14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

1. mál, fjárlög 1965

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Á þskj. 161 flytjum við hv. 1. þm. Vestf. (HermJ), hv. 5. þm. Vestf. (HV) og ég brtt. um nýjan lið, ferjubryggjur, 150 þús. kr. fjárveitingu, þ.e. til Brjánslækjar á Barðaströnd.

Eins og mönnum er kannske kunnugt, þá er endastöð fyrir póstbátinn frá Stykkishólmi á Brjánslæk. Bryggja var þar byggð fyrir alllöngu, en síðar lengd nokkuð fyrir fáum árum, en enn vantar þó herzlumuninn til þess, að bryggjan komi að fullum notum, því að það er ekki unnt fyrir bát að liggja við hana um fjöru. Af þessum ástæðum verður hún ekki til þess gagns, sem ætlazt er til, þegar lágsjávað er. En póstbáturinn kemur að sjálfsögðu á ákveðnum tímum, en fer ekki eftir sjávarföllum.

Nú er sá hængur á landsamgöngum um Vestfirði, að í fyrstu snjóum lokast heiði, sem heitir Þingmannaheiði og er rétt austan við Brjánslæk. Þar með eru landsamgöngur úr sögunni austan frá við Vestur-Barðastrandarsýslu og við Vestur-Ísafjarðarsýslu og jafnvel Ísafjörð, ef þá eru opnar heiðarnar, Breiðadalsheiði og þær aðrar, sem eru á þeirri leið, en þær lokast allar síðar en Þingmannaheiði, nema þá helzt Breiðadalsheiði. Ef hægt væri að notfæra sér þennan póstbát fyrir bílflutninga yfir Breiðafjörð, þá mundu breytast mjög samgöngur þangað og þaðan. Mikill hluti Vestfjarða mundi þá hafa bílasamgöngur við þjóðvegakerfið yfir Breiðafjörð, ef lendingarskilyrði fyrir flóabátinn á Brjánslæk væru viðunandi. Að þessu er nú stefnt, og nýr bátur á að koma til sögunnar þegar á næsta ári.

En það er líka annað, sem mælir með því, að lokið sé við þessa bryggju, en það er, að þetta mundi breyta stórlega rekstrarafkomu þessa báts, en nú á að fara að kaupa nýjan bát, og á hann að hefja ferðir sennilega á miðju ári eða kannske fyrr, 1965.

Það getur því verið beinn gróði fyrir ríkissjóð að ljúka við þessa bryggju, svo að báturinn geti komið að þessum notum, því að það mundi lækka mjög rekstrarhalla þessa báts, en hann hefur verið þó nokkur og verður vafalaust áfram þó nokkuð mikill, meðan ekki er úr þessu bætt. Mér þykir því líklegt, að menn ættu að geta sannfærzt um, að það væri skynsamleg ráðstöfun að leggja í þessa litlu framkvæmd og bæta þar með samgöngurnar á þennan hátt og spara fé á öðru sviði fyrir ríkið í staðinn.

Ég vil því beina því til hv. fjvn., hvort hún vilji ekki athuga þessa tillögu milli umræðna, en ég mun taka hana aftur við þessa umr., svo að hún komi ekki til atkv. fyrr en við 3. umr.