14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

1. mál, fjárlög 1965

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hefja neinar almennar umr. um fjárlög, aðeins að minna á tvær till., sem ég er fim. að ásamt samflokksmönnum mínum úr Norðurl. e.

Við flytjum m.a. brtt. við 13. gr., þ.e. varðandi hafnarmálin, að í staðinn fyrir töluna 650 þús., þar sem talað er um Akureyri, komi 1 millj. Það er fyrirhugað nú á næsta ári að hefja allverulegar hafnarframkvæmdir á Akureyri, þ.e.a.s. fyrirhugað að stækka dráttarbrautina á Oddeyri, stækka hana svo mikið, að þar sé hægt að taka upp allt að 500 tonna skip. Og jafnframt er svo fyrirhugað að gera aðrar ráðstafanir þar í höfninni í því sambandi til þess að fullnýta slippinn. Og einnig er hugsunin sú að bæta skipasmiðaaðstöðu þarna á slippsvæðinu, því að nú er mikill hugur í Akureyringum um það að reyna að koma á fót stálskipasmíði og allmikill undirbúningur hafinn undir það mál og augljóst, að allt eru þetta mjög fjárfrekar framkvæmdir. Og það er eðlilegt, að það verði veitt til þess nú á fjárl. verulega há upphæð, og till. okkar er sú, og er hún í samræmi við það, sem fram hefur komið hér almennt af hálfu okkar framsóknarmanna um aukið fé til hafnarframkvæmda yfirleitt, — að hækka þetta framlag frá því, sem komið hefur fram hér frá fjvn., upp í 1 millj.

Þá vil ég einnig minna á till., sem við flytjum, þm. Framsfl. úr Norðurl.e., við 22, gr. fjárlfrv. Það er heimild til þess að taka lán, allt að 3 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt, vegna Ólafsfjarðarvegar eða Múlavegar, sem svo er nefndur. Framkvæmdir hafa staðið í Múlavegi allt að því 10 ár nú, og það er svo komið, að ekki vantar nema herzlumuninn, til þess að hægt sé að ljúka honum, — aðeins herzlumuninn. Það munu vera um það bil 650 metrar eftir, til þess að endar nái saman, en þarna er þó um allerfiðan kafla af veginum að ræða og kostar mikið fé. Það litla, sem þó virðist vera eftir af vegarlagningunni, er talið að muni kosta um 5 millj., þ. e. að ljúka verkinu, auk þess sem eftir er að brúa Brimnesá í Ólafsfirði, sem er talsverð á, og þó gert ráð fyrir, að þarna verði um smábrú að ræða. En þetta er slæmur farartálmi á leiðinni, og þar þarf að gera vandaða brú. Það, sem einnig er eftir að gera í Múlavegi, er m.a. að mölbera allan veginn milli enda og breikka hann Ólafsfjarðarmegin og gera grindverk á hann í öryggisskyni, því að eins og kunnugt er, liggur Múlavegur í brattri fjallshlíð, er þar eiginlega höggvinn inn í fjallið við heldur erfiðar aðstæður, og neðan vegarins er snarbrött hlíð, hengiflug sums staðar niður til sjávar. Þarna verður þá að setja upp grindverk í öryggisskyni. Það er eitt af því, sem eftir er að gera þarna í Múlaveginum.

Það er óhætt að segja, að Múlavegurinn er ein hin merkasta vegarframkvæmd, sem nú er unnið að í okkar landi og mikið mannvirki. Hann kemur til með að rjúfa gamla einangrun Ólafsfjarðar og tengja Ólafsfirðinga við þær byggðir, sem þeir hafa yfirleitt haft aðalviðskipti við alla tíð, gegnum alla Íslandssögu, og kemur til með að stytta leiðina milli Ólafsfjarðar og Akureyrar um allt að 150 km og opnar m.a. Ólafsfirðingum nýjar leiðir eða nýja möguleika á sviði viðskipta- og athafnalífs, þannig að talið er líklegt, að þetta verði veruleg lyftistöng fyrir landbúnaðinn í Ólafsfirði, því að þá opnast bændum þar leið til þess að notfæra sér Akureyrarmarkaðinn, sem er að tiltölu mjög stór og hefur verið mikil lyftistöng fyrir landbúnaðinn í Eyjafjarðarsýslu að öðru leyti en því, að Ólafsfjörður hefur orðið þar verulega útundan vegna einangrunar sinnar. Því er það, að það er nauðsynlegt nú, það stendur þannig á, það er alveg nauðsynlegt að ljúka þessum einasta áfanga á Múlavegi, keppa að því að ljúka Múlavegi að fullu á næsta ári. En til þess að það megi verða, er nauðsynlegt að afla verulegs lánsfjár í þessu skyni, og að mínum dómi er vart hægt að hugsa sér, að tekin verði lægri lánsfjárhæð en þær 3 millj., sem við höfum lagt til í okkar till. Raunar mætti hugsa sér þá upphæð hærri, en við höfum kosið að hafa hana ekki hærri að þessu sinni.

Ég ætla svo ekki að eyða fleiri orðum í þessar till., vildi aðeins minna á þær.