21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í D-deild Alþingistíðinda. (3314)

174. mál, fiskiðnskóli

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 425 fsp. til hæstv. sjútvmrh. varðandi stofnun fiskiðnskóla. Fsp. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað líður framkvæmd þál. frá 30. apríl 1964 varðandi stofnun fiskiðnskóla?“

Þál. sú, sem þarna er vitnað til, er niðurstaða allshn. í sambandi við þáltill., sem Ingvar Gíslason, hv. 5. þm. Norðurl. e., bar fram á síðasta Alþ., og er niðurstaða n. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að skipa n. í samráði við fiskmat ríkisins, fiskmatsráð og helztu samtök fiskiðnaðar til þess að gera fyrir næsta reglulegt Alþ. till. um stofnun og starfstilhögun almenns fiskiðnskóla í landinu. Skal nefndin m.a. kynna sér eftir föngum skipan fræðslumáls fiskiðnaðarins í öðrum löndum.“

Ég vil í sambandi við þetta mál leyfa mér að benda á, að annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, landbúnaðurinn, hefur um langt árabil gegnum sina skóla haft aðstæður til þess að veita þeim aðilum, sem þá atvinnu ætla að leggja fyrir sig, aðstöðu til bæði bóklegrar og hagnýtrar fræðslu í sambandi við þeirra störf. Sama má segja um iðnaðinn í landinu. Iðnskóli hefur verið starfandi hér í Reykjavík um langt árabil og iðnskólar eru starfandi mjög víða um landið og veita þeir bæði bóklega og hagnýta fræðslu í sambandi við flestar, ef ekki allar iðngreinar nema fiskiðnaðinn. Þegar þess er gætt, að fiskiðnaður er stærsti iðnaðurinn í landinu, sem þjóðin byggir afkomu sína mjög mikið á, verður að teljast mjög eðlilegt, að einnig þeir aðilar, sem þar koma til með að starfa, fái ekki síður en þeir, sem við landbúnað vinna og þeir, sem við iðnað vinna, aðstöðu til þess að fá þekkingu og fræðslu í sambandi við störf þeirra.

Ég tel, að beri að hraða eins og hægt er undirbúningi að stofnun fiskiðnskóla hér á landi og byggi það á því, sem ég hef sagt, að ég tel þetta mjög mikið nauðsynjamál og vil láta það koma fram hér, að mér er um það kunnugt, að mjög verður sótt fast á um það, að þegar til fiskiðnskóla verður stofnað, verði hann staðsettur í Vestmannaeyjum. Ég ætla ekki að rökstyðja það eða ræða það nánar hér, það kemur vonandi til þess síðar, að til þess gefist tækifæri, en leyfi mér að vænta svars hæstv. sjútvmrh. í sambandi við fsp. mína um það, á hvaða stigi þetta mál sé.