23.10.1964
Sameinað þing: 5. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

1. mál, fjárlög 1965

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Áður en rætt verður um frv. til fjárl. fyrir árið 1965, vil ég víkja að afkomu ríkissjóðs á árinu 1963 og afkomuhorfum hans í ár.

Í meginatriðum varð afkoma ríkissjóðs á árinu 1963 þessi: Í fjárl. voru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 2198 millj. kr. Þær urðu 2523 millj. og fóru þannig 325 millj. fram úr áætlun. Helztu liðirnir voru þessir: Aðflutningsgjöld í ríkissjóð af innfluttum vörum fóru 215 millj. fram úr áætlun. Á árinu 1963 gekk í gildi ný tollskrá, sem fól í sér nokkrar lækkanir á aðflutningsgjöldum margra vörutegunda, en hins vegar varð innflutningur það ár miklu meiri en menn höfðu gert ráð fyrir. Þegar fjárlög voru samin, var reiknað með því, að innflutningur yrði um 5% meiri en árið áður. Flugvélar og skip eru ekki talin með, enda engin aðflutningsgjöld af þeim greidd. En innflutningsverðmætið reyndist um 18% meira en árið áður eða 23% meira, ef flugvélar og skip eru talin með. Þessi mikli innflutningur vara olli hærri tolltekjum en fjárlög gerðu ráð fyrir. Af innflutningi bifreiða eru greidd sérstök gjöld, og urðu þau 123 millj. eða 58 millj. yfir áætlun. 3% söluskattur af vörum og þjónustu fór 16 1/2 millj. og tekjur af rekstri ríkisstofnana nær 36 millj. fram úr áætlun fjárl. Tekju- og eignarskattur fór rúmar 17 millj. fram úr áætlun.

Útgjöld ríkissjóðs voru áætluð í fjárl. 1963 2189 millj. Þau urðu 2310 millj. og fóru því 121 millj. fram úr fjárl. Aðalástæða þessarar umframgreiðslu er launahækkun opinberra starfsmanna frá 1. júlí 1963. Sú hækkun hefur kostað ríkissjóð á síðari helmingi ársins 90100 millj. kr. Nokkrir útgjaldaliðir urðu að öðru leyti umfram áætlun, svo sem landhelgisgæzla. Skipaútgerð ríkisins, kostnaður við toll- og skattheimtu, lögreglukostnaður vegna nýrra laga, er létta af sveitarfélögunum nokkru af þeim tilkostnaði. Sumir útgjaldaliðir urðu undir áætlun, einkum vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Þær urðu tæpur helmingur þess, sem áætlað var, 4.4 millj. eða 6 millj. rúmar undir áætlun.

Eins og áður er getið, fóru tekjur 325 millj. fram úr áætlun fjárlaga, en gjöldin 121 millj. umfram. En auk útgjalda samkv. fjárlagaliðum eru jafnan ýmsar útborganir hjá ríkissjóði, sem hafa áhrif á greiðslujöfnuðinn. Það eru hreyfingar á geymslufé, aukið rekstrarfé stofnana, veitt lán, fyrirframgreiðslur o. fl. Þegar öll þessi atriði eru gerð upp, verður greiðsluafgangur ríkissjóðs á árinu 1963 124 1/2 millj. kr. eftir þeirri aðferð, sem Seðlabanki Íslands og ýmsar alþjóðlegar stofnanir nota, en 139 millj. eftir þeim reglum, sem ríkisbókhaldið hefur haft. Í fjárlagaumr. á síðasta þingi skýrði ég frá því, að ríkisstj. teldi rétt að nota hluta af þessum greiðsluafgangi til þess að inna af hendi vangoldin framlög ríkisins vegna hluta þess í kostnaði við hafnargerðir og sjúkrahúsbyggingar. Hluti ríkisins er lögbundinn, en greiðslurnar hafa ekki verið gjaldkræfar til þessara framkvæmda fyrr en fé er veitt til þeirra í fjárl. Í samræmi við þetta er tekin upp í 22. gr. fjárlagafrv. fyrir 1965 heimild til þess að greiða af greiðsluafgangi ársins 1963 20 millj. kr. upp í framlög ríkisins til sjúkrahúsa og 20 millj. upp í framlög til hafnargerða. Í árslok 1963 skuldaði ríkissjóður engar lausaskuldir og er það þriðja árið í röð.

Í fjárl. fyrir árið 1964 voru tekjur áætlaðar 2696 millj. kr., gjöldin 2677 millj. og greiðsluafgangur þannig rúmar 19 millj. Um þær mundir, sem fjárl. voru afgreidd skömmu fyrir síðustu jól, var samið um kauphækkanir, sem námu yfirleitt 15%. Hin margvíslegu áhrif þessara kauphækkana var því ekki unnt að taka inn í fjárl. En ríkisstj. undirbjó og lagði fyrir Alþingi í janúarmánuði till. um ráðstafanir, greiðslur og fjáröflun, sem nauðsynlegar þóttu vegna þessara atburða. Þessi lög lögðu á 2 1/2% viðbótarsöluskatt, er skyldi gilda frá 1. febr. Var áætlað, að hann skilaði á árinu í ár 262 1/2 millj. kr., en því fé skyldi varið til uppbóta á fiskverð, stuðnings við frystihús, togara, fiskileit og fiskveiðasjóð, til niðurgreiðslu á vöruverði í innanlandssölu og til hækkunar á bótum almannatrygginga. Um leið og fjárlög voru afgreidd, voru samþ. ný vegalög. Samkv. þeim skyldi vegasjóður frá áramótum taka við innflutningsgjaldi af benzíni og við bifreiðaskatti, er runnið hafði til ríkissjóðs og var áætlað í fjárlögum á 104 millj. hr. Hins vegar skyldi vegasjóður taka að sér útgjöld að upphæð 92 millj. kr. á 13 gr. A í fjárl. Þegar fjárl. fyrir 1964, vegalög og janúarlögin um aðstoð við sjávarútveginn o. fl. eru skoðuð í samhengi, gera þau ráð fyrir tekjum til ríkissjóðs í ár að upphæð 2849 millj., útgjöldum 2842 millj. og þannig greiðsluafgangi um 7 millj. kr.

Um afkomu ríkissjóðs í ár verður ekkert fullyrt að svo komnu. En greinilegt er þó, að hún er miklum mun erfiðari en undanfarin ár. Veldur þar miklu um, að verulegar fjárhæðir hafa verið greiddar til þess að halda vísitölunni óbreyttri að sinni, eins og gert var ráð fyrir, þegar samið var milli ríkisstj. og Alþýðusambandsins í júní s.l. Þá hafa uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir reynzt miklu meiri á árinu en upphaflega var gert ráð fyrir. Stafar það fyrst og fremst af auknum útflutningi mjólkurafurða og af hækkuðu verðlagi á þeim vörum innanlands. Þótt tekjur fari í heild eitthvað fram úr áætlun, er hæpið, að sumir tekjuliðir nái fjárlagaáætlun, svo sem tekjur af ríkisstofnunum.

Frv. til fjárl. fyrir árið 1965 er hér til 1. umr. Tekjur þess eru áætlaðar 3219 millj. kr. Það er hækkun tekjuáætlunar um 523 millj. frá gildandi fjárl., en um 370 millj. frá þeirri tekjuáætlun ársins, sem ég nefndi áðan og leiðir af vegal. og l. um aðstoð við sjávarútveginn.

Hvernig er nú þessa fjár aflað, sem fjárl. gera ráð fyrir að taka til þarfa ríkisins? Langstærsti tekjuliðurinn eru tollar eða aðflutningsgjöld af innfluttum vörum, samtals 1566 millj. eða sem næst helmingi af öllum ríkistekjunum. Þótt tollstigar hafi verið lækkaðir á mörgum vörum í þrem áföngum á árunum 1961—1964, koma þó fleiri krónur í ríkissjóð en áður af tollum, bæði vegna vaxandi innflutnings ár frá ári og hins, að dregið hefur stórum úr ólöglegum innflutningi á móti því, sem áður var, áður en fyrstu tollalækkanirnar voru framkvæmdar. En í sambandi við tollamálin vil ég geta um tvennt. Annað er það, að endurskoðun tollskrár heldur stöðugt áfram, og er nú einkum unnið að endurskoðun vélatolla til lækkunar. Hitt er það, að undirbúið hefur verið frv. til nýrra laga um tolleftirlit, til þess að skapa fastari framkvæmd og öflugra aðhald í þeim efnum. Í þessari upphæð aðflutningsgjalda til ríkissjóðs eru meðtalin gjöld af innfluttum bifreiðum, 110 millj., en hins vegar ekki hluti jöfnunarsjóðs sveitarfélaga af aðflutningsgjöldum, 77 millj.

Annar hæsti tekjuliðurinn er söluskattur af vörum og þjónustu. Hann er áætlaður 603 1/2 millj. til ríkissjóðs, en auk þess um 74 millj. til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Miðað er við óbreyttan söluskatt, 5.5%, þ.e.a.s. að sú hækkun um 2 1/2%, sem ákveðin var ótímabundið með 5. gr. 1. nr. 1 frá 1964, haldist. Verulegur hluti þeirra útgjalda, sem henni var ætlað að standa undir, hefur verið tekinn í frv. Auk þess hafa svo margvísleg önnur óhjákvæmileg útgjöld hækkað, sem gera þessar tekjur nauðsynlegar.

Þriðji tekjustofninn er tekjur af áfengis- og tóbaksverzlun, 430 millj.

Fjórði tekjustofninn er tekju- og eignarskattur áætlaður 375 millj. kr. Að óbreyttum lögum um tekjuskatt og eignarskatt er áætlað, að þeir gætu reynzt 480—500 millj. kr. á árinu 1965. Það er unnið að endurskoðun l. með það fyrir augum að hækka persónufrádrátt og gera ýmsar aðrar lagfæringar til hagsbóta fyrir gjaldendur, sem leiða til lækkunar. Ráðstafanir hafa verið gerðar til að herða eftirlit með framtölum. Þjóðartekjur aukast hröðum skrefum, og með hliðsjón af þessum atriðum, sem ég nú nefndi, hefur eftir atvikum þótt rétt að áætla þennan tekjulið 375 millj. kr.

Þá er stimpilgjald 75 millj., gjald af innlendum tollvörum 55 millj., aukatekjur 48 millj. og ýmsir smærri tekjuliðir samtals um 66 millj. kr. En niður falla tveir tekjuliðir úr fjárl., innflutningsgjald af benzíni og bifreiðaskattur, en þeir hafa verið afhentir vegasjóði samkv. hinum nýju vegalögum.

Þegar litið er þannig yfir helztu tekjustofna ríkissjóðs, sést, að svokallaðir beinir skattar, tekju- og eignarskattur, eru aðeins rúmur 1/10 hluti teknanna í heild. Um tekjuskattinn ætla ég ekki að ræða frekar nú, en fyrir Alþingi verður lagt frv. til breytinga á tekjuskattsl., sem nú er í undirbúningi, og verður þá nánara rætt um skattamálin. En það er rétt í þessu sambandi að athuga álögur hins opinbera í heild. Ég á þá við álögur ríkisins og sveitarfélaga til samans, bæði beina og óbeina skatta. Það er mikilvægt að athuga einnig með samanburði við önnur lönd, hve stóran hluta af þjóðartekjum og þjóðarframleiðslu hið opinbera tekur til sinna þarfa.

Þegar athugaðar eru í heild tekjur hins opinbera, er það ekki krónutalan, sem skiptir aðalmáli, því að eðlilegt er, að tekjurnar í krónutölu aukist ár frá ári vegna fólksfjölgunar og sívaxandi þjóðartekna. Það, sem meginmáli skiptir, er, hvert hlutfallið er, hve há hundraðstala af heildarframleiðslu þjóðarinnar er tekin til hinna opinberu þarfa. Í þeim samanburði, sem hér fer á eftir og gerður er af Efnahagsstofnuninni, eru taldar beinar og óbeinar tekjur hins opinbera, ríkissjóðs og sveitarfélaga, en útflutningsuppbætur dregnar frá.

Tekjur eða álögur hins opinbera voru í hundraðstölu af þjóðarframleiðslu sem hér segir: 1958 28%, 1959 28.4%, 1960 31.3%, 1961 27.8%, 1962 26.9%, 1963 26.6% og áætlað 1964 25.8%. Á fyrsta ári efnahagsaðgerðanna 1960 hækkaði hundraðstalan þannig upp í 31.3, en hefur síðan farið lækkandi með hverju ári og er nú 25.8% móti 28% fyrir 6 árum. Nýjustu tölur tiltækar frá nokkrum öðrum löndum eru fyrir árið 1962. Þær eru þessar: Danmörk 28 1/2%, Bretland 33.1%, Noregur 35.9%, Vestur-Þýzkaland 37.4%, Svíþjóð 38.6%. Þessi samanburður leiðir tvennt í ljós. Heildarálögur hins opinbera á Íslandi miðað við þjóðarframleiðslu hafa farið lækkandi undanfarin 4 ár, þær eru lægri nú en áður en viðreisnin hófst, og þær eru lægri hér en í fyrrnefndum 5 löndum. Útgjöldin samkv. fjárlagafrv. eru áætluð 3209 millj. Það er hækkun frá gildandi fjárl. um 532 millj., en frá endanlegri útgjaldaáætlun með hliðsjón af vegal. og janúarl. nemur hækkunin 36 7 millj.

Til hverra hluta er nú öllu þessu fé varið? Langstærsti útgjaldaliðurinn er til félagsmála, þ.e. almannatrygginga, eftirlauna o.fl. 824 millj. eða þriðjungur allra ríkisútgjaldanna. Annar stærsti útgjaldaliðurinn er fræðslumálin, röskar 520 millj. Þá kemur ýmiss konar stuðningur við atvinnuvegina, um 440 millj., þar af 180 millj. vegna landbúnaðar, 140 millj. vegna sjávarútvegs, 90 millj. til rafvæðingar landsins. Þá eru niðurgreiðslur á vöruverði innanlands 336 millj. kr. Þær vörur, sem nú eru niðurgreiddar, eru kindakjöt, mjólk, smjör, smjörlíki, ýsa, þorskur, saltfiskur. Til uppbóta á útfluttar landbúnaðarvörur 188 millj. Til dómgæzlu og lögreglustjórnar 187 millj., þar af kostar landhelgisgæzlan 65 millj. Til heilbrigðismála um 175 millj. Samgöngumál o.fl. samkv. 13. gr., þ.e. vegamál, samgöngur á sjó, hafnargerðir, flugmál, veðurþjónusta, um 196 millj. auk benzínskatts og annarra tekjustofna vegasjóðs. Þessir eru stærstu útgjaldaliðir fjárlagafrv.

Nú skal greint nokkru nánar frá helztu hækkunum frá síðustu fjárl.

Kostnaður við dómgæzlu og lögreglustjórn hækkar um 30 millj. Það stafar einkum af kostnaði við landhelgisgæzlu, sem hækkar um 17 millj., og við löggæzlu, en samkv. l. frá síðasta ári tekur ríkissjóður að sér stærri hluta þess kostnaðar en áður og léttir þannig útgjöldum af sveitarfélögunum.

Framlög til heilbrigðismála hækka á 12. gr. um 37 millj. og á 20. gr. til byggingar sjúkrahúsa og til stækkunar hjúkrunarskólans um tæpar 34 millj. Rekstrarhalli ríkisspítalanna hækkar um 18 millj., einkum vegna aukins sjúkrarýmis, sem verið er að taka í notkun. En á næsta ári verða teknar í notkun þrjár nýjar sjúkradeildir í viðbótarbyggingu landsspítalans, og starfsemi eldri deilda eykst nokkuð af þeim sökum. Hinar nýju deildir eru barnadeild með 30 rúmum, sem væntanlega tekur til starfa um næstu áramót, lyflæknisdeild með 25 rúmum, sem á að taka til starfa 1. marz, og taugasjúkdómadeild með 25 rúmum 1. apríl. Vegna þessara breytinga á starfsemi landsspítalans þarf að fjölga starfsliði um 80 manns. Þá er gert ráð fyrir, að 1. júní taki til starfa ný deild við fávitahælið í Kópavogi, og verður starfsliði hælisins fjölgað um 6 manns. 4 millj. hækkun verður á liðnum rekstrarstyrkur til sjúkrahúsa vegna breytinga á sjúkrahúsal., sem gerðar voru á síðasta þingi. Framvegis ber að greiða styrkinn til héraðssjúkrahúsanna hálfsárslega eftir á í stað árlega áður, og gjaldfellur því eins og hálfs árs rekstrarstyrkur á næsta ári. Vegna breytinga á sjúkrahúsal. hækkar einnig byggingarstyrkur til sjúkrahúsa, sjúkraskýla og læknisbústaða héraðanna, þ.e.a.s. annarra en ríkissjúkrahúsa, um 12.8 millj. Til viðbyggingar landsspítalans eru veittar 16 millj. kr., sem er 7.7 millj. kr. hærra en framlag yfirstandandi árs í fjárl. Til áhaldakaupa í viðbyggingu landsspítalans er nýr líður að upphæð 4 1/2 millj. Þá er gerð till. um framlag til sérstakrar byggingar, sem verður eldhús fyrir sjúklinga og starfsfólk þeirra stofnana, sem nú eru starfræktar eða eru í byggingu á spítalalóðinni, auk annarra deilda, sem fyrirhugað er að reisa síðar. Þegar nýja eldhúsið verður fullgert, verður núverandi eldhús lagt niður, og húsið mun notað af röntgendeild landsspítalans. Þá er gerð till. um 4 millj. framlag til byggingar þvottahúss fyrir ríkisspítalana hér í borginni og fyrir borgarsjúkrahúsið. Það verður sameign ríkisins og Reykjavíkurborgar, og er í dag áætlað, að það muni kosta um 15 millj. kr. fullgert. Framlag til endurbóta á heilsuhælinu í Kristnesi hækkar um 600 þús. Til stækkunar hjúkrunarskólans er áætlað að verja á næsta ári 7 millj. kr. Erfiðleikar hafa verið á rekstri sjúkrahúsa og heilsuhæla landsmanna undanfarið vegna skorts á lærðum hjúkrunarkonum og viðbúið, að þeir erfiðleikar fari vaxandi, þegar ný sjúkrarými verða tekin í notkun á næstunni. En núverandi húsakynni hjúkrunarskólans sníða honum svo þröngan stakk, að synja hefur orðið mörgum umsækjendum um skólavist. Það er bráðnauðsynlegt að auka húsnæði hjúkrunarskólans hið fyrsta.

Kostnaður við kennslumál samkv. 14. gr. frv. hækkar um 53 millj. Kemur þar einkum til árleg kennarafjölgun, hækkaður rekstrarkostnaður vegna nemendafjölgunar, aukin framlög til skólabygginga, stofnun tækniskóla o. fl. Gjöld vegna starfsemi háskólans hækka um 2.3 millj. Gert er ráð fyrir stofnun prófessorsembættis í læknadeild, í lífeðlisfræði. Til tannlæknastofu hækkar úr 500 þús. í 750 þús., en síðan fjárlagafrv. var samið, hefur aðsókn reynzt svo mikil að tannlæknadeildinni, að nauðsynlegt verður að hækka þetta framlag enn meira í meðförum Alþingis. Fé til bókakaupa fyrir háskólann kom áður frá sáttmálasjóði, en hin síðustu ár hefur afkoma hans ekki leyft þau framlög. Eru því veittar nú í samræmi við óskir háskólarektors 400 þús. kr. í fjárl. til bókakaupa fyrir háskólann. Vegna skorts á kennslubókum við sumar háskóladeildir eru nú veittar 250 þús. til útgáfu kennslubóka.

Til norðurljósarannsókna er nýr liður að upphæð 200 þús. Íslenzkir vísindamenn hafa um skeið rannsakað norðurljós og skyld fyrirbæri, að nokkru í samvinnu við erlenda starfsbræður. Vísindasjóður hefur veitt 250 þús. kr. styrk á þessu ári til rannsóknanna og mun væntanlega einnig veita fjárhagslegan stuðning á næsta ári. Þar sem lega Íslands er sérstaklega heppileg með tilliti til þessara rannsókna og mikilsvert er, að Íslendingar taki þátt í þeim, er gerð till. um þetta framlag.

Styrkur til félagsstarfsemi stúdenta er hækkaður um 40 þús. og til byggingar hins væntanlega félagsheimilis stúdenta er hækkað úr millj. upp í 1 millj. kr.

Á s.l. vori var hafin bygging húss fyrir raunvísindastofnun háskólans, sem ráðgert er að taka í notkun á næsta ári. Eðlisfræðistofnun háskólans mun hafa þar aðsetur sitt, en auk þess er gert ráð fyrir, að þar verði til húsa efnafræðideild, stærðfræðideild, væntanlega einnig jarðeðlisfræðideild og rafeindareiknideild. Byggingarkostnaður sjálfs hússins er áætlaður nú 13.3 millj. kr. Er þá talinn kostnaður við að búa húsið húsgögnum, tækjum, o.fl., sem til rekstrar þarf. Til byggingarinnar hefur verið varið gjöf Bandaríkjastjórnar í tilefni af 50 ára afmæli háskólans, en sú gjöf nam með vöxtum um 6 millj. kr. á s.l. vori. Í fjárlagafrv. er lagt til, að veitt verði 4 millj. kr. framlag til byggingarinnar. Með tilkomu þessa húss og tækja, sem því þurfa að fylgja, batnar mjög hagur þeirra raunvísindadeilda, sem fyrir eru, auk hins, að aðstaða skapast fyrir nýjar deildir á sviði rannsókna og mennta, sem illt er án að vera.

Framlög ríkisins til byggingar barna- og gagnfræðaskóla hækka um 17 1/2 millj. kr. og nema nú samtals um 94 millj. Til skólahalds, þ.e. stofn- og rekstrarkostnaður skóla, er samkv. fjárl. 1965 veittur um 1/2 milljarður úr ríkissjóði, og framlög sveitarfélaga í sama skyni nema mjög stórum fjárhæðum. Það er afar mikilsvert, að þetta mikla fjármagn nýtist sem bezt, bæði að því er snertir stofn- og rekstrarkostnað skólanna. Hitt er samt enn þá mikilvægara, að menntun sú, sem skólarnir veita, svari þeim kröfum, sem breytilegar þjóðfélagsaðstæður gera til þeirra. Það er nauðsynlegt, að gaumgæfileg athugun fari fram á því, hvernig skólamálum okkar verði bezt komið í það horf, að menntun landsmanna verði í samræmi við þarfir þjóðfélagsins á hverjum tíma. Það á jafnt við um uppeldishlutverk skólanna í nútíma þjóðfélagi sem og hagnýtt gildi þeirrar menntunar, sem þeir veita fyrir atvinnuvegi landsmanna. Breyttar þjóðfélagsaðstæður kalla stöðugt á þróun og umbætur í skóla- og menntamálum. Á þeim sviðum getum við hagnýtt okkur margt af reynslu annarra þjóða og aðhæft það okkar staðháttum. Við þurfum að koma á fót skipulegum, vísindalegum rannsóknum í skóla- og menntamálum og því fyrr því betra.

Með lögum frá síðasta þingi um breytingu á tollskránni var ríkisstj. heimilað að ákveða að verja aðflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum og hlutum í þau til stofnkostnaðar sjónvarps. Þessa heimild ákvað ríkisstj. að nota frá 1. júlí 1964, og er fé því þegar farið að safnast til sjónvarpsins. Ríkisútvarpinu hefur verið falið að hefja undirbúning að því að koma á fót sjónvarpi, og er áætlun um tekjur þess og gjöld nú tekin í fyrsta sinn í fjárlagafrv., 3. gr.

Til skálda, rithöfunda og listamanna eru veittar 3 millj. og 100 þús. kr. Í fjárl. hefur um allmörg ár verið ákvæði um, að af þessu fé skuli Gunnar Gunnarsson og Halldór Kiljan Laxness njóta heiðurslauna, sem í ár eru 75 þús. kr. til hvors þeirra. Í þessu frv. leggur ríkisstj. til, að listamennirnir Jóhannes Kjarval, Páll Ísólfsson og Tómas Guðmundsson skuli einnig njóta 75 þús. kr. heiðurslauna hver.

16. gr. frv. fjallar um atvinnumál. Landbúnaðarmál hækka um 55 millj. kr. Valda þar langmestu um stórhækkuð jarðræktarframlög auk sérstakra framlaga til landbúnaðar, en um þau var samið, er verðlagsgrundvöllur landbúnaðarvara var ákveðinn á þessu hausti. Þá hækka og framlög til sauðfjárveikivarna verulega, einkum vegna fjárskipta í Dalasýslu. Í fjárlagafrv. er algerlega fylgt till. sauðfjársjúkdómanefndar eða meiri hl. hennar, þar sem ekki var full samstaða innan nefndarinnar.

Framlög til þess að græða landið eru hækkuð verulega, sandgræðslan um rúmlega 1 millj. og 200 þús. og skógrækt um 1 millj. og 800 þús., en sú hækkun er nauðsynleg, til þess að unnt sé að framkvæma þá áætlun að gróðursetja árlega 1 1/2 milljón plantna.

Fjárframlög til sjávarútvegsmála hækka stórlega, ef miðað er við fjárlög yfirstandandi árs, eða um 93 millj. króna. En þá verður að hafa í huga, að þeirri hækkun valda að langmestu þrír liðir, sem ákveðnir voru í l. nr. 1 frá 1964, um aðstoð við sjávarútveginn o. fl., framlag til fiskveiðasjóðs á móti útflutningsgjaldi af útfluttum sjávarafurðum 36 millj. kr., framlag til aflatryggingasjóðs vegna togara 40 millj. kr. og til fiskileitar fyrir togara

4 millj. Auk þessa hækkar framlag til aflatryggingasjóðs um 71/2 millj. kr.

Raforkumál hækka um 39.6 millj., vegna þess að lagt er til, að halli rafmagnsveitna ríkisins verði nú greiddur úr ríkissjóði af fjárl.

Útgjöld til félagsmála hækka um 76 millj. Ber þá að athuga, að 27 millj. kr. hækkun á greiðslum ríkissjóðs til almannatrygginga var ákveðin á þessu ári með janúarlögunum. Annars stafar hækkunin einkum af hækkun sjúkratrygginga og á ríkisframfærslu sjúkra manna svo og hækkun framlags til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Enn fremur er framlag til atvinnubótasjóðs, 10 millj. kr., nú flutt af 20. gr. á 17. gr., en þar þykir það eiga betur heima, eftir að sett voru lög um þann sjóð.

Gjöld skv. 19. gr. hækka um 145 millj. Munar þar mest um niðurgreiðslur vöruverðs og útflutningsuppbætur. Niðurgreiðslur vöruverðs innanlands eru áætlaðar 336 millj. Er þá miðað við niðurgreiðslur eins og þær voru áætlaðar í maí s.l. á ársgrundvelli, að viðbættri áætlaðri söluaukningu næsta ár. Á hinn bóginn er hér ekki gerð tillaga um, hversu fara skuli á næsta ári um þær niðurgreiðslur, sem síðan hafa bætzt við og nauðsynlegar hafa reynzt til þess að halda vísitölunni óbreyttri að sinni, eins og gert var ráð fyrir, þegar samið var í júní milli ríkisstj. og Alþýðusambands Íslands. Verður að telja eðlilegt, að Alþingi marki þá frambúðarstefnu, sem fylgt verður í því máli. Útflutningsuppbætur eru í frv. áætlaðar 188 millj., og er þá miðað við nýjustu áætlun, sem gerð hefur verið um þetta efni.

Þá eru þrjú atriði í 20. gr. frv., sem ég vildi nefna til viðbótar þeim fjárveitingum þeirrar greinar, sem ég hef nefnt í öðrum samböndum.

Fyrst eru það kaup á jörðinni Skaftafelli. Það er sameiginlegt álít vísindamanna í náttúrufræðum, innlendra og erlendra, svo og áhugamanna um náttúruvernd, að nauðsyn beri til að vernda jörðina Skaftafell í Öræfum, eins og náttúran hefur skilað henni í hendur nútímans. Kemur þar til einstök náttúrufegurð, furðulegt samspil uppbyggjandi og niðurrífandi náttúruafla, gróðurfar, sem ekki á sinn líka, m.a. vegna einangrunar í árþúsundir. Náttúruverndarráð hefur fyrir alllöngu samþykkt einróma, að stefnt skuli að því að gera jörðina að þjóðgarði. Ráðið leitaði fjárhagsstuðnings frá alþjóðlegri stofnun áhugamanna, sem hefur það verkefni að veita fé til kaupa á landssvæðum, sem áhugi er á að friða. Þessi stofnun hefur af mikilli rausn samþykkt að veita 750 þús. kr. framlag til kaupa á Skaftafelli í því skyni að gera jörðina að þjóðgarði. Í fjárlfrv. er nú lagt til að greiða úr ríkissjóði með jöfnum framlögum í nokkur ár það, sem á skortir til að greiða kaupverð jarðarinnar, og er fyrsta greiðsla, 60 þús. kr., tekin upp í frv. nú. Þess skal getið hér, að í 14. gr. frv. er gerð till. um verulega aukið framlag til friðunarstarfs náttúruverndarráðs, úr 65 í 200 þús. kr.

Ákveðið hefur verið að reisa á háskólalóðinni handritahús. Það er ætlað fyrir handritastofnunina, orðabók háskólans og ýmsa aðra starfsemi skólans í þágu íslenzkra fræða. Þetta hús verður byggt með sérstöku tilliti til varðveizlu hinna fornu handrita. Með tilkomu þess batnar öll aðstaða til rannsókna, útgáfustarfs og fræðslu um tungu, bókmenntir og sögu íslenzku þjóðarinnar. Undirbúningur þessarar byggingar er hafinn. Í fjárl. ársins í ár eru veittar 3 millj. til hennar, og í frv. því, sem hér er til umr., er lagt til, að framlagið verði hækkað í 4 millj. kr.

Á fulltrúafundi allra norrænu félaganna, sem haldinn var í Reykjavík árið 1960, kom fram sú hugmynd að reisa norrænt hús á Íslandi. Ríkisstjórnir Norðurlanda hafa síðan eftir tillögu norrænu félaganna, norrænu menningarmálanefndarinnar og Norðurlandaráðs ákveðið að reisa í Reykjavik norrænt hús og reka í því undir norrænni stjórn starfsemi til aukinna kynna Norðurlandaþjóða. Þar verður miðstöð norræns samstarfs á Íslandi með starfsaðstöðu fyrir háskólakennara í norrænum tungum og bókmenntum, safni norrænna bóka og hljómlistar og aðstöðu til bókmennta- og listkynningar og margvíslegrar annarrar upplýsinga- og kynningarstarfsemi. Húsinu hefur verið valinn staður á háskólalóðinni, suðaustur af Nýja garði. Hinn frægi finnski arkitekt, Alvar Aalto, hefur gert uppdrætti að því. Byggingarkostnaður er nú áætlaður 22—23 millj. kr., og hefur íslenzka ríkisstj. boðizt til þess, að áskildu samþykki Alþingis, að greiða 1/6 hluta hans. Þar sem fyrirhugað er að hefja framkvæmdir á næsta ári, er í frv. þessu gerð till. um 1.9 millj. kr. framlag til hússins, en það er helmingur af áætluðu framlagi Íslands.

Þegar núverandi ríkisstj. tók til starfa fyrir nærri fimm árum, setti hún sér það mark að leysa þjóðina úr viðjum haftabúskapar og uppbótakerfis í því skyni, að lagður yrði grundvöllur vaxandi velmegunar samfara jafnvægi í efnahagsmálum. Eitt v andamál yfirskyggði þá öll önnur. Það var hin síversnandi staða þjóðarbúsins út á við. Látlaus skuldasöfnun og gjaldeyrisskortur hafði lamandi áhrif á allt atvinnulif og stefndi jafnvel efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í voða.

Þegar nú er litið yfir farinn veg, fer það ekki á milli mála, að mikið hefur á unnizt. S.l. 3—4 ár hafa verið eitt mesta grósku- og athafnatímabil í sögu þjóðarinnar. Þjóðartekjur og velmegun hafa farið ört vaxandi, eðlilegur gjaldeyrisforði verið byggður upp að nýju og lánstraust þjóðarinnar erlendis endurheimt. Á hinn bóginn verður að horfast í augu við það af fullkominni hreinskilni, að ekki hefur tekizt á þessum árum að tryggja það jafnvægi í kaupgjalds- og verðlagsmálum, sem nauðsynlegt er til að tryggja áframhaldandi vöxt þjóðartekna og velmegunar. Ég mun nú gera nokkru nánari grein fyrir aðalatriðum þróunarinnar undanfarin ár.

Aukning þjóðarteknanna hafði verið lítil á árunum frá 1955 til 1960, að árinu 1958 undanteknu. Er enginn efi á því, að þessi óhagstæða þróun stafaði að verulegu leyti af vaxandi misræmi í verðlagskerfinu, höftum og óheilbrigðu uppbótakerfi. Núverandi ríkisstj. hefur leitazt við að gefa atvinnuvegunum heilbrigðari starfsskilyrði. Með því að skrá rétt gengi íslenzku krónunnar var stefnt að því að tryggja sjávarútveginum eðlilegan starfsgrundvöll, jafnframt því sem öllum greinum hans var gert jafnhátt undir höfði. Með því að afnema gjaldeyrishöft og gera innflutning framleiðslutækja og neyzluvarnings frjálsan var atvinnuvegunum í fyrsta skipti um langan aldur gefið það athafnafrelsi um kaup véla og tækja, sem er forsenda fyrir auknum afköstum. Á sama hátt gerði afnám fjárfestingareftirlits og leyfisveitinga fyrirtækjum kleift í fyrsta sinn í meir en áratug að skipuleggja framkvæmdir sínar og fjárfestingu eftir eigin mati og án afskipta pólitískra úthlutunarnefnda. Loks hafa verið gerðar víðtækar endurbætur á skattalögum og tollum í því skyni að veita atvinnufyrirtækjunum betri starfsskilyrði og auka áhuga þeirra og möguleika til framleiðsluaukningar.

Með öllum þessum ráðstöfunum hefur tekizt að leysa úr læðingi mikið afl með þjóðinni til framtaks og aukinnar framleiðslu. Þannig var lagður grundvöllur mestu alhliða efnahagsframfara, sem átt hafa sér stað hér á landi á jafnskömmum tíma. Hér hafa hagstæðar ytri aðstæður, góður afli og síðustu tvö til þrjú ár hagstæðir markaðir átt mikinn þátt. Hinu mega menn þó ekki gleyma, að hagstæð ytri skilyrði verða því aðeins til búbótar, að menn geti gripið tækifærin, þegar þau gefast, en þá er athafnafrelsið öllu öðru dýrmætara.

Þetta hefur líka komið fram undanfarin 2—3 ár, þegar á það er litið, hve tækniframfarir hjá íslenzkum atvinnuvegum hafa verið örar og fjárfesting mikil til framleiðsluaukningar. Hér hefur mjög skipt um frá því, sem var seinni helming síðasta áratugs. Í staðinn fyrir tiltölulega lítinn hagvöxt árin 1955—1960 hafa þjóðartekjurnar aukizt mjög ört undanfarin þrjú ár. Á árinu 1962 jukust þjóðartekjurnar þannig um 8%, árið 1963 um 7%, og líklegt er, að aukningin verði svipuð á þessu ári. Hér er því um að ræða nærri því fjórðungsaukningu þjóðarteknanna á þriggja ára tímabili, miðað við sama verðlag. Árið 1962 fór verulegur hluti hinna auknu þjóðartekna til þess að styrkja stöðu þjóðarbúsins út á við, en drjúgur og sívaxandi hluti hefur farið til þess að auka fjárfestingu og framkvæmdir og búa þannig í haginn fyrir framtíðina.

Eins og ég gat um áðan, hefur á þessum árum orðið gerbreyting á stöðu þjóðarbúsins út á við. Íslendingar hafa eignazt í fyrsta sinn síðan í stríðslok viðunandi gjaldeyrisforða. Það er rétt að fara um það nokkrum orðum, þar sem því hefur einatt verið haldið fram, að staðan út á við hafi raunverulega ekkert batnað siðan í árslok 1958. Því til sönnunar er bent á, að nettóskuld þjóðarinnar út á við, ef saman eru teknar skuldir til langs tíma, vörukaupalán og gjaldeyriseign, — að nettó-

skuld þjóðarinnar út á við hafi verið 300 millj. kr. hærri í árslok 1963 en í árslok 1958. Þótt slíkur samanburður sé tölulega réttur, gefur hann ranga mynd af stöðunni. Áhrif efnahagsaðgerða ríkisstj. fóru ekki að koma fram fyrr en á árinu 1960, en á árinu 1959 versnaði staðan út á við um 640 millj. kr., og var það bein afleiðing þeirrar hafta- og uppbótastefnu, sem rekin hafði verið árin á undan. Síðan í árslok 1959, þegar núv. ríkisstj. tók við, og til ársloka 1963 batnaði heildarstaðan út á við um 340 millj. Á árunum 1956—1958 versnaði hins vegar heildarstaða þjóðarbúsins út á við um 1240 millj., mest vegna aukinnar skuldasöfnunar. Þessi sífellda skuldasöfnun og vaxandi greiðslubyrði, sem henni var samfara, var eitt meginvandamálið, sem núverandi ríkisstj. átti við að glíma í öndverðu. Góð mynd af þessu fæst með því að bera saman heildarskuldastöðu þjóðarinnar út á við á hverjum tíma, bera hana saman við heildartekjur hennar í erlendum gjaldeyri, bæði af útflutningi og duldum greiðslum.

Árið 1955, áður en vinstri stjórnin tók við völdum, nam nettóskuld þjóðarbúsins út á við 22.5% af gjaldeyristekjunum. Árið 1958 var þessi tala komin upp í 50%, 1959 upp í 65% og hæst komst hlutfallið 1960 nærri 70%, enda voru þá tekin mikil lán vegna skipakaupa erlendis. En síðan hefur þetta hlutfall farið stöðugt lækkandi. Það var komið niður í 38% á árinu 1963 og mun vafalaust enn lækka á þessu ári. Miðað við greiðslugetu þjóðarinnar og tekjur í erlendum gjaldeyri, eru skuldir hennar út á við nú því mun lægri en nokkru sinni á síðustu sjö árum og fara enn lækkandi. Í stað sífelldrar skuldasöfnunar og vaxandi gjaldeyrisörðugleika hefur komið lækkandi skuldabyrði og vaxandi traust út á við.

Þessar tölur, sem ég nú hef nefnt, ættu að nægja til að staðfesta það, sem reyndar öll þjóðin veit af eigin reynslu, að tekizt hefur að ná þeim tveim meginmarkmiðum að tryggja stöðu þjóðarbúsins út á við og auka vöxt þjóðarteknanna.

Þriðja markmiðinu, að tryggja sæmilega stöðugt verðlag í landinu, hefur hins vegar því miður ekki tekizt að ná. Undanfarin þrjú ár og þá einkum 1963 áttu sér stað miklar hækkanir kaupgjalds og verðlags í landinu. Þessar hækkanir áttu sér fleiri en eina orsök. Tvær eru þó mikilvægastar: annars vegar of mikil eftirspurn eftir vörum og vinnuafli vegna stóraukinna tekna í útflutningsatvinnuvegum og mikillar fjárfestingar, hins vegar miklar og óraunhæfar kaupkröfur í skjóli ofþenslu á vinnumarkaðinum. Ríkisstj. hafa lengi verið ljósar þær hættur, sem vaxandi þensla í efnahagskerfinu skapaði. Hún hefur því viljað vinna á móti þenslunni með aðhaldi í peningamálum, þ.e. útlánum lánsstofnana, og með greiðsluafgangi hjá ríkissjóði. Þótt verulegur árangur næðist í þessum efnum og mikill greiðsluafgangur yrði hjá ríkissjóði á árunum 1962 og 1963, nægði þetta engan veginn til að koma í veg fyrir óeðlilega mikla þenslu. Verði ríkisstj. sökuð fyrir eitthvað í þessum efnum, er það því of lítið aðhald, en ekki samdráttur.

Því miður hefur mikið vantað á almennan skilning á því, hve nauðsynlegt er að gæta hófs í peninga- og fjármálum, ef koma á í veg fyrir verðbólgu. Það kemur bezt fram í því, að ráðizt skuli hafa verið látlaust á ríkisstj. fyrir samdráttarstefnu, á meðan hver vinnufær maður hefur fullt verkefni og margir meira en þeir geta annað.

Önnur meginorsök verðbólgunnar hefur legið í kröfum um kauphækkanir án tillits til raunverulegra hagsmuna launþega og þjóðarbúsins. Á árinu 1963 hækkaði kaupgjald í landinu um 30% eða meira hjá svo að segja öllum launþegum. Þessi mikla kauphækkun hafði ekki eingöngu í för með sér verðhækkanaskriðu, heldur kippti hún um stund fótum undan því trausti til framtíðarinnar, sem menn höfðu öðlazt á árunum 1960—1962, og ýtti þannig undir óeðlilega mikla fjárfestingu og spákaupmennsku.

Þegar svo var komið, lá við borð, að óstöðvandi skriðu yrði velt af stað og á skömmum tíma að engu gerður sá mikli árangur, sem náðst hefur í efnahagsmálum þjóðarinnar undanfarin ár. Svo fór sem betur fer ekki. Með auknu aðhaldi í peningamálum tókst að koma í veg fyrir frekari aukningu eftirspurnar. Jafnframt tókst í júní s.l. að gera heildarsamninga milli launþega, atvinnurekenda og ríkisstj., sem hafa tryggt launþegum raunhæfar kjarabætur og jafnframt tryggt vinnufrið og stöðugt grunnkaup í eitt ár. Samningar þessir eru vissulega mikilvægur áfangi í þá átt að koma á heilbrigðri stefnu hér á landi í kaupgjalds- og verðlagsmálum.

En jafnframt því sem þessum árangri í kaupgjaldsmálum er fagnað, er óhjákvæmilegt að benda á, að hinar miklu kaup- og verðhækkanir undanfarið hálft annað ár hafa skapað ríkissjóði vandamál, sem erfitt er að leysa. Kauphækkanirnar á árinu 1963 og sú mikla leiðrétting, sem opinberir starfsmenn þá fengu á launakjörum sínum, hafa valdið mjög mikilli útgjaldaaukningu hjá ríkissjóði. Hin mikla hækkun á verðlagi landbúnaðarafurða bæði á árinu 1963 og þessu ári hefur einnig valdið ríkissjóði auknum útgjöldum og þá fyrst og fremst í hækkandi útflutningsbótum. Í launasamkomulaginu í júní s.l. var farið inn á þá braut að nýju að verðtryggja laun. Sú ráðstöfun hefur kallað á auknar niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Jafnframt þessari aukningu hafa tekjur ríkissjóðs, einkum af innflutningi, aukizt mun minna á þessu ári en undanfarið. En á það vil ég leggja þunga áherzlu, að fjárlög fyrir 1965 verður að afgreiða hallalaus, enda háskalegt fyrir þjóðina, ef ríkissjóður væri rekinn með halla, eins og nú horfir í efnahagsmálunum.

Herra forseti. Ég vil leggja til, að þessari umr. verði frestað og frv. vísað til hv. fjvn.