05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í D-deild Alþingistíðinda. (3327)

220. mál, félagsheimilasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Rétt áður en síðasta þingi lauk, var samþ. þáltill. með áskorun á ríkisstj. um að láta endurskoða gildandi löggjöf um félagsheimilasjóð, eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram í ræðu sinni áðan. Í menntmrn. var þegar hafizt handa um athugun á þessu máli, en fljótlega kom í ljós, að hér er um miklu stærra og miklu vandasamara mál að ræða en svo, að nokkur von gæti verið til þess, að unnt væri að ljúka tillögugerð um það, hvernig fram úr vandanum skyldi ráða, fyrir samkomudag þessa þings á s. l. hausti og hefur ríkisstj. raunar ekki enn gert sér fullnægjandi grein fyrir því, hvernig hún vildi leggja til, að fram úr vandkvæðum félagsheimilasjóða yrði ráðið. Skýringin á því er einfaldlega sú, að málið er miklu stærra og miklu torleystara, en ég geri ráð fyrir að alþm. yfirleitt sé kunnugt og þykir mér því einungis vænt um að fá tækifæri til þess að gera hinu háa Alþ. grein fyrir því, hver vandi er hér á ferðum.

Samkv. gildandi löggjöf um félagsheimilasjóð, sem er frá árinu 1948, er sjóðnum fenginn til umráða helmingur skemmtanaskatts og sjóðnum er heimilað að styrkja byggingu félagsheimila með þeim hætti að greiða allt að 40% byggingarkostnaðar félagsheimilanna. Ég vek sérstaka athygli á því, að ákvæði l. um það efni eru algerlega ótvíræð, að hér er um heimildarákvæði að ræða til þess að styrkja byggingu félagsheimila um allt að 40% byggingarkostnaðar, en engin skylda í l. til að styrkja byggingu félagsheimila og ekki heldur skylda í l. til að greiða 40% byggingarkostnaðar að fullu. Það er eftir mati félagsstjórnarinnar hverju sinni, hvort hún styrkir byggingu ákveðins félagsheimilis og þá hversu mikilli fjárhæð eða mikilli hlutfallstölu við byggingarkostnað styrkurinn nemur.

Á s.l. sumri var gerð allsherjarathugun á því, hver væri stofnkostnaður þeirra félagsheimila, sem í byggingu eru og jafnframt mjög víðtæk byggingafræðileg athugun á því, hversu mikið mundi kosta að ljúka byggingu þeirra félagsheimila, sem bygging er þegar hafin á. Þessi rannsókn var mjög tímafrek og mjög ýtarleg, en um hana liggja fyrir alveg fullgerðar skýrslur. Niðurstaða þessarar athugunar er sú, að tala þeirra félagsheimila, sem félagsheimilasjóður ýmist hefur styrkt eða kemur til greina og hefur heimild til að styrkja, er 71. Af þessum 71 félagsheimili eru 19 þegar fullgerð, en félagsheimilasjóður hefur hins vegar ekki greitt 40% stofnkostnaðarins. Hins vegar eru 52 félagsheimill enn í smíðum. Miðað við 20. sept. s.l. nam þegar greiddur stofnkostnaður þeirra félagsheimila, sem þá voru í smíðum, 127.208.154,08 kr., eða rúmum 127.2 millj, kr. Ef gert er ráð fyrir því, að félagsheimilasjóður styrki byggingu allra þessara félagsheimila með 40% byggingarkostnaðar, þyrfti ógreiddur styrkur félagsheimilasjóðs að nema 28.786.061,80 kr., eða 28.8 millj. kr. En styrkur sá, sem félagsheimilasjóður hefur þegar greitt þessum sömu félagsheimilum, nemur 21.866.902,21 kr., eða 21.7 millj. kr. Hér er því um geysimiklar fjárhæðir að ræða. Síðan sjóðurinn var stofnaður 1948, hefur hann greitt 21.7 millj. kr. til styrktar byggingu félagsheimila, en ef félagsheimilasjóður á að greiða 40% stofnkostnaðar við þessi félagsheimili, sem er hámark lagaheimildarinnar, þarf hann enn til viðbótar að greiða 28.8 millj. kr. Þó er sagan ekki nema hálfsögð með þessu, því að eins og ég gat um áðan, lét menntmrn. fara fram rækilega byggingafræðilega athugun á því, hvað það mundi kosta að ljúka byggingu þessara 52 félagsheimila, sem eru í smíðum. Áætlun byggingafræðinga um það efni var, að það mundi kosta 126.630.677,00 kr. að ljúka byggingu þessara 52 félagsheimila, eða 126.6 millj. kr. Hámarksstyrkur samkv. félagsheimilalöggjöfinni til þess að ljúka þessum 52 félagsheimilum yrði því 50.652.300.00 kr., eða 50.7 millj. kr. Hér er því um miklar fjárupphæðir að ræða og mikinn fjárhagsvanda, sem ég vona að öllum hv. þm. sé algerlega ljóst að er svo vandasamt um að fjalla, að ekki er við því að búast, að tekizt hafi enn að komast til botns í þessu vandamáli.

Ég gat þess áðan, að tekjustofn félagsheimilasjóðs væri helmingur skemmtanaskatts. Hluti félagsheimilasjóðs af skemmtanaskatti ársins 1963, sem er síðasta heila árið, sem reikningsskil eru til fyrir, nam 5.3 millj. kr. Þess er þó að geta, að á því ári kom til framkvæmda breyting á skemmtanaskattsl., sem eykur tekjur af skemmtanaskatti talsvert. Það var tekið að innheimta skemmtanaskatt af vínveitingahúsum, sem áður var ekki gert. Sú breyting kom ekki til framkvæmda fyrr en 1. maí 1963, en telja má, að eftir að sú breyting kom til framkvæmda, mætti gera ráð fyrir, að tekjur félagsheimilasjóðs af skemmtanaskatti séu einhvers staðar á milli 6 og 7 millj. kr. Þær tekjur, sem l. sjá félagsheimilasjóði fyrir, eru því einhvers staðar á milli 6 og 7 millj. kr. árlega. Ef ætti að greiða öllum félagsheimilum, sem í byggingu eru, 40% byggingarstyrk, nemur sú upphæð af því, sem þegar er lokið, eins og ég gat um áðan, 28.8 millj. kr., en ef ætti að ljúka þessum byggingarframkvæmdum öllum með 40% styrk úr félagsheimilasjóði, þyrfti 50.6 millj. kr. eða 9–10 ára ráðstöfun á þeim tekjustofni, sem Alþ. hefur séð félagsheimilasjóði fyrir með gildandi löggjöf um sjóðinn.

Ríkisstj. er ljóst, að hér er um mikið vandamál að ræða, sem þarf að finna einhverja gagngera og róttæka lausn á. Að því hefur verið unnið allar götur síðan þáltill. var samþ. í lok síðasta þings, þótt tillögugerð um þetta efni sé ekki tilbúin enn þá og að því mun verða haldið áfram að vinna, því að auðséð er, að hér þarf að gera gagngerar breytingar á, bæði löggjöfinni sjálfri og framkvæmdinni allri, ef komast á frá þeim vanda, sem hér er augljóslega á ferðinni.