31.03.1965
Sameinað þing: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í D-deild Alþingistíðinda. (3298)

135. mál, sölunefnd varnarliðseigna

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þakka að sjálfsögðu fyrir þær upplýsingar, sem ég og þingheimur hefur fengið með svörum hæstv. ráðh. Fyrir skætinginn í upphafi orða hans þakka ég hins vegar ekki — tel hann ekki þakkarverðan, enda var hann ástæðulaus með öllu. Hér var aðeins spurt um efnisatriði, sem ég og aðrir þm. áttum fullan rétt á að fá og þurftu fyrirspurnirnar því alls ekki að fylla hæstv. ráðh. neinni ólund eða fýlu.

Hann reyndi að gera það hlægilegt, að ég skyldi ekki vita um handbók utanrrn., sem gæfi upplýsingar um, hverjir væru í Sölunefnd setuliðseignanna. Í fyrsta lagi er nú það, að ég spurði alls ekki eingöngu mín vegna. Ég spurði til þess að fá almenna vitneskju og ég veit, að þessi nefnda handbók er ekki í höndum almennings. Þess vegna átti hæstv. ráðh. með ljúfu geði að veita þessar upplýsingar, þó að svo kunni að vera, að þessa fræðslu sé að finna í þessari handbók, sem ekki er í margra manna höndum. Auk þess tek ég fram, að meðan ég var ráðh., minnist ég þess ekki, að ég hafi nokkurn tíma séð hana. Hins vegar hef ég séð þessa handbók síðar og er mér það Ijóst, að hún er ekki nákvæmt heimildarrit, því að í henni eru oft og tíðum tilgreindir sem nefndarmenn steindauðir menn — dauðir fyrir mörgum árum. Ég vildi því alls ekki byggja á henni sem öruggu heimildarriti og taldi því vissara að leita til ráðh. um öruggar upplýsingar. Ég ætla þess vegna heldur að taka góðar og gildar upplýsingar núverandi hæstv. utanrrh. heldur en fræðslu handbókarinnar.

Ríkissjóður fær tekjur af nefndinni, það sést á ríkisreikningnum, segir hæstv. ráðh. Gott er það, en það, sem ég furðaði mig alveg sérstaklega á var, að aldrei skuli koma til álita að áætla í sambandi við fjárhagsáætlun tekjur af þessari starfsemi. En ég minnist þess ekki að sjá nokkurn tíma um það fjallað — eða þegar embættismenn ríkisins eru kallaðir til fjvn. til þess að gera grein fyrir fjárhag sinna fyrirtækja, sem þeir stjórna, þá minnist ég þess alls ekki, að Sölunefnd setuliðseigna hafi nokkurn tíma verið til kvödd eða það sé tekinn inn liður á fjárhagsáætlun íslenzka ríkisins frá þessari mjólkurkú.

Þá held ég, að það sé alveg rangt hjá hæstv. ráðh., að ekki hafi ríkt hula eða leynd yfir starfsemi þessarar nefndar. Það er á allra vitorði, að það hefur farið ákaflega leynt um starfsemi þessarar nefndar og fjárhagsleg umsvif hennar. Og það er fyrst nú við þessar fsp., sem hér hafa verið til umr. í dag, sem menn hafa fengið tölulegar upplýsingar um þetta, og var tími til kominn.

Hæstv. ráðh. eyddi alllöngu máli í að tala um þá Sölunefnd setuliðseigna, sem ekki er lengur til og er löngu hætt störfum, til þess að nefna þá menn og gefa upplýsingar um hana. Um það spurði ég ekki. Það var þess vegna formáli, sem var auka erfiði, sem hæstv. ráðh. lagði á sig. ég þakka hins vegar fyrir upplýsingarnar varðandi þessa n. og nú veit ég það, að n. er skipuð af utanrrh. án tilnefningar frá öðrum. Þetta er þjónustulið hæstv. ráðh. sjálfs, ekki flokkanna, að því er virðist. Hún er skipuð til framkvæmda á l. En ætli það sé hægt fyrir hana að starfa á hinum gömlu l. um hina fyrri setuliðseignanefnd? Ég held, að það sé áreiðanlega mjög erfitt að starfa á grundvelli þeirra laga, sem löngu fyrr voru sett með tilliti til allt annarrar starfsemi.

Bókfærðar tekjur, sem runnið hafa í ríkissjóð, eru 150 millj. kr., það vitum við nú, um það bil, — 148.250.407.11 kr. og þar af hafa komið í ríkissjóðinn 113 millj., hitt er í vörzlu nefndarinnar.

Þá vitum við einnig, að þetta er ekki sjálfboðavinna eða þegnskylduvinna fyrir fósturjörðina, heldur eru mennirnir á kaupi frá 48 þús. kr. formaðurinn og hinir nefndarmennirnir 34.951 kr. Þetta eru ekki há laun, þetta eru ekki elnu sinni vinnukonulaun og undrast ég ekki sízt þessar launagreiðslur til manna með önnur eins verzlunarumsvif og þeir hafa. Mér finnst vera sparlega á haldið, að því er snertir launagreiðslur til nefndarmanna.

Nú veit ég það einnig, að endurskoðunin fer ekki fram á vegum endurskoðunarskrifstofu ríkisins, heldur er það endurskoðunarskrifstofa Björns Steffensens, sem annast þessa endurskoðun. Ég hefði talið að öllu leyti eðlilegra, að það hefði heyrt undir endurskoðun ríkisins beint. Vörugeymsla hefur verið byggð, 4.300 m2 að flatarmáli, ef ég hef tekið rétt eftir og þykir mér það firnastórt hús, án þess að það hafi verið leitað til þess fjárlagaheimilda. Ég held, að engin ríkisstofnun hefði fengið að byggja slíka höll án þess að afla áður til þess heimilda fjárveitingavaldsins. Þau eru ekki ýkjamörg, sjónvarpstækin, sem hafa verið seld — (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á takmörkun ræðutíma í fyrirspurnatíma, ræðutíminn er búinn) — á vegum nefndarinnar. Hvaða óskapa hringingar eru þetta? Ég er að ljúka síðustu setningunni, herra forseti, ætlaði ekkert að syndga upp á náðina. Ja, þetta er meiri ofsinn. Hæstv. forseti og hæstv. utanrrh, missa bara stjórn á skapi sínu. Málið virðist mjög viðkvæmt. — Ég þakka þó fyrir, að ég fékk að tala í 5 mínútur.