21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í D-deild Alþingistíðinda. (3315)

174. mál, fiskiðnskóli

Sjútvmrh (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þáltill., sem þessi fsp., sem hér liggur fyrir, fjallar um, er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, — ég vildi mega lesa hana aftur, þótt hún hafi verið lesin hér áðan:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að skipa n. í samráði við fiskmat ríkisins, fiskmataráð og helztu samtök fiskiðnaðarins til þess að gera fyrir næsta reglulegt Alþ. till. um stofnun og starfstilhögun almenns fiskiðnskóla. Skal nefndin m.a. kynna sér eftir föngum skipan fræðslumála fiskiðnaðarins í öðrum löndum.“

Ég held, að það liggi nokkuð ljóst fyrir, að það hafi ekki verið miklar líkur til þess, að það væri hægt að skila áliti um þetta mál á þessu þingi. Till. er samþ. í þinglokin í fyrra, um mánaðamótin apríl og maí, sumarfrí fór þá í hönd. N. var ætlað að safna upplýsingum frá, nálægum og raunar fjarlægum löndum

einnig um þetta mál og átti þar að auki eftir að gera sínar till. Ég gat fyrir mitt leyti tæplega vænzt þess, að það væri unnt að búast við áliti frá n. á þessu þingi. En í n. voru skipaðir Bergsteinn Á. Bergsteinsson fiskmatsstjóri frá fiskmati ríkisins, Jón Árnason alþm. frá Samlagi skreiðarframleiðenda, Jón Skaftason alþm. frá síldarútvegsnefnd, Margeir Jónsson útgerðarmaður frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, dr. Sigurður Pétursson frá fiskmatsráði, Tryggvi Jónsson framkvstj. frá Félagi niðursuðuverksmiðja, dr. Þórður Þorbjarnarson frá Fiskifélagi Íslands og Hjalti Einarsson fiskiðnfræðingur frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og var hann jafnframt skipaður formaður n. Enn fremur var skipaður í n. síðar Leó Jónsson síldarmatsstjóri samkv. ósk frá viðkomandi aðilum.

N. hefur haldið nokkra fundi og þar sem verkefni hennar er tvíþætt, annars vegar gagnasöfnun um fræðslumál fiskiðnaðarins í öðrum löndum og hins vegar væntanlegt nál. um stofnun og starfstilhögun fiskiðnskóla á Íslandi, hefur hún hafið starf sitt með því að byrja á gagnasöfnuninni frá útlöndum. Hún hefur leitað aðstoðar utanrrn. til þess að afla þessara upplýsinga. Svör hafa þegar borizt frá sendiráðinu í Osló, frá sendiráðinu í Moskvu, frá sendiráðinu í Washington og frá sendiráðinu í Vestur-Þýzkalandi. Jafnframt hefur verið haft samband við þekkta skóla í fiskiðnfræðum og matvælafræðum, en gagnasöfnun þessari mun að sjálfsögðu verða haldið áfram út starfstíma n. Á fundum sínum hefur svo n. rætt um hugsanlegan fiskiðnskóla og frumdrög að áliti í því efni, einnig komið fram. Hins vegar telur n. ótímabært á þessu stigi að segja nokkuð fyrir um það, hverjar niðurstöður hennar muni verða. N. er kunnugt um sérstaka fiskiðnskóla í Noregi, Rússlandi, Japan, Bandaríkjunum og Kanada. En aðstæður hér á landi eru að ýmsu leyti frábrugðnar þeim, sem finnast í ofannefndum löndum, a.m.k. mörgum. Einna líkastur fiskiðnaði okkar mun fiskiðnaðurinn í Noregi vera og er talið trúlegt, að fyrirmyndin verði að einhverju leyti sótt þangað. Þar eru tveir skólar, annars vegar niðursuðuskólinn í Stafangri og hins vegar fiskiðnskólinn í Vardö í Norður-Noregi. En um þessa norsku skóla er það að segja, að ég hef séð það í nýlegum norskum blöðum, sem fjalla um fisk og fiskiðnað, að þeir eru ekki komnir á hreint með sína akóla og uppi eru raddir um, að endurskoða verði þar það skipulag, sem í gildi er og hefur verið sett n. í því efni til að rannsaka það sérstaklega.

Ég vil leggja áherzlu á, að ef þetta mál á að hafa þá þýðingu, sem ætlazt er til í upphafi, verður að gera þá frumkröfu í málinu, að n., sem um það fjallar, fái hæfilegan og nægilegan tíma til starfa, en álíti hennar verði ekki hespað af, án þess að allt málið verði gjörkannað ofan í kjölinn.

Ég vænti, að hv. þm. telji fsp. fullsvarað með þessu.