23.10.1964
Sameinað þing: 5. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

1. mál, fjárlög 1965

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar fjárlög eru til umr., verður mönnum oftast fyrst fyrir að geta um heildarhækkun tekna og gjalda ríkissjóðs samanborið við árið á undan, því að undanfarna áratugi hefur ekki ver:ð um annað að ræða en að fjárlög hækkuðu frá ári til árs. Þessi þróun á sér fleiri en eina skýringu, og má í því sambandi nefna fjölgun þjóðarinnar, sem að skiljanlegum hætti hefur í för með sér aukna starfsemi á vegum ríkisins. Þannig útheimtir fjölgunin t.d. fleiri og stærri sjúkrahús, viðameira fræðslukerfi, auknar almannatryggingar, aukna löggæzlu og margvíslegar opinberar framkvæmdir. Í annan stað má nefna, að stundum eru nýir liðir teknir inn á fjárlög, sem hafa ekki verið þar áður, og stuðla þeir þá einnig að hækkun niðurstöðutalna. Þannig var ríkissjóði með l. nr. 1 frá 31. jan. s.l., um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o. fl., gert að greiða til framleiðniaukningar og annarra endurbóta í freðfisksframleiðslu 43 millj. kr., til aflatryggingasjóðs vegna togara 51 millj. kr., til fiskileitar í þágu togara 4 millj. kr., til uppbótar á ferskfiskverð 52 1/2 millj. og til fiskveiðasjóðs á móti útflutningsgjaldi af sjávarafurðum 30 millj. kr. Tekna til að mæta þessum auknu útgjöldum var svo aflað með því að hækka söluskatt úr 3% í 5 1/2%, og var þeirri hækkun tekna einnig ætlað að standa undir hækkun á greiðslum ríkissjóðs til almannatrygginga, að upphæð 27 millj. kr., og auknum niðurgreiðslum á vöruverði, sem talið var að mundu nema um 55 millj. kr. Flestir þessir útgjaldaliðir, svo og hækkun söluskattsins teknamegin, sem þannig voru ákveðnir með sérstökum l., eftir að fjárlög ársins 1964 höfðu verið afgreidd, eru nú, með nokkrum breytingum þó, að undanskildu framlagi til framleiðniaukningar í freðfisksiðnaði og uppbótum á ferskfiskverð, teknir upp í fjárlagafrv. ársins 1965, og verður að hafa þetta í huga, þegar samanburður er gerður á niðurstöðutölum frv. og fjárl. þessa árs, eins og hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir í framsöguræðu sinni. Að þessu sinni hækka einnig t.d. dómgæzla og lögreglustjórn, m.a. vegna þess, að Alþingi hefur áður ákveðið að auka þátttöku ríkissjóðs í greiðslu kostnaðar við löggæzlu, þannig að á árinu 1965 greiðast 50% af kostnaðinum í stað lægri prósentu áður. Þá hækka heilbrigðismálin, m.a. vegna aukins styrks úr ríkissjóði til annarra sjúkrahúsa en þeirra, sem ríkið rekur. Landbúnaðarmál hækka í heild um 55 millj. kr., og er verulegur hluti þeirrar hækkunar vegna samkomulags um aukinn stuðning við landbúnaðinn, sem gert var nú nýlega, þegar verðlagsgrundvöllur landbúnaðarvara var ákveðinn. Loks hækka t.d. raforkumál um 39.6 millj. kr., svo til eingöngu vegna þess, að frv, gerir ráð fyrir, að rekstrarhalli rafmagnsveitna ríkisins verði nú greiddur úr ríkissjóði, en á fjárl. undanfarinna ára hefur verið gert ráð fyrir, að sá halli væri jafnaður með lántöku.

Þetta, sem ég nú hef nefnt, eru nokkur dæmi um það, hvernig fjárlög hækka milli ára, þegar ný útgjöld koma til sögunnar, og þriðja meginorsökin til síhækkandi fjárlaga, sem ég vil nefna, er hækkað kaupgjald og vaxandi dýrtið, sem eykur útgjöld ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja engu síður en útgjöld einstaklinga og einkafyrirtækja. Ríkið og stofnanir þess, sem þetta frv. nær til, munu hafa um 5000 manns í þjónustu sinni, sem taka hjá því föst laun, og nema þær greiðslur samkv. launaskránni með frv. um 630 millj. kr. Við þessar kaupgreiðslur bætast svo stórar upphæðir, sem greiddar eru fyrir aukavinnu og margvíslega aðkeypta þjónustu, t.d. greiðslur til iðnaðarmanna, er vinna fyrir ríkið. Það er þannig verulegur hluti af þeim fjármunum, sem renna í ríkissjóð og til stofnana ríkisins, sem greiddur er þaðan út aftur sem laun. Fyrir þær þúsundir manna, sem hjá ríkinu vinna eða hafa við það viðskipti, er áríðandi, að hagur ríkissjóðs og ríkisstofnana sé slíkur, að hægt sé að bjóða starfsfólkinu mannsæmandi laun og góðan aðbúnað og atvinnuöryggi. Þessu markmiði verður bezt náð með því, að ríkisbúskapurinn sé í jafnvægi og fjárlög afgreidd greiðsluhallalaus, og er þetta raunar hagsmunamál þjóðarinnar allrar.

Þau ár, sem stuðningsflokkar núv. ríkisstj. hafa staðið að afgreiðslu fjárl., hefur tekizt að halda vel í horfinu að þessu leyti, og hin góða afkoma ríkisins hefur leyft meiri kjarabætur til handa opinberra starfsmanna en þeir hafa áður fengið á svo skömmum tíma. Einnig hefur verið unnt að stórauka framlög ríkisins til almannatrygginga og menntamála og til margvíslegra opinberra framkvæmda, jafnframt því að hlaupið hefur verið undir bagga með atvinnuvegunum, þegar þess hefur þurft með. Allar hrakspár um .,móðuharðindi af manna völdum“ hafa orðið spámönnunum til skammar, þótt Eysteinn Jónsson telji sig alls staðar sjá eymd og vesaldóm, eins og berlega kom fram í ræðu hans áðan.

Ég er þeirrar skoðunar, að blómlegt atvinnulíf í landinu, hinar miklu framkvæmdir og almenna velmegun geri það að verkum, að enn þá beri að fylgja sömu stefnu við afgreiðslu fjárlaga og gert hefur verið að undanförnu, þ.e.a.s. að afgreiða þau greiðsluhallalaus og helzt með sem riflegustum greiðsluafgangi. Það kæmi því aðeins til greina að afgreiða fjárlög með greiðsluhalla, að atvinnuleysi hefði skapazt í landinu og framkvæmdir dregizt saman. En því fer svo fjarri, að svo sé um þessar mundir, að eitt helzta umræðuefni manna er það, hvernig unnt verði að stytta þann langa vinnutíma, sem nú er tíðkaður.

Það kannast allir við það, hvernig verðbólgan leikur alls konar áætlanir, og undanfarin ár hafa tekjur og gjöld ríkissjóðs í fjárl. yfirleitt reynzt hærri en áætlað var og tekjuafgangur verið meiri. Þetta varð til þess, að unnt var að leggja 100 millj. kr. af greiðsluafgangi ársins 1962 í jöfnunarsjóð ríkisins, sem stofnaður var með 1. nr. 41 1932 og er ætlaður til þess að taka við framlögum í góðæri, er unnt verði að grípa til síðar, ef örðugleikar steðja að. Er þetta fyrsta framlag til þessa sjóðs frá stofnun hans, og talar það sínu máli um afkomu ríkisbúsins og raunar þjóðarbúsins í heild á liðnum viðreisnarárum. Einnig er nú lagt til í heimildagrein þessa frv., að af greiðsluafgangi 1963 verði 20 millj. kr. greiddar upp í vangoldin framlög ríkissjóðs til sjúkrahúsa í smíðum, svo og aðrar 20 millj. kr. upp í vangoldin framlög til hafnargerða. Af þessu má þó alls ekki draga þá ályktun, að óhætt sé að hafa áætlun fjárl. óvarlegri en áður, þ.e.a.s. að hækka útgjöldin stórlega án þess að gera ráð fyrir hækkuðum tekjum á móti. Það gæti ég trúað, að væri ráð hv. stjórnarandstæðinga eins og oft áður. En með slíkum till. er það háttur þeirra að reyna að leiða stjórnarflokkana í þá gildru að tefla á tæpasta vað um afkomu ríkissjóðs. Þeir munu að vísu benda á, að sagan geti endurtekið sig hvað það snertir, að greiðsluafgangur fari fram úr áætlun. En hvort tveggja er, að meiri útgjöld eru nú ráðgerð en nokkru sinni fyrr í þessu frv., og svo hitt, að tekizt hefur að koma á vinnufriði og draga úr hinum öra vexti dýrtíðarinnar, þannig að af þeim sökum eru nú minni líkur til en áður, að fjárl. fari til muna fram úr áætlun. Við þetta bætist, að ríkisstj. ráðgerir till. um lækkun beinna skatta, sem e.t.v. munu ganga svo langt, að taka verði til athugunar einhverja lækkun útgjaldaliða til að vega á móti skattalækkuninni. Talið er í aths. með frv., að áætla megi, að tekjur ríkissjóðs af tekju- og eignarskatti gætu reynzt 480—500 millj. kr. á árinu 1965 að óbreyttum skattal., en í frv. sjálfu er þessi tekjuliður áætlaður 375 millj. kr., og er því ráðgerð skattalækkun samkv. því 105—125 millj. kr.

Að undanförnu hefur margt verið rætt og ritað um skattamálin, bæði að því er snertir tekjuskatt og útsvar, og halda stjórnarandstæðingar því óspart fram, að þessir skattar hafi hækkað stórlega. Sú fullyrðing er rétt að því leyti, að nú greiðir, sem betur fer, allur sá fjöldi manna, sem hækkað hefur í kaupi, einnig hærri skatta en hann áður gerði, meðan kaupið var lágt. Sé hins vegar miðað við óbreyttar tekjur milli ára, er það ómótmælanlegt, að beinu skattarnir hafa lækkað. Hvað tekjuskattinn varðar, náði lækkunin, sem gerð var með lagabreytingu á s.l. vori, til allra nema einstaklinga með 140 þús. kr. nettótekjur eða hærri. Hjá þeim var skatturinn óbreyttur. Lækkunin var gerð með því að hækka fjölskyldufrádrátt þannig: fyrir einstakling úr 50 þús. kr. í 65 þús. kr., fyrir hjón úr 70 þús. kr. í 91 þús. kr., fyrir hvert barn innan 16 ára aldurs úr 10 þús. kr. í 13 þús. kr. Til dæmis um þá lækkun, sem af þessu leiddi, vil ég nefna, að hjón með 1 barn og 140 þús. kr. nettótekjur greiða nú engan tekjuskatt, en hefðu áður þurft að greiða 1900 kr. Eftir eldri reglunum þurftu hjón með 1 barn og 80 þús. kr. nettótekjur að greiða 500 kr. í skatt. Í ár ber hjónum með 1 barn og 160 þús. kr. nettótekjur að greiða 8800 kr. í tekjuskatt, en s.l. ár hefðu þau orðið að greiða 12000 kr. af sömu tekjum.

Hvað útsvörin snertir, er samanburður milli ára nokkru erfiðari. Veldur þar mestu um, að enda þótt stuðzt sé við einn útsvarsstiga við álagningu útsvaranna, hafa sveitarfélögin heimild til að bæta ofan á hann prósentvís eða veita afslátt frá honum eftir því, hver tekjuþörf þeirra er. Álag eða afsláttur getur þannig verið mjög mismunandi hjá einstökum sveitarfélögum, en algengast hefur þó verið, að þau veittu afslátt, en mismunandi mikinn. Á s.l. vetri var l. um tekjustofna sveitarfélaga breytt á þann veg, að útsvarsskalinn veitti minni möguleika til afslattar en áður, vegna þess að afslátturinn raskar í raun og veru því hlutfalli milli gjaldenda, sem reiknað er með, þegar persónufrádráttur er ákveðinn. Samtímis var horfið frá því að veita persónufrádrátt í álögðu útsvari, en í þess stað ákveðinn persónufrádráttur frá nettótekjum, eins og gert er við álagningu tekjuskatts. Nemur sá frádráttur samkv. lagabreytingunni frá í vor 25 þús. kr. fyrir einstakling, 35 þús. kr. fyrir hjón og 5 þús. kr. fyrir hvert barn á framfæri innan 16 ára aldurs. Með þessu var stigið spor í þá átt að sameina beinu skattana og innheimta þá í einu lagi jafnóðum af kaupi, en það er breyting, sem margir telja æskilega. Margt þarf þó fleira til að koma, áður en sú breyting getur komið til framkvæmda. Þrátt fyrir það að lagabreytingin frá s.l. vori veitti sveitarfélögunum, eins og ég sagði áðan, minni möguleika en áður til að gefa afslátt frá útsvarsstiganum, þá hafa flest þeirra veitt afslátt á þessu ári, en sárafá þurft að grípa til heimildarinnar til að bæta prósentulagi ofan á útsvörin. Kaupstaðirnir munu yfirleitt hafa veitt frá 5—20% afslátt og einn þeirra 30% afslátt. Í sveitunum hefur afslátturinn numið frá 30—40% og sums staðar frá 50—60%. Nokkrir staðir á Norðurlandi notuðu hins vegar lágt prósentuálag, en þó ekki hærra en við hafði verið búizt.

Eins og ég sagði áðan, er samanburður á útsvörum í fyrra og í ár erfiðari en samanburður á tekjuskatti af þeim ástæðum, sem ég nú hef tilgreint. Þó má fullyrða um útsvörin, engu síður en um tekjuskattinn, að miðað við sömu tekjur bæði árin er um lækkun á útsvörunum að ræða á lágtekjum og miðlungstekjum, og skal ég ekki fara frekar út í þann samanburð. En það vil ég segja í þessu sambandi, að menn verða að gera sér ljóst, að eigi útsvörin að lækka á einhverjum hópi gjaldenda, hlýtur jafnframt að þurfa að hækka þau á öðrum. Sveitarstjórnirnar verða lögum samkvæmt að jafna niður upphæðum, sem fyrir fram eru ákveðnar í fjárhagsáætlunum, og sé útsvarsgreiðendum fækkað, t.d. með því að stórhækka persónufrádrátt, verða hinir, sem eftir verða, að greiða þeim mun meira.

Með þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á skatta- og útsvarslögum í tíð núv. þingmeirihluta, hefur verið stefnt að því að létta skattabyrðina frá því, sem áður var, en ástandið í þeim efnum var satt að segja ekki glæsilegt. Skattpíningin á þeim árum, sem Eysteinn Jónsson var fjmrh., var mikil og engrar miskunnar að vænta. Þá þótti ekki tiltökumál, þótt dregið væri undan skatti. Nú er viðhorfið annað. Skatta- og útsvarsgreiðendur hafa fundið, að fullur vilji er fyrir hendi til þess að stilla sköttum og útsvörum í hóf og sýna gjaldendum fulla sanngirni, og af þessu leiðir, að nú keppast menn við að fordæma skattsvikin og krefjast þess, að þau séu tekin föstum tökum. Augu manna hafa opnazt fyrir því, að skattsvik eru glæpsamlegt athæfi, og þeirri reiðiöldu, sem reis á þessu ári vegna skattsvikanna, verða að fylgja róttækar aðgerðir til þess að hafa upp á skattsvikurunum. Ráðstafanir í þá átt hafa verið undirbúnar, sbr. það, að stofnuð hefur verið skattarannsóknardeild við embætti ríkisskattstjóra, og er kostnaður við hana á árinu 1965 áætlaður um 3.6 millj. kr. samkv. fjárlagafrv. Ljóst er, að þessi deild fær í hendur mjög vandasamt verkefni, en meðan almenningsálitið styður hana í störfum, er árangurs að vænta.

Stjórnarflokkarnir munu einnig halda áfram á þeirri braut að létta skattana, og eftir því sem skattsvikin verða minni, er hægt að ganga lengra í því efni. Sennilegast er, að sú skattalækkun, sem nú er fyrirhuguð, verði framkvæmd með því að hækka persónufrádrátt og fjölga þrepum í skattstiganum. En það er margt fleira, sem til greina kemur að athuga, og þá e.t.v. fyrst og fremst að gera framtölin sem einföldust og úrvinnslu úr þeim fljótlegri en nú er. Framteljendur eiga nú rétt á alls konar frádrætti, áður en hreinar tekjur eru fundnar, og er áreiðanlega misjafnt, hvernig mönnum tekst að tína þar allt til, sem þeir kunna að eiga rétt á. Frádráttarliðirnir eru m.a. kostnaður við húseignir, þ.e. fasteignagjöld, fyrning og viðhald, vextir, eignarskattur, eignaútsvar, iðgjald af lifeyristryggingu, iðgjald af lífsábyrgð, sjúkrasamlagsgjald, almannatryggingagjald, stéttarfélagsgjald, fæðisfrádráttur sjómanna, hlífðarfatakostnaður plús aukafrádráttur, skyldusparnaður, 50% af aukatekjum konu og frádráttur vegna starfa konu við atvinnurekstur hjóna. Loks koma svo aðrir frádráttarliðir, sem eru óteljandi. Fæstir einstaklingar eiga rétt á öllu þessu, og er þannig mjög misjafnt, hvað einstakir gjaldendur hafa gott af þessum frádrætti, og á skattstofunum kostar það óhemjumikla vinnu að yfirfara þetta allt saman. Ég tel því, að við endurskoðun skattalaga hljóti að koma mjög til athugunar að fella niður alla þessa frádráttarliði, en auka þess í stað persónufrádrátt eða lækka skattprósentuna, sem lögð yrði eftirleiðis á brúttótekjur. Þessi breyting mundi verða til mikilla þæginda fyrir framteljendur, og starfslið á skattstofum mundi fá meira svigrúm til að kauna önnur atriði í sambandi við framtölin en alla hina margbreytilegu frádráttarliði. Ég held, að framtölin yrðu betri við þessa breytingu.

Annað atriði, sem þarf að athuga mjög vandlega í sambandi við endurskoðun skattalaga, eru gildandi reglur um risnu, ferðakostnað og bifreiðakostnað fyrirtækja, þannig að eigendur eða forstöðumenn fyrirtækjanna geti ekki dulið kaupgreiðslur til sjálfra sín á þessum liðum.

Ég drap á það áðan, að menn gerðu sér nú vonir um, að meiri festa kæmist á verðlag í landinu en verið hefur um langt skeið. Þessar vonir byggja menn á júnísamkomulaginu svonefnda, en með því samkomulagi kom verkalýðshreyfingin að verulegu leyti inn á þá braut í samningagerð um kaup og kjör, sem stjórnarflokkarnir hafa lengi beitt sér fyrir, gegn því, að tekin var upp á ný verðtrygging á kaupi og heitið úrbótum í húsnæðismálum. Samið var til eins árs án hækkunar á grunnkaupi, en kaupgjaldsvísitölu skal reikna út fjórum sinnum á ári. Gerðar voru umbætur á kjörum verkafólks á viku- eða mánaðarkaupslaunum og gerðar breytingar á eftirvinnutíma og eftirvinnuálagi. Orlof skyldi hækka úr 6% í 7%, og einnig lofaði ríkisstj. að beita sér fyrir setningu laga um vinnuvernd. Til húsnæðismála skyldu útvegaðar 250 millj. kr. á þessu ári og fyrri hluta næsta árs, og á árinu 1965 skyldi komið á kerfisbreytingu íbúðarlána þannig, að á næstu árum verði unnt að lána til a.m.k. 750 íbúða eigi lægri lán en 280 þús. kr. á íbúð eða 2/3 kostnaðar. Lánin verða með 4% vöxtum, en á hverja ársgreiðslu reiknast full vísitöluuppbót. Enn fremur hét ríkisstj. því að vinna að útvegun lánsfjár til verkamannabústaða. Meðal tekjuöflunarleiða til að standa straum af fjáröflun til húsnæðismálanna var gert ráð fyrir 1% launaskatti, sem atvinnurekendur greiða af greiddum launum, og á hann að renna í byggingarsjóð ríkisins sem stofnframlag, og til viðbótar var gengið út frá, að sjóðurinn fengi 40 millj. kr. sem árlegt framlag úr ríkissjóði með álagningu nýs fasteignaskatts eða með öðrum hætti.

Í samræmi við júnísamkomulagið, sem ég hef nú stuttlega lýst, eru þegar komin fram hér á Alþingi 4 lagafrv., en þau eru frv. til l. um verðtryggingu launa, frv. til l. um breyt. á l. um orlof, frv. til l. um breyt, á l. um verkamannabústaði og frv. til l. um launaskatt. Frv. um verkamannabústaði felur í sér, að lána megi allt að 90% af kostnaðarverði íbúðar, en þó ekki yfir 450 þús. kr. Önnur lagafrv., sem af samkomulaginu leiðir, eru í undirbúningi. Í framhaldi af júnísamkomulaginu hefur ríkisstj. .aukið niðurgreiðslur á vöruverði frá því, sem ráðgert var í fjárl. þessa árs, og er ekki í því .fjárlagafrv. fyrir næsta ár, sem hér liggur fyrir, gerð till. um, hvort þessum viðbótarniðurgreiðslum skuli haldið áfram. Kemur það til kasta Alþingis að ákveða, hvort afla skuli nýrra tekna til að standa undir hinum auknu niðurgreiðslum eða hvort dregið verði úr þeim á ný, en það mundi þýða, að breyting kæmist á kaupgjaldsvísitöluna, og uppbætur yrðu þá að greiðast á öll laun, tryggingabætur og lífeyri. Þótt júnísamkomulagið hafi þannig verið mikilvægt spor í rétta átt og með því sé tryggður meiri vinnufriður og jafnvægi í efnahagsmálum en við höfum átt að venjast, þá hefur það samt ekki leyst allan vanda, og að svo stöddu er athugun fjárlagafrv. ekki svo langt komið, að unnt sé að segja, hvernig brugðizt verði við þessu vandamáli varðandi niðurgreiðslurnar.

Skömmu fyrir þingbyrjun náðist einnig þýðingarmikið samkomulag um málefni landbúnaðarins. Bændur fengu rúmlega 11% hækkun á afurðum sínum, og ákveðið var að gera ýmsar veigamiklar ráðstafanir þeim til stuðnings. Má þar til nefna, að styrkur til uppsetningar á súgþurrkun verður 1/3 kostnaðar, og skal verja í þessu skyni 5 millj. kr. á ári í næstu 5 ár. Jarðræktar- og búfjárræktarlög verða endurskoðuð og jarðræktarframlög hækkuð um allt að 30% miðað við 1963. Næstu 5 ár verður varið 5 millj. kr. á ári til að aðstoða þá bændur, sem verst eru settir, og afurðalán og viðbótarlán við þau verða hækkuð til samræmis við það, sem tíðkast í sjávarútvegi. Þetta samkomulag er tvímælalaust til verulegra hagsbóta fyrir bændur, og með því er rækilega hnekkt þeirri fullyrðingu framsóknarforingjanna, að stjórnarflokkarnir hafi engan skilning á málefnum bænda.

Viðbrögð Framsóknar við öllu, sem frá stjórninni kemur, eru alltaf þau sömu. Hún hefur allt á hornum sér, sbr. ræðu Eysteins Jónssonar áðan, og bregzt önuglega við, þótt allir aðrir fagni hlutum eins og júnísamkomulaginu og samningunum við bændur. Það er sjálfsagt erfitt fyrir skapstóra menn að vera utan gátta og finna til þess, að þeir eru ekki hafðir með í ráðum, en þeir geta sjálfum sér um kennt og heimskulegum vinnubrögðum í stjórnarandstöðunni. Væru vinnubrögð framsóknarforingjanna önnur og betri en raun ber vitni, væri meira tillit til þeirra tekið. Við úrlausn vandasamra mála er varða þjóðarheildina, er að sjálfsögðu mikilvægt, að sem víðtækast samstarf náist á milli allra flokka, og stjórnarflokkarnir hafa sýnt það í verki, að ekki stendur á þeim að taka þátt í slíku samstarfi, án þess að það boði annað og meira en úrlausn tiltekinna mála. Þetta hefur forustumönnum Framsóknar ekki skilizt enn þá, og þess vegna standa þeir utan gátta og hafa fengið á sig þann stimpil, að þeir séu óþarfir. Þetta eru ill örlög fyrir menn, sem áður höfðu mikil áhrif á gang þjóðmálanna.

Það eru að sjálfsögðu mörg verkefni, sem bíða úrlausnar þessa þings, auk þeirra, sem hér hafa verið rædd. Sum eru nýlega til komin og athugun þeirra því skammt á veg komin. Þannig er t.d. um vandamál þeirra staða á Vestfjörðum og Norðurlandi, sem eiga í örðugleikum vegna aflabrests. Þeir erfiðleikar stafa af síldarleysi við Norðurland í sumar, en einnig af því, að útgerð margra þessara staða samanstendur af bátum af þeirri stærð, sem ekki þykir lengur samkeppnisfær við nýjustu og fullkomnustu fiskiskipin. Veit ég, að margir útvegsmenn á Vestfjörðum eiga nú í erfiðleikum með að standa í skilum með vexti og afborganir stofnlána af bátum, sem þannig er ástatt með, og hafa þeir því sótt um gjaldfrest á afborgunum lánanna. Tel ég sjálfsagt að verða við þeirri ósk. En einnig þarf að kanna, hvort ekki séu til úrræði til að gera mönnum kleift að halda slíkum bátum úti, sem hér er átt við, og það vandamál nær raunar til landsins alls, því að mikið er til af 40—100 rúml. bátum víðs vegar um land, sem eru ágæt skip og nýleg, og munu mikil verðmæti fara forgörðum, ef útgerð þeirra stöðvast með öllu. Einn staður á Vestfjörðum hefur nýlega beðið óbætanlegt tjón, og þarf ekki að lýsa því, að þar munu þing og stjórn veita alla þá hjálp, sem á þeirra valdi stendur, í framhaldi af því, sem þegar hefur verið gert. Nokkrar lagabreytingar mun þurfa að gera í framhaldi af samkomulaginu við bændur, og málefni dreifbýlisins eru nú í rækilegri athugun en oft áður, eins og fram kom í umr. hér á Alþingi s.l. miðvikudag. Þá má geta þess, að fram er komið í þriðja eða fjórða skipti frv. til l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, sem er mikill lagabálkur og nauðsynlegt að Alþingi taki afstöðu til. Rannsóknirnar verða stöðugt þýðingarmeiri þáttur í þjóðlífinu, og framfarir á því sviði hljóta fyrst og fremst að grundvallast á skynsamlegri lagasetningu. Þá má geta þess, að fram er komið frv. til l. um fjárhagslegan stuðning við leiklistarstarfsemi áhugamanna. Slík aðstoð hefur að vísu áður verið veitt, en verður samkv. frv. veitt í öðru formi en áður, og er frv. samið í samráði við fulltrúa leikfélaganna.

Þannig eru mjög mörg verkefni þessa þings ýmist í undirbúningi eða fram komin í frv. formi, og margt á eftir að bætast við, þegar frá líður, ef að vanda lætur. Þau störf, sem hér eru unnin á sviði lagasetningar, eiga síðar eftir að móta allt þjóðlífið. Þess vegna skulum við vona, að þau störf verði farsællega af hendi leyst.

Við athugun á fjárlagafrv. kemur í ljós, að það er dýrt fyrir fámenna þjóð að halda uppi sjálfstæðu ríki í stóru landi, og oft hefur verið á það bent, að allir Íslendingar gætu rúmazt við eina götu í stórborg. En við kærum okkur ekki um að breyta þessu, því að landið er okkur kært og það veitir okkur margt, sem hvergi er annars staðar að finna. Við viljum eiga vinsamleg samskipti við allar aðrar þjóðir, og til þess að greiða fyrir því, höldum við uppi utanríkisþjónustu okkar, þó að það kosti ærna fjármuni á okkar mælikvarða. Þetta eru flestir sammála um, nema þingfulltrúar kommúnista, sem leggja til á hverju ári í sambandi við afgreiðslu fjárl., að dregið verði úr utanríkisþjónustunni á Norðurlöndum og í París. Þeir vilja m.ö.o. draga úr samskiptum okkar við aðrar lýðræðisþjóðir. Þessar till. hafa ekki til þessa náð fram að ganga, enda hefur utanríkisþjónusta okkar á þessum stöðum sannað gildi sitt áþreifanlega, fyrst í landhelgismálinu og nú síðast lausninni á deilu SAS við Loftleiðir. Auk kostnaðarins við sjálfa utanríkisþjónustuna ber íslenzka ríkið kostnað við þátttöku í ýmsum alþjóðastofnunum, svo sem Sameinuðu þjóðunum og ýmsum stofnunum þeirra. Sá kostnaður nemur nú alls 7 1/2 millj. kr., og þar á meðal er framlag Íslands til friðargæzlu Sameinuðu þjóðanna, 350 þús. kr. Þennan kostnað neita aðrar og ríkari þjóðir en við að greiða, en þær eru ekki heldur eins friðsamar og við. Á morgun er dagur Sameinuðu þjóðanna, og af því tilefni skulum við óska þeim góðs árangurs við friðargæzlu um heim allan.

Að lokum vil ég segja þetta: Alþfl. tók þátt í því með Sjálfstfl. að leysa kjördæmamálið, sem var mikið sanngirnis- og mannréttindamál. Síðan hefur samstarf þessara tveggja flokka haldizt í rökréttu framhaldi af þeirri lausn, sem á því máli fékkst, og í framhaldi af upplausn vinstri stjórnarinnar. Úr hennar höndum var tekið við þrotabúi og viðreisn hafin. Árangur þeirrar viðreisnar má nú sjá á ýmsum sviðum. Almannatryggingarnar hafa verið efldar meira en nokkru sinni fyrr og m.a. afnumin skerðing á ellilífeyri og skipting landsins í verðlagssvæði. Með hjálp trygginganna á sér stað stórkostleg tekjujöfnun í þjóðfélaginu, og hlutskipti aldraðs fólks, örkumla, einstæðra og sjúkra er gert betra en áður var. Launajafnrétti kvenna og karla hefur verið lögfest og þegar fært vinnandi konum miklar kjarabætur. Gengisskráningir hefur verið leiðrétt og haldið uppi fullri atvinnu. Fjárl. hafa verið greiðsluhallalaus öll árin og þess gætt að hygginna manna hætti, að lánveitingar fari ekki fram úr sparifjáraukningu. Myndaður hefur verið gjaldeyrisvarasjóður, sem nú er 1200 —1300 millj. kr., og tekizt hefur að ná hagstæðum greiðslujöfnuði við útlönd nema árið 1963, þrátt fyrir mikinn innflutning. Skólabyggingar hafa verið meiri en nokkurn tíma áður í sögu þjóðarinnar og stórátök verið gerð í húsnæðismálum, þ. á m, í byggingu verkamannabústaða. Einnig hefur þjóðin verið losuð við höft á verzluninni, og vöruskorti hefur verið útrýmt. Gífurleg aukning og endurnýjun bátaflotans hefur átt sér stað, og eru afköst fiskiflotans nú meiri en nokkru sinni fyrr. Sjaldan eða aldrei hefur meira verið gert í hafnarmálum og samgöngumálum, og fylgt hefur verið farsælli stefnu í utanríkismálum. Allt horfir þetta til aukins lýðræðis, jafnréttis og öryggis borgaranna og stuðlar ekki að því að gera þá ríku ríkari, eins og stjórnarandstæðingar segja, heldur hefur það þau áhrif að jafna kjörin og gera fleiri Íslendinga efnalega sjálfstæða og vel menntaða. Ég vil fyrir mitt leyti treysta því, að báðir stjórnarflokkarnir beri gæfu til þess að vinna áfram saman í þessum anda.

Ég þakka hv. hlustendum fyrir áheyrnina. –Góða nótt.