09.11.1964
Efri deild: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

58. mál, innlent lán

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fjáröflun vegna framkvæmda ríkisins er og hefur verið einkum með tvennum hætti. Í fyrsta lagi eru það venjulegar tekjur ríkissjóðs, skattar eða aðrar álögur, sem undir slíkum framkvæmdum standa. Í öðru lagi erlend fjáröflun, og hafa öðru hverju og alloft verið tekin lán til ríkisframkvæmda. Er síðast að minnast enska framkvæmdalánsins, sem tekið var í des. 1962, að upphæð 2 millj. sterlingspunda. Í þriðja lagi eru svo innlendar lántökur, og hefur sú fjáröflun hin síðari ár einkum vérið með þeim hætti, að tekin hafa verið lán í bönkum. Síðustu tvö árin hefur ríkisstj. í sambandi við framkvæmdaáætlunina gert samninga við bankana og stærstu sparisjóðina um, að þeir lánuðu vissan hluta af sparifjáraukningu til hinna opinberu framkvæmda. En hin innlenda fjáröflun hefur stundum verið ekki eingöngu í því fólgin, að leitað hefur verið til banka og sparisjóða, heldur verið fólgin einnig í skuldabréfaútgáfu ríkisins. Þetta hefur þó ekki átt sér stað nú um langan aldur, eða um hálfan annan áratug. Ég ætla, að síðasta útboð ríkislánsins hafi verið á árunum 1947—48, þegar svokallað happdrættislán ríkissjóðs var gefið út. Síðan hefur ekki verið farið út á þessa braut, í rauninni af eðlilegum ástæðum, efnahagsástand, jafnvægisskortur og verðbólga löng tímabil hefur gert það að verkum, að ekki hefur verið grundvöllur fyrir sölu ríkisskuldabréfa.

Ég held hins vegar, að flestir hljóti að vera sammála um, að það sé æskilegt og í rauninni nauðsynlegt, þegar til langframa er litið, að fjáröflun til opinberra framkvæmda fari að einhverju og helzt að verulegu leyti fram með skuldabréfasölu ríkisins innanlands.

Það frv., sem hér liggur fyrir, felur það í sér, að gerð skuli tilraun í þessa átt, og er veitt heimild með frv. til þess, að ríkissjóður bjóði út allt að 75 millj. kr. lán, ýmist í formi skuldabréfa eða spariskírteina.

Eins og ég gat um, hefur þessi leið ekki verið reynd í hálfan annan áratug, og er nokkur vandi á höndum, hvernig með skuli fara, þegar á ný er lagt út á þessa braut. Eins og ég gat um, er miklu minni sala opinberra skuldabréfa hér á landi en í öðrum löndum, þar sem sala slíkra bréfa fer fram að staðaldri og ríkissjóðirnir víðs vegar afla sér fjár til framkvæmda oft og tíðum með slíkum útboðum.

Til þess að einhverjar vonir geti staðið til þess, að slík bréf eða skírteini seljist, þarf að skapa trú hjá fólki á því, að þessi skuldabréf eða spariskírteini verði ekki æ verðminni, eftir því sem árin liða, og verulegur hluti þeirra hverfi í hít verðbólgu. Þess vegna er ákveðið svo í þessu frv., að heimilt sé að binda þessi bréf vísitölu. Vísitölubréf hafa að vísu verið reynd áður hér, einkum í sambandi við skuldabréf húsnæðismálastjórnar og eitt sinn í sambandi við lántöku Sogsvirkjunar, fyrir 4 árum. Það er látið óákveðið í þessu frv., við hvaða vísitölu yrði miðað. En það er rétt að skýra frá því þegar á þessu stigi málsins, að sú vísitala, sem helzt er höfð í huga, er vísitala byggingarkostnaðar. Það er gert ráð fyrir því, að þessi bréf verði tryggð þannig, að þau hækki með hækkuðum byggingarkostnaði, verði þannig bundin þeirri vísitölu.

Það má gera ráð fyrir því, að þessi tilhögun mæti skilningi og trausti hjá almenningi og geti haft sín áhrif til þess að vinna gegn verðbólguhugsunarhætti og of mikilli fjárfestingu á hverjum tíma. Það eru auðvitað margir borgarar þessa þjóðfélags, sem hafa bæði áhuga á og þörf fyrir að eignast íbúð, en þörfin er mismunandi. Mjög margir leggja það fé, sem þeir kunna að hafa aflögu, til þess að hraða sem mest byggingu eða kaupum íbúðar af ótta víð það, að verðlag og kaupgjald fari hækkandi og byggingarkostnaður þar með, þess vegna sé öruggara að leggja fé sitt strax eða sem allra fyrst í íbúðarbyggingu.

Ef nú væru á markaðinum ríkisskuldabréf eða spariskírteini, þar sem menn gætu lagt sitt fé í þau og staðið þá jafnt að vígi með byggingu íbúðar sinnar eftir nokkur ár, vegna þess að nafnverð bréfanna hefði hækkað sem svarar hækkun byggingarkostnaðar, þá er hvötin minni hjá þeim, sem hafa ekki brýna þörf fyrir að byggja nú þegar eða á næstu árum, — hvötin hjá þeim til þess að hraða sér yrði þannig minni. Ég nefni þetta dæmi um íbúðabyggingar vegna þess, hversu það er stórt atriði og mikilvægt í hugum flestra landsmanna, en eins er það á mörgum öðrum sviðum, að hvenær sem menn óttast verðfall peninga eða aukna dýrtíð, hækkað kaupgjald og verðlag, þá freistast menn til þess að festa fé sitt í ýmsum hlutum, ýmist nauðsynlegum og aðkallandi eða miður nauðsynlegum. Ef menn hins vegar hafa spariskírteini eða skuldabréf ríkisins, sem tryggð eru með vísitölu byggingarkostnaðar, þá ættu menn ótrauðir að geta sett fé sitt í það engu síður og stæðu þá jafnvel að vígi eftir nokkur ár, þegar skírteinin yrðu innleyst.

Það er gert ráð fyrir því, að þessi skuldabréf yrðu gefin út til um það bil 10 ára, eða í kringum 10 ár yrði lánstíminn. En hins vegar er gert ráð fyrir því, að kaupendur þessara bréfa gætu, ef þeir óska eftir því, fengið þau innleyst, fengið þau endurgreidd, t.d. eftir 3 eða 4 ár. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að vextir yrðu stighækkandi á þessum bréfum, þannig að þeir, sem létu fé sitt standa áfram lengur en 3—4 ár eða allt að 10 ára tímabilinu, fengju tiltölulega hærri vexti fyrir seinni hluta lánstímabilsins en þann fyrri, til þess meðfram að hvetja menn til að láta fé sitt standa í þessum skírteinum eða bréfum, en hins vegar að þeir, sem þess óskuðu eða þyrftu á fénu að halda eftir t.d. 3 eða 4 ár eða á síðara tímabili upp að þessum tíu ára tíma, gætu hvenær sem er fengið þau endurgreidd.

Þetta er í stórum dráttum fyrirkomulagið á þessum bréfum, sem hugsað er. Eins og menn sjá, er hér að sumu leyti um nokkra nýjung að ræða. Hún er í því skyni gerð að skapa mönnum ný tækifæri, sem þeir hafa ekki nú, því að þeir, sem leggja fé sitt í banka og sparisjóði, fá að vísu af því góða vexti, 7—9%. eftir því hvað þeir binda féð lengi, allt að einu ári. En hins vegar er þessi vísitölutrygging ákaflega mikils virði.

Nú kunna menn að varpa fram þeirri spurningu, hvort slík skuldabréfaútgáfa ríkisins mundi ekki verða til þess fyrst og fremst að draga fé, kannske samsvarandi háa upphæð, út úr bönkum, og sparisjóðum og þannig lama möguleika þeirra til útlána. Að vísu má vera, að einhver brögð verði að slíku. En það er von okkar, sem að þessu frv. stöndum, að þessi nýja tilhögun gæti orðið til þess fyrst og fremst að auka sparnað eða sparifjármyndun í landinu, þannig að sumir þeir, sem eitthvert fé hafa milli handa, sem þeir þurfa ekki að nota jafnharðan, en hafa ekki trú á því að leggja það í banka og sparisjóði vegna reynslunnar undanfarna áratugi af rýrnun sparifjár, mundu heldur vilja leggja það í kaup á slíkum bréfum og skírteinum, vegna þess að þessi umrædda vísitölutrygging væri þar til staðar.

Um það er auðvitað ómögulegt að fullyrða á þessu stigi, hver verður reynslan, en þetta er tilraun, sem er gerð m.a. í þessu skyni, að auka sparifjármyndun almennings. Það fé, sem fengist inn fyrir þessa skuldabréfasölu, mundi ríkissjóður fyrst og fremst nota til opinberra framkvæmda, en varðandi framkvæmdaáætlunina fyrir árið í ár, 1964, sem aflað hefur verið til fjár til með margvíslegum hætti, vantar nokkurt fé enn til þess að ljúka þar öllu að fullu. Nefni ég þar sérstaklega raforkuframkvæmdir, sjúkrahúsbyggingar, og nefna má nokkra fleiri liði hinna opinberu framkvæmda, sem enn þarf að afla nokkurs fjár til.

Að því leyti sem skuldabréfasalan skilaði meira fé en þyrfti á að halda til þessara hluta, er gert ráð fyrir því í frv., að það mætti nota til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs eða ríkisábyrgðasjóðs.

Í sambandi við það fyrirhugaða ákvæði, að þó að bréfin yrðu til um það bil 10 ára, þá gætu kaupendur þeirra fengið þau innleyst eftir 3—4 ár og síðar, er svo sett heimild í frv. fyrir ríkissjóð til þess að gefa út að nýju slík bréf vegna þessarar innlausnar.

Ég ætla, að fleiri orð þurfi ekki að hafa um þetta mál að sinni, en vil leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og vil um leið beina því til hv. n. og hv. dm., að þess er óskað, að frv. verði hraðað svo sem kostur er á, því að ætlunin, er að reyna að hafa þessi fyrirhuguðu skuldabréf eða spariskírteini komin á markað um 20. þ.m. Þess vegna eru það vinsamleg tilmæli til hv. n. og dm, að greiða sem bezt fyrir framgangi málsins.