14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

1. mál, fjárlög 1965

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Á þskj. 165 hef ég leyft mér að flytja fáeinar brtt., allar við 14, gr. fjárl., og ætla ég að leyfa mér að fara um þær örfáum orðum.

Fyrst er þá brtt. við 14. gr. A, III, liður a. Það er til styrktar íslenzkum námsmönnum. Það er greinilegt, að þennan fjárlagalið þarf að hækka verulega, ef á að fara svo, að hverjum námsmanni um sig, bæði þeim, sem stunda nám erlendis og hér við Háskóla Íslands, — að hægt sé áð gera ekki miður til þeirra í lánveitingum eða styrkveitingum heldur en s.l. ár. Ég hygg, að það séu ekki um það skiptar skoðanir, að okkur sé full nauðsyn á að hlynna að íslenzkum námsmönnum. Þeim fer eðlilega fjölgandi og verður að fara fjölgandi, ef vel á að vera. Það hlýtur að verða að miða fjárveitingar til þeirra. sem aðallega eru í formi lána, við það, að þeim fjölgar um a.m.k. 15% árlega og er vitanlega eðlilegt, það er nokkurn veginn sú fjölgun, sem verður á stúdentatölu nú á hverju ári. Ég hygg, að hér sé ekki farið lengra en bráðnauðsynlegt er til þess að halda þarna í horfinu. Ég legg til, að þessi upphæð verði hækkuð upp í 14 millj. kr.

Önnur brtt. mín er um nokkra hækkun til skálda, rithöfunda og listamanna. Ég ætla ekki að fara nú að fjölyrða um þann sjáifsagða hlut að styrkja íslenzka viðleitni til þess að skapa menningarverðmæti, og það er okkur til vansa, að einmitt þessi fjárveiting, sem aldrei hefur verið sérlega há, hefur dregizt aftur úr. Það er ekki veitt nú hlutfallslega jafnmikið og gert var fyrir þó nokkrum árum, hvort heldur miðað er við fjárl. í heild eða miðað við tilkostnað almennt í þjóðfélaginu og hversu dýrt er orðið að lifa. Ég tel, að það megi ekki minna vera en þarna fáist fram nokkur leiðrétting, og hef leyft mér að leggja. til, að upphæðin hækki úr 3.1 millj. í 5 millj. kr.

Næsta till. mín er um það, að styrkur til Bandalags íslenzkra leikfélaga verði hækkaður nokkuð, eða úr 150 þús. kr. í 400 þús. kr. Fyrir Alþingi liggur stjórnarfrv. um allverulega aukinn stuðning við leiklistarstarfsemi úti um land. Ég tel, að það frv. stefni mjög í rétta átt og sé til verulegra bóta, en hins vegar er alveg bráðnauðsynlegt, að því fylgi jafnframt aukinn stuðningur við bandalag það, sem þessi félög hafa stofnað með sér, til þess að afla margvíslegra tækja og aðstoðar, sem er þessari starfsemi lífsnauðsyn. Sem dæmi þess, að þarna hefur Alþingi áður litið svo á, að veruleg ástæða væri til þess að styrkja bandalagið, jafnframt því sem leikstarfsemin úti um landið væri styrkt sérstaklega, skal ég nefna það, að árið 1959 fengu félögin úti um landsbyggðina samtals 206 þús. kr. í styrki, en bandalag þeirra mun þá hafa fengið 125 þús. kr. styrk. Nú er svo til ætlazt, að félögin úti um landið, önnur en Leikfélag Reykjavíkur, fái 1 millj. kr. í styrki, og ég tel það sízt of hátt, en bandalagið er samkv. fjárlagafrv, einungis með 150 þús. kr. styrk. Ég vil leggja áherzlu á það, að ef eitthvert samræmi á að vera þarna í milli, er nauðsynlegt, jafnframt því sem verið er að reyna að efla starfsemina í þessu efni úti um landsbyggðina, að miðstöð þessarar starfsemi, bandalaginu, sem útvegar félögunum leikrit, búninga og leikstjóra og veitir þeim margvíslega fyrirgreiðslu, því sé jafnframt gert kleift að halda uppi nauðsynlegri starfsemi í þessu efni.

Þá er ég hér með litla till. um að hækka svolítið lið, sem hefur verið á fjárlögum nokkur undanfarin ár til tónleikahalds erlendis, til þess að styrkja íslenzka tónlistarmenn til þess að flytja íslenzka tónlist fyrst og fremst á erlendum vettvangi. Þessi liður, sem hefur verið í nokkur ár á fjárl., 30 þús. kr. hverju sinni, mér er kunnugt um, að hann hefur komið að nokkru gagni, en er nú sakir vaxandi dýrtíðar og kostnaðar orðinn ófullnægjandi. Það hefur sýnt sig, að það er erfitt að skipta þessu litla fé, því að árlega eru það nokkrir aðilar, sem gjarnan vildu hafa möguleika á því að kynna íslenzka tónlist erlendis, og ég tel, að hóflegum fjármunum, sem til þess væri varið, sé vel varið. Till. mín er sú, að þessi litla fjárveiting verði hækkuð úr 30 þús. kr. í 60 þús. kr.

Loks flyt ég, einnig við 14. gr., till. um nýjan lið, það er til listfræðslu og listkynningar innanlands samkv. ákvörðun menntamálaráðs 300 þús. kr. Fyrir nokkrum árum var sú starfsemi hafin eða gerið tilraun með hana á vegum menntamálaráðs og ríkisútvarpsins. Það var nefnt „list um landið“ og farið á allmarga staði með tónlist, með leiklist í litlum stíl, með myndlist, og rithöfundar fóru og lásu upp úr verkum sínum. Þessu var mjög vel tekið, og var greinilegt, að þarna var um brýna þörf að ræða. Tilkostnaður var að vísu nokkur, sérstaklega að fá listamennina til þess að undirbúa sig og æfa, en eftir að það var komið í kring, mátti segja, að þessi starfsemi stæði að allverulegu leyti undir sér, þar sem aðsókn var góð og aðgangur seldur, þó að aðgangseyri væri mjög í hóf stillt. Ég tel, að þarna eigi að taka upp þráðinn að nýju. Nú eru víðs vegar um land komin upp myndarleg samkomuhús, félagsheimilin, og það er skylda hins opinbera að aðstoða almenning úti um landsbyggðina til þess að hagnýta þessi samkomuhús á menningarlegan hátt, og ég hygg, að það verði ekki öllu betur gert með öðru en því að skipuleggja slíka starfsemi, sem hér gæti verið um að ræða, fá góða listamenn til þess að ferðast um og flyt ja og sýna list sína. Það má í mörgum tilfellum sameina þetta. Til að mynda virðist fara mjög vel á því að kynna

bókmenntir og tónlist samtímis og jafnvel myndlist einnig.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þessar till., en vænti þess, að á þær verði litið með skilningi.