14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

1. mál, fjárlög 1965

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka þátt í neinum almennum umræðum um fjárlögin og afgreiðslu þeirra. Það hafa framsögumenn meiri hl. og minni hl. fjvn. gert og ekki við það að bæta. Erindi mitt í ræðustól var einungis að mæla með örfáum orðum fyrir nokkrum brtt., sem við þm. Framsfl. í Suðurlandskjördæmi flytjum á þskj. 161. Þessar tillögur, sem við flytjum þar, eru eingöngu bundnar við kjördæmi okkar, þó að sumar þeirra séu þess eðlis, að svipaðar aðstæður eigi við í öðrum kjördæmum einnig. Og þar á ég sérstaklega við fyrstu tillöguna, sem er í III. rómverska liðnum á nefndu þskj. og er um hækkun á fjárveitingu til hafna. Það kom ekki á óvart, að hv. 1. þm. Austf., sem talaði hér næst á undan, flutti einnig fyrir hönd Austfjarðaþm. tillögur um hækkun á fjárveitingum til hafna. Yfirleitt eru hafnirnar í þessu fjárlfrv. mjög lágar, miðað við þau verkefni, sem fyrir liggja. Þetta hefur verið svo um nokkurt skeið og hefur leitt til þess, að eftirstöðvar hafa skapazt. Þó að nú hafi, með því að ríkisstj. hefur veitt 20 millj. af rekstrarafgangi undanfarandi árs til hafna og leitað heimildar fyrir því í þessum fjárlögum, þó að það hafi leitt til nokkurrar lækkunar á eftirstöðvunum í bili, þá er augljóst, að í sömu átt stefnir með þeim fjárveitingum, sem hér er gert ráð fyrir. Við flm. þessara tillagna teljum, að eðlilegra sé að hækka þessar fjárveitingar heldur en að leita fjár upp í vaxandi eftirstöðvar með öðrum hætti. Við teljum, að 700 þús. kr. hámark til hafna sé ekki lengur raunhæft, miðað við þann kostnað, sem á þessum hlutum er orðinn, og leggjum þess vegna til að farið verði langt upp fyrir það mark.

Á þskj. 161 leggjum við til, að fjárveiting til hafnargerðar á .Eyrarbakka hækki úr 500 þús. í 1 millj., á Stokkseyri úr 300 þús. í 500 þús. og í Vestmannaeyjum úr 700 þús. í 1 1/2 millj. Á Eyrarbakka er gert ráð fyrir því skv. skýrslum vitamálastjóraembættisins, að framkvæmt verði fyrir 4 1/2 millj. á árinu og hlutur ríkissjóðs af því yrði þá 1800 000 kr. Með óbreyttum fjárveitingum, eins og gert er ráð fyrir í fjárlfrv., eins og það liggur nú fyrir frá fjvn., þá mundu eftirstöðvar verða nærri 2 millj, að árinu loknu. Svipaða sögu er að segja um hinar hafnirnar, sem ég nefndi. Sérstaklega í Vestmannaeyjum er gert ráð fyrir miklum framkvæmdum á árinu 1965 eða framkvæmdum upp á 12 1/2 millj., og með óbreyttum fjárveitingum frá því, sem hv. fjvn. leggur til, yrðu eftirstöðvar í árslokin rúmar 7 millj. kr., og við teljum þess vegna ekki óeðlilegt að leggja til, að fjárveitingar til þessara hafna verði hækkaðar.

Þá eigum við í V. lið á nefndu þskj. tvær brtt. Önnur er að nokkru leyti leiðrétting. Það er 1. tölul. Í fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir, er XI. liðurinn í C-hluta 13. gr. þannig: Til rannsókna á möguleikum til hafnargerðar á stöðum, þar sem engar hafnarnefndir eru starfandi, 400 þús. kr., þar af 100 þús. kr. til Dyrhólasvæðisins, eins og það mun vera orðað í frv. Okkur hefur þótt eðlilegra, þar sem sýslunefndirnar í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu hafa kosið hafnarnefnd, að koma í veg fyrir misskilning með því að skipta þessu í tvo liði og fara þá fram á nokkra hækkun um leið, þar sem ekki verða mikil rannsóknarstörf unnin fyrir 100 þús. kr. við Dyrhólaey.

Í 2. tölul. í þessari brtt. er farið fram á, að veittar séu 50 þús. kr. til flugbjörgunarsveitar í Skógum, með sama hætti og veitt er til tveggja annarra flugbjörgunarsveita. Í Skógum starfar áhugasöm sveit vaskra manna og býr sig undir flugbjörgunarstörf, þegar á slíku yrði þörf. Þeir eru þarna á mjög þýðingarmiklum stað á landinu, bar sem flugvélar í utanlandsferðum koma að landinu, og virðist, að mikil nauðsyn sé á því, að einmitt á þessum slóðum sé starfandi slík hjálparsveit. Þess vegna er farið fram á þetta hér.

Þá eigum við í VII. liðnum nokkrar brtt., fyrst við till. hv. fjvn. um skiptingu fjár til sjóvarnargarða. Við leggjum þar til, að hækkuð sé fjárveiting til Eiðisins í Vestmannaeyjum. Þar er um að ræða einhvern þýðingarmesta sjóvarnargarð landsins. Gangi sjór yfir Eiðið, er voðinn vís í stærstu fiskihöfn landsins. Það er nauðsynlegt að styðja Eiðið með stórgrýti og með því að hækka það verulega. Fyrir nokkrum árum var unnið talsvert að þessu, en upp á síðkastið hafa fjármunir verið takmarkaðri og ekki verið unnt að vinna eins skipulega að þessu og æskilegt væri af þeim sökum.

Siðan leggjum við til í sama lið, að veittar séu til sjóvarnargarðs við Strönd í Selvogi 50 þús. kr. Þar hagar þannig til, að fyrir sunnan og vestan Strandarkirkju er töluvert hár kambur, en milli kirkjunnar og kambsins er graslendi. Þessi kambur hefur fyrir alllöngu tekið að eyðast, og hefur þá verið hlaðinn þar steinveggur, en hann er nú tekinn að skemmast og sjórinn er tekinn að brjóta vegginn verulega. Þegar ég var á ferð þarna ásamt hv. 2. þm. Sunnl. og oddvita Selvogshrepps í fyrravor, virtist okkur, að þarna væri veruleg hætta á ferðum af landeyðingu í næsta nágrenni við hina merku Strandarkirkju, því að þarna er aðeins um að ræða kannske 100 m eða minna, sem kamburinn er frá kirkjunni. Ég mun taka þessa till. aftur til 3. umr. og raunar fleiri af þeim till., sem ég hér hef gert að umræðuefni, til þess að hv. fjvn. gefist tækifæri til þess að athuga, hvort hún vildi sinna þessari till. okkar.

Síðasta brtt., sem við flytjum, er svo brtt. við 22. gr., heimildagr., þar komi nýr liður, heimild til þess að taka allt að 15 millj, kr. lán til byggingar strandferðaskips fyrir siglingarleiðina Vestmannaeyjar–Þorlákshöfn. Eins og hv. þm. er kunnugt, hafa hv. 2. þm. Sunnl. og hv. 4. þm. Sunnl. flutt frv. til 1. í hv. Nd. um byggingu

og rekstur slíks skips. Þetta frv. kom fram í fyrra, en náði þá ekki afgreiðslu. Til þess að kanna, hvort nú muni vera fyrir hendi vilji hjá hv. þm. til þess að styðja þetta mál, höfum við leyft okkur að bera fram þessa brtt. Ég ætla ekki að eyða tíma hv. þm. í það núna að endurtaka þau rök, sem fram hafa verið færð fyrir því, að æskilegt væri að byggja og reka slíkt skip. Það hefur verið gert í grg. fyrir því frv., sem lagt hefur verið fram um þetta efni, og eins í framsöguræðum um það mál. Það má aðeins minna á það, að Vestmanneyingar munu eiga verulega inni hjá samgöngukerfi landsins. Þeir borga mikla benzínskatta þar og önnur gjöld á borð við okkur aðra landsmenn, en hafa aðeins einn þjóðveg fáa km á lengd. Nauðsynin á því að fá skip milli lands og Eyja, sem gæti verið góð bifreiðaferja, er einnig orðin augljós. Eftir að svo mikið af bifreiðum er komið til Vestmannaeyja eins og nú er orðið, er erfitt fyrir þá að sætta sig við að geta ekki fengið tækifæri til þess að nýta farartæki sín annars staðar á landinu. Að öðru leyti ætla ég ekki að rökstyðja þessa till. frekar. Hún hefur, eins og ég sagði áðan, verið rökstudd í sambandi við það frv., sem ég gat um.

Ég sé þá ekki ástæðu til þess að fara um þessar till. fleiri orðum, en einhverjar þeirra munu verða teknar aftur til 3. umr., svo að hv. þm. og hv. fjvn. gefist kostur á að kanna þær nánar.