21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í D-deild Alþingistíðinda. (3304)

170. mál, starfsfræðsla

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Annar liður þessarar fyrirspurnar hljóðar svo:

„Hvað hefur atvmrn. gert til þess að tryggja nauðsynlegt framhald og aukningu starfsfræðslu utan Reykjavíkur?“

Eins og kunnugt er, var það fyrst 1963, sem veittar voru 30 þús. kr. til starfsfræðslu utan Reykjavíkur og þess vegna ekki nema stuttur tími síðan farið var að huga að þessari starfsemi. Ólafur Gunnarsson sálfræðingur hefur með góðu samþykki borgarstjórans í Reykjavík skipulagt og stjórnað starfsfræðsludögum utan Reykjavíkur og hefur unnið með því gott starf, sem skylt er að þakka.

Því fé, sem hefur verið veitt á fjárl., hefur verið varið eins og nú skal greina: Af þessum 30 þús. 1963 voru veittar 5 þús. kr. til leiðbeininga um starfsfræðslu á Austurlandi. Veittar voru 5 þús. kr. til leiðbeininga um starfsfræðslu á Suður- og Suðausturlandi og annaðist Ólafur Gunnarsson þær leiðbeiningar eins og annars staðar. Veittar voru 5 þús. kr. til leiðbeininga um starfsfræðslu og starfsfræðsludags á Sauðárkróki, er haldinn var 31. marz 1963, en hann sóttu 224 unglingar. Veittar voru 15 þús. kr. til leiðbeininga um starfsfræðslu á Húsavík og starfsfræðsludags þar, en hluti af þessu fé gekk til leiðbeininga um starfsfræðslu á Siglufirði. Um 153 unglingar sóttu þennan starfsfræðsludag, þar af 58 frá Laugum.

Á árinu 1964 voru veittar 83 þús. kr. til starfsfræðslu utan Reykjavíkur, og skiptist það fé þannig: 7 þús. kr. voru veittar til Starfsfræðsludags Siglufjarðar, er haldinn var í febr. 1964. Sóttu þann dag 140 unglingar. Veittar voru 6 þús. kr. vegna Starfsfræðsludags á Akranesi, er haldinn var 8. marz 196, og komu 263 unglingar til þess að sjá það, sem þar fór fram. Veittar voru 25 þús. kr. til Starfsfræðsludags Vestfjarða, er haldinn var 22. marz 1964 á Ísafirði, en hann sóttu milli 5 og 8 hundruð unglingar. Veittar voru 10 þús. kr. til Starfsfræðsludaga Akureyrar, er haldinn var 12. apríl 1964, og sóttu hann um 470 unglingar. Veittar voru 35 þús. kr. til Starfsfræðsludags Austfjarða, er haldinn var 11. okt. 1964 og sóttu hann um 360 unglingar.

Auk þessa voru haldnir Starfsfræðsludagar í Reykjavík 15. mars s.l., í Vestmannaeyjum 26. apríl s.l. og sóttu þangað unglingar af Suðvesturlandi, en starfsfræðsludagar þessir voru eingöngu kostaðir af bæjarfélögunum. Auk þessa hafa einstakir Starfsfræðsludagar verið haldnir um langt árabil, kostaðir af viðkomandi bæjarfélögum.

Á 16. gr. E. VII fjárl. fyrir árið 1965 eru veittar 100 þús. kr. til starfsfræðslu utan Reykjavíkur. Af þessu fé hafa verið veittar 15 þús. kr. til Starfsfræðsludags á Selfossi, sem haldinn var s.l. haust og 3 þús. kr. hafa verið veittar til að flytja nemendur gagnfræðaskólana á Akranesi á Starfsfræðsludag í Reykjavík og einnig ganga 64 þús. kr. til Starfsfræðsludaga á Sauðárkróki. Sótt hefur verið um 25 þús. kr. styrk til Starfsfræðsludags á Patreksfirði.

Eins og sjá má, hafa á þessum þremur árum, sem fjárveitingar hafa verið veittar til starfsfræðslu utan Reykjavíkur, fjárveitingar farið hækkandi, byrjað með 30 þús. kr. og 100 þús. kr. eru á fjárl. í ár. Ég tel eðlilegt, að það verði haldið áfram að veita fé í þessu skyni og það væri eðlilegt, að þessar fjárveitingar færu hækkandi, því að þótt starfsfræðsla verði tekin upp í skólum, eins og hæstv. menntmrh. hefur nú lýst, tel ég eðlilegt, að sérstakir Starfsfræðsludagar verði haldnir víða um land þrátt fyrir það og gæti það áreiðanlega farið vel saman og hjálpað hvort öðru. Ég tel því eðlilegt, að það verði haldið áfram að veita fé á fjárl. í þessu skyni, auk þess sem starfsfræðsla í skólum mun hafa sína þýðingu.