05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í D-deild Alþingistíðinda. (3332)

221. mál, vinnuvélar

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. ríkisstj.:

„Hefur fyrirtækinu Íslenzkum aðalverktökum verið heimilað að nota utan Keflavíkurflugvallar og við framkvæmdir í þágu íslenzkra aðila, bifreiðar, vélar og verkfæri, sem flutt hafa verið inn tollfrjáls samkv. ákvæðum í herstöðvasamningnum frá 1951? Heimila lagaákvæði slíka notkun ótollaðra vinnuvéla utan herstöðvanna?“

Tilefni þessarar fsp. er það, að félagið Íslenzkir aðalverktakar, sem um alllangt skeið hefur unnið að ýmsum framkvæmdum í þágu bandaríska setuliðsins hér á landi, er nú á síðustu tímum farið að taka að sér ýmis verk utan herstöðvanna og fyrir íslenzka aðila. Félag þetta mun m.a. hafa tekið að sér byggingarframkvæmdir fyrir Reykjavíkurborg og það hefur unnið og vinnur að vegagerð í stórum stíl, vinnur nú m. a. að hinu mikla mannvirki, gerð Keflavíkurvegar eða Reykjanesbrautar. Nú mun það vera svo, að félag þetta á eða hefur undir höndum allmikinn fjölda bifreiða, allmikið af vinnuvélum ýmiss konar og öðrum verkfærum og mun það eiga við um þessi tæki flest eða kannske öll, eftir því sem mér er tjáð, að þau hafi verið flutt inn, án þess að af þeim hafi verið greiddir tollar eða önnur aðflutningsgjöld. Þetta tollfrelsi mun byggjast á ákvæði í herstöðvasamningnum frá 1951, þar sem slíkt er heimilað að því er varðar herliðið og Keflavíkurflugvöll. Hins vegar er mér ókunnugt um, að nein lagaákvæði heimili notkun slíkra ótollaðra bifreiða og vinnuvéla utan herstöðvanna. Það er og sýnt, að með þess konar heimild, ef til væri eða gefin yrði, væri gerður svo mikill aðstöðumunur þessa fyrirtækis og þeirra fyrirtækja, sem slíks nytu og allra annarra í landinu, að engum þýddi við þessa aðila að keppa.

Það hefur þegar komið í ljós að, til að mynda vörubifreiðastjórar líta þetta mál alvarlegum augum. Í fyrra urðu átök milli þessa félags, Íslenzkra aðalverktaka og bifreiðastjóra í Hafnarfirði í sambandi við vegagerð þar. Nú er mér kunnugt um, að vörubílstjórar í Vogum og á Vatnsleysuströnd, sem hafa með sér félagsskap, eru mjög óánægðir yfir því að hafa ekki fengið vinnu við Keflavíkurveginn eða Reykjanesbrautina og telja í rauninni brotinn á sér skýlausan rétt, að því er varðar forgang um akstur á félagasvæði sínu. Það er hætt við, að slíkir árekstrar geti orðið fleiri, ef ekki fást dregnar um það alveg hreinar línur, að allir sitji við sama borð um aðflutningsgjöld af vinnuvélum, sem notaðar eru í þágu íslenzkra aðila. Ég hef talið rétt að æskja upplýsinga um það, hvernig þetta mál er vaxið og því er fsp. flutt.