21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í D-deild Alþingistíðinda. (3303)

170. mál, starfsfræðsla

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég mun svara fyrri hluta fsp., hæstv. atvmrh. mun svara síðari hlutanum.

Með bréfi, dags. 4. júní 1962, stíluðu til ríkisstj., sendi borgarstjórinn í Reykjavík greinargerð fræðslustjórans í Reykjavík um starfsfræðslu og óskaði í framhaldi af viðræðum við ráðh. í ríkisstj. og með tilvísun til þáltill., er samþ. var 1960, að teknar yrðu upp viðræður við borgaryfirvöld um framtíðarskipan þessara mála á þeim grundvelli, sem grg. fræðslustjórans fæli í sér. En í grg. sinni telur fræðslustjóri nauðsynlegt, að ríkisstj. og Reykjavíkurborg hafi samvinnu um starfsfræðslu í landinu. Væri ekki óeðlilegt, segir hann, að hugsa sér, að farin yrði svipuð leið og Finnar hafi farið, en þar hafði verið skipað sérstakt starfsfræðsluráð, skipað skólamönnum að hálfu og mönnum frá atvinnuvegunum að hálfu. Þáttur skólamannanna yrði að sjá um, að starfsfræðslan félli eðlilega inn í starfsskrá skólanna, en fulltrúar atvinnuveganna mundu gæta þess, að starfsfræðslan gæfi æskufólkinu réttar og hagnýtar upplýsingar um atvinnulíf þjóðarinnar. Starfsfræðsluráð mundi síðar gera till. um skipun starfsfræðslustjóra, sem hafa mundi með höndum framkvæmd starfsfræðslunnar í skólum landsins. Þá segir fræðslustjórinn enn fremur, að þar eð Reykjavíkurborg hafi haldið uppi starfsfræðslu á annan áratug, telji hann eðlilegt, að borgarsjóður taki þátt í kostnaði við starfsfræðsluráð og starfsfræðslustjóra og skrifstofu hans, t.d. að 2/3 hlutum, enda tilnefni borgarstjórn Reykjavíkur menn í starfsfræðsluráð í sama hlutfalli.

Ég hélt fund um þetta mál í menntmrn. 5. febr. 1963. Voru þangað kvaddir Helgi Elíasson fræðslumálastjóri, dr. Broddi Jóhannesson skólastjóri kennaraskólans, Jónas B. Jónsson fræðslustjóri Reykjavíkurborgar og Óskar Hallgrímsson formaður iðnfræðsluráðs. Ennfremur sat fundinn ráðuneytisstjóri menntmrn., Birgir Thorlacius. Var rætt um starfsfræðsluna og óskað álits fundarmanna á því, hvort ástæða væri til að efna til sérstaks embættis eða sérsakrar stofnunar, sem hefði þessi verkefni með höndum, þ.e. leiðbeiningar um stöðuval og fræðslu um, hvers eðlis hin ýmsu störf í þjóðfélaginu væru. Að loknum umr. um málið á fundinum varð það niðurstaða fundarmanna, að eðlilegt væri, að starfsfræðsla, þ.e. fræðsla um, hvers eðlis hin ýmsu störf í þjóðfélaginu eru og hvað þau fela í sér, færi fram í sambandi við félagsfræði- eða uppeldisfræðikennslu í Kennaraskóla Íslands fyrir kennara og einnig, að efnt yrði til námskeiða, eins og fyrirhugað var haustið 1963, fyrir kennara um starfsfræðslu. Hins vegar var ekki talin ástæða til að koma á fót sérstakri stofnun eða sérstöku embætti til að annast þessi verkefni.

Hinn 1. júní 1980 samþykkti Alþingi svofellda ályktun um starfsfræðslu, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga möguleika á því, að starfsfræðsla verði tekin upp í skólum landsins.“

Fól menntmrn. fræðslumálastjóra þessa athugun með bréfi 8. sept. sama ár. Var ákveðið að efna til námskeiða fyrir kennara um starfsfræðslu og var námskeið þetta haldið í kennaraskólanum dagana 11.—21. sept. 1963. Undirbúning námskeiðsins önnuðust þeir Helgi Elíasson fræðslumálastjóri og dr. Broddi Jóhannesson skólastjóri í nánu samstarfi við Iðnaðarmálastofnun Íslands og Magnús Gíslason námsstjóra gagnfræðastigsins í Reykjavík. Stefán Ólafur Jónsson kennari sá um daglega framkvæmd námskeiðsins og stjórnaði flestum umræðufundunum, en hann hafði kynnt sér starfsfræðslu í Svíþjóð árið 1961. Á námskeiðinu var m.a. fjallað um hlutverk og gildi starfsfræðslu, sálfræðilegar forsendur hennar og meginsjónarmið, starfshætti og kennslutæki og skipulag starfsfræðslu. Aðalleiðbeinendur námskeiðsins voru Danirnir A. Sogård Jorgensen starfsfræðsluráðunautur og Kaj Sorensen kennari í starfsfræðslu við kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Auk þess fluttu íslenzkir sérfræðingar erindi á námskeiðinu. Námskeið þetta sóttu 43 kennarar og skólastjórar frá 35 framhaldsskólum víðs vegar að af landinu. Auk þess hlýddu margir aðrir á fyrirlestrana.

Þá má geta þess, að í maímánuði 1962 fór dr. Broddi Jóhannesson skólastjóri kennaraskólans á vegum menntmrn. til Lundúna og sat þar alþjóðaráðstefnu um starfsfræðslu, sem haldin var að tilhlutan Evrópuráðsins og haustið 1963 var Stefáni Ólafi Jónssyni gagnfræðaskólakennara í Reykjavík veitt ársorlof, til þess að hann gæti kynnt sér starfsfræðslu erlendis, skipulag hennar og framkvæmd. Hefur hann aflað sér ýtarlegra upplýsinga um skipulag starfsfræðslu í ýmsum Evrópulöndum og Norður–Ameríku og kynnt sér framkvæmd starfsfræðslu, aðallega í Noregi og Danmörku.

Síðan haustið 1964 hefur Stefán Ólafur Jónsson unnið að því í samráði við fræðslumálastjóra og skólastjóra kennaraskólans að skipuleggja starfsfræðslu í skólum landsins. Hefur hann um þetta haft samband við alla skólastjóra gagnfræðastigsskóla, en markmið starfsfræðslunnar er fyrst og fremst að veita fræðslu um atvinnulíf þjóðarinnar og hjálpa æskufólki til að glöggva sig á eigin hæfileikum, áhuga og getu, svo að það eigi auðveldara með að ákveða um nám sitt og starfsundirbúning og framtíðarstörf. Veturinn 1963–1964 veittu 14 skólar nemendum sínum starfsfræðslu, ýmist sem fasta námsgrein á stundatöflu skólanna í sambandi við félagsfræði eða með sérstökum námskeiðum og fyrirlestrum. Þessa fræðslu veittu 14 kennarar. Á yfirstandandi skólaári munu álíka margir skólar láta í té starfsfræðslu. Sumir skólar hafa ekki enn getað hafið starfsfræðslu vegna skorts á sérhæfðum kennurum til kennslunnar og enn fremur vegna, skorts á hjálpartækjum.

Á s.l. hausti samdi Stefán Ólafur Jónsson námsáætlanir fyrir starfsfræðslu yfirstandandi skólaár, sem hann og fleiri starfsfræðslukennarar kenna eftir nú í vetur. Þá hefur hann unnið að því að þýða á íslenzku og staðfæra verkefni í þessari kennslugrein og hefur notið við það aðstoðar Kristins Björnssonar sálfræðings. Eru þessi verkefni notuð við fræðslu 400–500 nemenda nú í vetur.

Þess má geta, að í desembermánuði stofnuðu 22 kennarar félag með sér til að vinna að framgangi starfsfræðslu í landinu. Eru þetta allt kennarar, sem sótt hafa starfsfræðslunámskeið og búið sig undir að veita starfsfræðslu í skólum.

Þeir Stefán Ölafur Jónsson, Helgi Elíasson fræðslumálastjóri og dr. Broddi Jóhannesson skólastjóri hafa unnið að gerð tillagna um skipan starfsfræðslu og hafa um það samstarf við Magnús Gíslason námsstjóra, Jónas Pálsson sálfræðing og frú Sigríði Þ. Valgeirsdóttur kennaraskólakennara. Þá hefur verið leitað álits starfsfræðsluráðunautar danska menntmrn., A. Sogård Jörgensens, um ýmis atriði í þessu sambandi, en hann hefur mikla reynslu í skipulagningu og framkvæmd starfsfræðslu.

Í ráði er að efna til námskeiðs fyrir kennara um starfsfræðslu dagana 13.–25. sept. n.k. og verður það námskeið í Kennaraskóla Íslands. Er ætlunin, að þetta námskeið verði einn þátturinn í því að þjálfa hér góða starfsfræðsluleiðbeinendur. Aðalleiðbeinandi á þessu námskeiði verður norskur ráðunautur um starfsfræðslu, Thorstein Ness að nafni. En auk hans munu margir íslenzkir sérfræðingar á sviði atvinnu-, uppeldis-, fræðslu- og félagsmála starfa við þetta fyrirhugaða námskeið. Fyrri hluti þess er ætlaður byrjendum í starfsfræðslu, en síðari hlutinn er framhaldsnámskeið fyrir þá kennara, sem lokið hafa undirbúningsnámskeiði.

Vona ég, að með þessu megi teljast fullsvarað fyrri lið fyrirspurnarinnar.