21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

1. mál, fjárlög 1965

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. fyrir viku gerði ég ráð fyrir því, að við þessa 3. umr. þeirra mundi ég ræða nokkuð tekjuhlið frv. og enn fremur taka til athugunar nokkur atriði, sem fram komu í nefndarálitum og ræðum framsögumanna hinna tveggja minni hl. fjvn. En síðan hefur ríkisstj. lagt fram á Alþingi frv. til l. um hækkun söluskatts, og í grg. þess frv. og umr. um það hefur allt þetta mál, einnig fjárlagadæmið í heild, verið tekið til ýtarlegrar meðferðar. Ég sé því ekki ástæðu til þess nú að fara að endurtaka það, sem komið hefur fram í þessum umræðum í báðum deildum, auk þess sem útvarpsumræður eru nú í kvöld um þetta sama mál. Ég mun því ekki lengja þessar umr., en vil þakka fjvn. og sérstaklega formanni hennar fyrir mjög ötult starf, en í sínu mikla starfi hefur hann, eins og venja er til, starfað í nánu samráði við mig.

Varðandi tekjuáætlunina sjálfa vísa ég til þeirrar grg., sem form. og frsm. n. gaf hér áðan.