15.12.1964
Sameinað þing: 20. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

1. mál, fjárlög 1965

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held, að ég komist ekki hjá því að vekja athygli hv. þm. á einu ákvæði í þingsköpum, sem virðist hafa fallið úr minni margra þeirra. Í 44. gr. þingskapa segir svo: „Enginn þm. má greiða atkv. með fjárveitingu til sjálfs sín.“

Till. mín er um að fella niður það, sem gilt hefur áður, að einstaka menn, fáir þó, hafa fengið vörur hjá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins með langtum lægra verði en almennt gerist þar í viðskiptum, og nokkrir af þessum mönnum eiga sæti hér á Alþingi. Vegna þessa ákvæðis í þingsköpum vil ég benda á það, að ég tel, að ef einhverjir þessara manna greiða atkv. gegn minni till., og sumir hafa gert það, sjálfsagt af vangá, nú þegar, þá beri ekki að telja mótatkv. þeirra með öðrum mótatkv.,sem greidd eru við þessa atkvgr. Þessu vildi ég skjóta til hæstv. forseta, þegar hann fer að úrskurða um úrslit atkvgr. — Ég segi já.