21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í D-deild Alþingistíðinda. (3306)

170. mál, starfsfræðsla

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það er alkunna, að Ólafur Gunnarsson sálfræðingur er frumkvöðull starfsfræðslu hér á landi. Það er einnig kunnugt öllum, að Ólafur Gunnarsson hefur unnið að starfsfræðslu og haft forustu um hana frá fyrstu tíð til þessa dags. En um önnur atriði í sambandi við þetta mál er máske ekki jafnkunnugt, og það er, hvernig yfirvöldum í landinu hefur farnazt gagnvart þessum brautryðjanda.

Ólafur Gunnarsson er búinn að vinna í þjónustu Reykjavíkurborgar á annan áratug og mér er kunnugt um, að borgaryfirvöldin hafa ekki til þessa dags fengizt til þess að fastráða hann, þrátt fyrir hans viðurkennda framlag í þessum efnum. Síðustu 3 árin eða svo hefur þetta verið afsakað með því, að nú væri ríkisstjórnin um það bil að taka þennan ágæta mann í sína þjónustu, hann ætti eftirleiðis að vinna í þjónustu alls ríkisins að starfsfræðslumálum. En ár líður eftir ár og ekki er Ólafur Gunnarsson heldur ráðinn í þjónustu ríkisins og nú er svo komið, að sagt er, að þessi ágæti maður sé að hrökklast úr landi vegna skilningsskorts yfirvaldanna sennilega á þeim málum, sem hann hefur unnið að. Nú hins vegar hef ég ekki heyrt annað, hvorki frá yfirvöldum Reykjavíkur né ríkisvaldinu, en að starfsfræðsla sé viðurkennd og talið sjálfsagt að halda því starfi áfram. M.ö.o.: ég hef ekki orðið var við annað, en þetta verk meistarans sé lofað, en meistarinn sjálfur er lítilsvirtur. Hvernig stendur á þessu? Ég skal ekki svara því, en ég vil aðeins benda á, að hér getur ekki verið um annað að ræða, en lágkúruleg sjónarmið yfirvaldanna, persónuleg eða önnur lágkúruleg sjónarmið og ég stend upp og geri þetta að umtalsefni nú í því skyni að skora á hæstv. ríkisstj. og þá fyrst og fremst á hæstv. menntmrh. að hlutast til um það, að Ólafur Gunnarsson þurfi ekki að hrökklast úr landi af þessum ástæðum, og bjóða honum sæmileg eða góð kjör til þessara starfa í landinu.