05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í D-deild Alþingistíðinda. (3328)

220. mál, félagsheimilasjóður

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það urðu mér vonbrigði, að það kom fram í ræðu hæstv. menntmrh., að ríkisstj. hefði ekki enn gert sér grein fyrir, hvernig ætti að leysa þetta mál, en henni var þó í fyrra, fyrir um það bil ári, falið af Alþ. að hafa lokið endurskoðun l. fyrir upphaf þess þings, sem nú situr að störfum. Hæstv. ráðh. segir, að þetta sé stórt og vandasamt mál og að það sé mikill fjárhagavandi, sem hér sé við að stríða. Ég get ekki fallizt á, að þetta sé neitt stórmál eða torleysanlegt miðað við ástæður í okkar þjóðfélagi og þá miklu peningaumferð, sem hér er, bæði hjá því opinbera og öðrum. Ég fæ alls ekki á það fallizt.

Hæstv. ráðh. gaf upp, hve mikið væri ógreitt frá ríkinu eða frá félagsheimilasjóði til félagsheimilanna, taldi, að það væru 28.8 millj. til þess að ljúka greiðslu til þeirra heimila, sem nú væri lokið að smíða og eitthvað um 60 millj. væntanlega til þeirra, sem eru í byggingu. Það skiptir að vísu ekki miklu máli, en hann hefur þá ekki dregið frá upphæðinni tekjur sjóðsins fyrir árið sem leið, árið 1964, væntanlega 6–7 millj., eins og hann gat um.

En það var nú samt ljós punktur í ræðulokin hjá hæstv. ráðh., því að hann sagði, að það þyrfti að finna gagngera og róttæka Iausn á málinu og yrði að halda áfram að vinna að því og ég þakka honum fyrir þessa yfirlýsingu. Og ég vænti þess, að hann vinni röggsamlega að þessu. Þetta er ekkert vandamál, þannig að það sé neitt torleysanlegt.

Það verður ekki þess að vænta, að það verði neitt frv. lagt fyrir þetta þing til úrbóta í þessu efni, það er ljóst. En ég vil alvarlega skora á hæstv. ráðh. að láta vinna svo rösklega að þessu, að frv. um eflingu sjóðsins, eins og segir í ályktuninni, verði lagt fyrir næsta Alþ. þegar í upphafi þess.