þessum upplýsingum var ekki lagður fyrir Alþ. fyrr en 2—3 árum eftir reikningsárið.

Áður en ég vík efnislega að þeirri fsp., sem hér liggur fyrir, tel ég rétt að gera aths. um formhlið hennar, því að það hefur valdið nokkrum vafa, í hvaða formi ætti að gefa þær upplýsingar, sem um er beðið. Í 31. gr. þingskapa er heimilað að bera fram fsp. og í þeirri gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Fsp. skulu vera skýrar, um afmörkuð atriði og mál, og sé við það miðað, að hægt sé að svara þeim í stuttu máli.“

Svo er ákveðið í þingsköpum, og þetta er í samræmi við tilgang fsp. Það var á Alþ. 1946, sem flutt var frv. til breytinga á l. um þingsköp, um að taka upp þetta nýmæli og eftir því sem flm. málsins skýrði þá frá í umr., var tilgangurinn fyrst og fremst sá að lögleiða hér að fyrirmynd brezka þingsins fyrirspurnatíma, þar sem menn gætu borið fram fsp., sem svarað yrði, eins og hann tók fram, í mjög stuttu máli af ráðh. Og hann nefndi sem dæmi, að eitt sinn, er hann hafði komið í brezka þingið og hlýtt þar á fsp., hefðu um 60 fsp. verið bornar fram og svarað á einni klukkustund. Í samræmi við þetta hafði flm. sett þetta ákvæði í sitt frv., og það varð að l. árið 1947 sem breyting á þingsköpum, að fsp. skuli við það miðaðar, að hægt sé að svara þeim í stuttu máli. Nú er með þessum fsp. tveim, sem hér liggja fyrir, spurt um það, hve mikið ríkisábyrgðasjóður hafi greitt vegna ríkisábyrgða á árinu 1964 og er auðvitað auðvelt að svara því með heildartölu í stuttu máli. Það er einnig spurt fyrir hverja og hve mikið fyrir hvern aðila. Hér er um að ræða, að ég ætla, a. m. k. um 200 aðila og þá álíka margar greiðslur, en náttúrlega miklu fleiri tölur, ef talið er bæði það, sem greitt hefur verið upphaflega úr ríkisábyrgðasjóði og það, sem greitt hefur verið inn af sama aðila, og hver nettótalan er svo í árslok.

Í 2. lið er spurt um, hvaða einstaklingar og fyrirtæki skuldi ríkisábyrgðasjóði í árslok 1964 og hver skuld hvers um sig sé. Það er eins um þetta, að ég ætla, að það séu a. m. k. 200 aðilar, sem þarna er um að ræða, og það er ljóst, að það er ekki hægt að svara þessum fsp. Í stuttu máli, eins og þingsköp ætlast til, heldur geri ég ráð fyrir, að lestur þessara upplýsinga mundi taka mikinn hluta fundartímans í dag.

Nú má ekki skilja orð mín svo, að ég hafi nokkuð á móti því að veita þær upplýsingar, sem hér er um beðið. Því fer svo fjarri, því að allt liggur þetta fyrir sem opinbert mál. Allar þessar upplýsingar eru á sínum tíma birtar í ríkisreikningi. En þar sem óskað er eftir að fá þær upplýsingar fyrr, hef ég látið útbúa lista, sem fjölritaður hefur verið og útbýtt meðal þm., með öllum þessum upplýsingum. Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á þessu atriði þingskapa m. a. vegna fsp. framvegis, því að það hefur í rauninni ekki komið fyrir, að ég ætla, síðan ákvæði voru sett í þingsköp um fsp., að ekki hafi verið unnt að svara í tiltölulega stuttu máli fsp., sem fram voru bornar,fyrr en á síðasta þingi, þegar svipaðar fsp. voru bornar fram eins og þær, sem hér ræðir um. Ég hef rætt við hæstv. forseta Sþ. og skrifstofustjóra Alþ. um, hvern hátt væri eðlilegast að hafa á þessu og varð niðurstaðan sú í fullu samráði við þá, að ég mun hér eftir gefa í stuttu máli og stórum dráttum yfirlit um málið, að hinni sundurliðuðu, fjölrituðu skýrslu hefur verið útbýtt til allra hv. þm., en hún verður ekki lesin upp hér vegna þess, hve það yrði langt mál og loks að svörin eða skýrslan yrði birt í umræðuparti þingtíðinda. [Sjá viðbæti, 698. 702. bls.] Skrifstofustjóri taldi hins vegar ekki rétt að gefa skýrsluna út sem sérstakt þskj. nú, enda er sérstaklega tekið fram í 31. gr. þingskapa um fsp., að engar grg. skuli skráðar eða prentaðar með fsp. og þá kannske ekki heldur eðlilegt, að farið sé að prenta sem þskj. svörin við þeim. En þessu til viðbótar koma allar þessar tölur að sjálfsögðu í ríkisreikningi, sem væntanlega verður tilbúinn með sama hætti og síðustu ár í haust og lagður fyrir Alþ., þegar það kemur saman.

Þessar aths. um þingskapaákvæði og eðli fsp. og svara taldi ég rétt að láta koma hér fram að gefnu þessu tilefni. Hv. alþm. hafa þá í höndum væntanlega eða fyrir framan sig hið fjölritaða yfirlit, sem er í tveimur meginköflum. Það eru annars vegar vanskil á ábyrgðarlánum 1964, sem nær yfir fyrstu 7 síðurnar í þessu yfirliti, en á tveim síðustu síðunum eru vanskil á endurlánum ríkissjóðs 1964, þ.e.a.s. þeim lánum, sem ríkissjóður er sjálfur lántakandi að, en hefur svo endurlánað ýmsum aðilum. Upplýsingarnar eru gefnar í allmörgum dálkum og er fyrst heiti aðilans, síðan kemur í 2. dálki, hver skuldin var í árslok 1963, í 3. dálki, hvað ríkisábyrgðasjóður hefur greitt vegna viðkomandi aðila á árinu 1964, í 4. dálki, hvað sá aðili hefur svo endurgreitt á árinu og í 5. dálki er síðari talan dregin frá hinni fyrri, þ.e.as. nettógreiðsla ríkisábyrgðasjóðs á árinu vegna viðkomandi aðila. Í 6. dálki er svo getið um útgáfu skuldabréfa, því að eitt af verkefnum ríkisábyrgðasjóðs er það að semja um áfallin vanskil, sumpart með greiðslum í reiðufé og sumpart með því, að aðili semur um skuldirnar og gefur út skuldabréf. Þá er í 7. dálki getið, hver skuldin var í árslok 1964 og í 8. dálki, hvað afskrifað hefur verið eða eftirgefið.

Í því sambandi er rétt að geta þess, að samkv. ríkisábyrgðal. má engin vanskil gefa eftir nema með einróma samþykki fjvn. Að vísu liggur það í hlutarins eðli, að ef fyrirtæki, sem lent hefur í vanskilum, verður t.d. gjaldþrota og það er sannreynt með gjaldþrotaskiptum, að ekki sé hægt að fá skuldirnar greiddar, leiðir það af l. og eðli máls, að slík skuld afskrifast þá af sjálfu sér.

Ef við lítum svo nánar á þessa lista, er 1. kaflinn um hafnarlán, lán vegna hafnargerða, 2. kaflinn er um vatnsveitulán, 3. um rafveitulán og skuldir raforkusjóðs, 4. kaflinn um fiskiðnað, þ. á m. síldarverksmiðjur, 5. kaflinn um togaralán, 6. kaflinn um iðnað, 7. um samgöngur, 8. kaflinn um annað. Seinni hluti skýrslunnar, vanskil á endurlánum ríkisins, er svo sumpart vegna vörukaupalána, sem ríkið hefur tekið og endurlánað, bæði til hafnargerða o.fl., enn fremur enska framkvæmdalánið frá því í desember 1962, sem ríkissjóður tók og endurlánaði til ýmissa framkvæmda. Þar eru einnig Hambroslánin vegna kaupa á 10 togurum á sínum tíma, á árunum 1948–1958, að ég ætla. Þannig er þetta flokkað niður í stórum dráttum og tel ég ekki ástæðu til að fara lengra út í það mál, þar sem þessar upplýsingar liggja nú allar fyrir.

Eins og hv. þm. er kunnugt, voru á árunum 1961 og 1962 gerðar ýmsar ráðstafanir til að koma ríkisábyrgðum í betra horf en áður. Tilgangurinn var sá, að betur yrðu skoðaðir málavextir, áður en ríkisábyrgðir yrðu veittar, að haft yrði sem bezt eftirlit með skilvísri greiðslu aðila á þeim lánum, sem ríkissjóður væri í ábyrgð fyrir og að því leyti sem ríkissjóður eða síðar ríkisábyrgðasjóður þyrfti að greiða sjálfur vegna vanskila aðila, eru gerðar tilraunir til þess að fá slíkar greiðslur endurgreiddar, ýmist í reiðufé eða með samningum, eða í einstökum tilfellum að veita eftirgjöf að einhverju leyti, en til þess, eins og ég gat um áðan, þarf samkv. l. samþykki fjvn.

Ég skal ekki rekja þetta í löngu máli, það hefur verið gert svo oft áður, en um margra ára skeið fóru greiðslur ríkissjóðs og kostnaður vegna áfallinna ríkisábyrgða sívaxandi ár frá ári. Þessar greiðslur náðu hámarki á árinu 1962, urðu þá mjög háar, eða 129.4 millj. kr. Á árinu 1961 höfðu verið sett lög um ríkisábyrgðir, sem höfðu það markmið að koma fastari skipan á þessi mál. Meðal annarra nýmæla í þeim l. var það, að almenna reglan skyldi vera sú, að þegar ríkissjóður veitti ábyrgðir, skyldi það vera einföld ábyrgð, en ekki sjálfskuldarábyrgð, sem merkir það, að ef lántakandi stendur ekki í skilum, verði lánveitandi fyrst að reyna til þrautar að fá greiðslu frá honum, áður en hann snýr sér til ríkissjóðs, í staðinn fyrir að áður hafði meginreglan undantekningarlitið verið sú, að ábyrgð ríkissjóðs var sjálfskuldarábyrgð, þannig að þegar ekki var staðið í skilum, gat lánveitandi, jafnvel án þess að gera tilraun til innheimtu hjá skuldaranum, farið beint í ríkissjóð og sótt greiðsluna þangað. Því var spáð þá af þeim, sem að þessu stjórnarfrv. stóðu, að þetta mundi með tíð og tíma verða þýðingarmikil breyting og reynslan hefur þegar skorið úr um það. Það eru nú komin 31/2 ár, frá því að þessi lög tóku gildi á miðju ári 1961 og til síðustu áramóta og á þessu 31/2 ári, þó að greiðslur ríkissjóðs eða kostnaður vegna áfallinna ábyrgða hafi verið yfir 100 millj. bæði árin 1962, 1963 og 1964, hafa svo að segja engar einfaldar ábyrgðir fallið á ríkissjóð eða ríkisábyrgðasjóð. Það eru samtals 1 millj. 700 þús. kr., sem orðið hefur að greiða vegna einfaldra ábyrgða á þessu 31/2 ári, og þegar miðað er við heildargreiðslurnar, má sjá, hversu þetta er hverfandi lítill hluti. Og þó er rétt að hafa í huga, að af þessari 1 millj. 700 þús. eru um 744 þús. vegna rafvæðingarinnar eða vegna raforkusjóðs og 925 þús. vegna fiskvinnslustöðvar, sem varð gjaldþrota, þannig að reynslan hefur þegar skorið úr um, að þetta var rétt leið. Ég nefni þetta eina dæmi af mörgum nýmælum ríkisábyrgðarlaganna, vegna þess að hér hefur tíminn skorið svo glöggt úr.

Árið eftir, 1962, voru svo sett lög um ríkisábyrgðasjóð, að losa þessi mál úr tengslum við sjálfan ríkissjóðinn og stjórn Seðlabankans var falin yfirstjórn og umsjá ríkisábyrgðasjóðs og hefur verið unnið af mikilli samvizkusemi og fyrirhyggju að þeim málum og afleiðingarnar af þessu eru þegar komnar í ljós.

Ég sagði, að árið 1962, þ.e.a.s. árið eftir að fyrri l. um ríkisábyrgðir voru sett, náðu vanskilin vegna ríkisábyrgða hámarki, urðu 129.4 millj. Árið eftir, 1963, varð upphæðin lægri, 107.7 millj., og á s.l. ári, 1964, lækkaði hún enn, varð 101.3 millj. Vissulega eru þetta geysilega háar upphæðir og allt of háar, en það sýnir þó, að þessi starfsemi miðar í rétta átt og í stað þess, að fram að árinu 1963 fóru þessar ábyrgðir síhækkandi ár frá ári, hefur þessi tvenns konar löggjöf og sú starfsemi, sem höfð hefur verið með höndum í framhaldi af henni, þegar borið nokkurn ávöxt og við væntum þess, að þessar tölur hinna þriggja síðustu ára sýni vissa þróun. Við skulum vona í lengstu lög, að hún haldi áfram, þannig að kostnaður ríkissjóðs vegna vanskila fyrir ríkisábyrgðir eða endurlán fari minnkandi.