21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í D-deild Alþingistíðinda. (3316)

174. mál, fiskiðnskóli

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þegar tekið er tillit til þess, að þetta fiskiðnskólamál lá hér fyrir hv. Alþ. á fjórum þingum a.m.k., get ég sem tillögumaður fallizt á með hæstv. ráðh., að óþarfi sé að flaustra af undirbúningi málsins nú og styð það sem sé, að n., sem nú er tekin til starfa samkv. þáltill., starfi, þangað til hún hefur kannað þetta mál til botns.

Hér er ekki staður né stund, enda óþarfi, að ræða almennt um gildi fiskiðnskólans. Ég hygg, að við séum allir sammála um, að gildi hans sé mikið og það sé mesta nauðsyn, að þessi skóli komist á fót og ég hygg, að málið sé nú á þeirri leið, að ekki verði aftur snúið, og hann muni koma hér, áður en langir tímar líða og að sjálfsögðu er það ósk mín og hlýtur að verða ósk okkar allra, sem að þessum málum höfum staðið, til hæstv. ráðh., að hann ýti á n. í störfum hennar, því að vissulega er þörf á því, að hún ljúki störfum sem fyrst. En hitt vil ég taka undir með honum, að rétt er, að n. fái nægan tíma til þess að undirbúa málið og kanna það sem allra bezt.

Um staðsetningu skólans ætla ég ekki að ræða neitt að þessu sinni. Sú hugmynd, sem hv. fyrirspyrjandi hreyfði hér, að hann yrði staðsettur í Vestmannaeyjum, er allra góðra gjalda verð og fullkomlega umhugsunarverð, því að það á einmitt að verða okkar stefna nú að dreifa skólum sem mest um landið og það er áreiðanlega ekki óeðlileg staðsetning á fiskiðnskóla, að hann sé í Vestmannaeyjum. Þó kunna aðrir staðir þar til greina að koma og verður auðvitað að hafa það í huga, þegar það mál kemur til umr.