21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í D-deild Alþingistíðinda. (3311)

170. mál, starfsfræðsla

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ummæli síðasta ræðumanns byggjast á miklum misskilningi og vanþekkingu á öllu efni málsins. Það er starfsfræðsla í skólum, sem heyrir undir menntmrn. Starfsfræðsla utan skóla heyrir ekki undir menntmrn. Það fellur því eingöngu í minn hlut að taka ákvarðanir um, með hvaða hætti starfsfræðsla í skólum fer fram og hverjir hana annast. Það er atvmrn., sem hefur fjallað um starfsfræðslu utan skóla, enda fjárveiting til starfsfræðslu á fjárl. á grein um atvinnumál, en ekki menntamál. Ég hef því engin afskipti haft af því, með hverjum hætti sú starfafræðsla hefur farið fram, enda ekki í mínum verkahring.

Hv. þm. spurði með nokkrum þjósti, hvort það væri venja að leita til þeirra aðila, sem ég nefndi, um það, hvort tilteknir menn ættu að annast tiltekin störf við skólana. Um þetta er það að segja, og það hélt ég að hefði komið fullskýrt fram í mínu svari upphaflega, að

menntmrn. hefur þegar fyrir alllöngu falið ákveðnum kennara, Stefáni Ölafi Jónssyni, að hafa eins konar yfirumsjón með starfsfræðslu í skólum og undirbúa þau námskeið fyrir kennaraefni, sem haldin hafa verið árlega og verða framvegis haldin árlega. Ég valdi til þess Stefán Ólaf Jónsson samkv. mjög eindreginni till. fræðslumálastjóra. Það kom till. um Stefán Ólaf Jónsson einan. Þetta mál hafði lengi verið í undirbúningi og t.d. kennarasamtökum og ýmsum öðrum aðilum var fullkunnugt um, hvað í undirbúningi var, að til stóð að fela sérstökum manni að hafa yfirumsjón með starfsfræðslunni í skólunum og till. kom til mín sem ráðh. um að fela þetta starf þessum ákveðna kennara, sem kynnt hafði sér starfsfræðslu erlendis í ársorlofi m.a. og ég fór að till. rétts embættismanns um þetta efni. Ef ég hefði verið talinn gera rangt með þessari stjórnarráðstöfun, hefði verið innan handar fyrir alla aðila, sem láta sig það mál skipta, að vel og skynsamlega sé á málum haldið, að gera við það athugasemd. Menntmrn. hefur engin athugasemd borizt, hvorki bréflega né heldur hefur verið að því fundið opinberlega, þó að þetta hafi verið kunnugt öllum skólamönnum hátt á annað ár, að ég skyldi hafa gert þessa ráðstöfun. Það hefur engri gagnrýni sætt, heldur þvert á móti hefur það notið stuðnings ýmissa aðila og hefur verið talið vel og skynsamlega ráðið.

Þetta vil ég einungis láta koma alveg skýrt og greinilega fram til þess að taka af öll tvímæli um, að því fer víðs fjarri, að ég hafi í einu eða neinu níðzt nokkuð á Ólafi Gunnarssyni sálfræðingi, eins og hv. síðasti ræðumaður virtist vilja láta liggja orð að.