21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

1. mál, fjárlög 1965

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hafði gert ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh. mundi ræða nokkuð um fjárlagaafgreiðsluna við þessa umr., þar sem hann vék sér alveg frá því við 2. umr. málsins. En hann hefur einnig kosið að víkja sér frá umræðunni í þetta sinn, og kemur það nokkuð undarlega fyrir, en er þó e.t.v. skiljanlegt.

Ég ætla að víkja hér fyrst að till. þeim tveim, sem 1. minni hl. fjvn. flytur við þessa umr., en eins og kunnugt er, tókum við aðeins tvær till. aftur við atkvgr. um fjárlagafrv. við 2. umr. þess. Það voru till. um að taka upp 500 þús. kr. fjárveitingu til atvinnudeildar háskólans vegna endurnýjunar á rannsóknarsal deildarinnar, en í því skyni var veitt 1 millj. kr. fjárveiting á yfirstandandi fjárl. Það lá fyrir fjvn. við 2. umr., að þetta verk hefði farið 500 þús. kr. fram úr áætlun og fjárveitingu skorti til að greiða það. Við gerðum till. um, að þessi fjárveiting yrði veitt við 2. umr. málsins, en töldum þó hyggilegt að bíða átekta til 3. umr., og hefur nú n. tekið þessa till. upp og gert hana sameiginlega að sinni till. Enn fremur frestuðum við við 2. umr. málsins 200 þús. kr. fjárveitingu til byggingardeildar atvinnudeildar háskólans, en þessi deild var stofnuð á árinu 1964, og hún hefur hugsað sér að taka upp sjálfstæðar byggingarefnarannsóknir. Ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu minni við 2. umr. þessa máls, að hér er nauðsynjaverk á ferðinni, en til þess að það verði af hendi leyst, verður að veita fé til framkvæmdanna, og um það er sótt. Nú reynum við á það við 3. umr. fjárl., hvort þessi litla 200 þús. kr. till. nýtur náðar hv. þm. eða ekki. Og það kemur þá greinilega fram, hvort talið um að taka vísindin í þágu atvinnuveganna hefur við rök að styðjast eða ekki. Ef hv. Alþ. getur ekki lagt þessi 200 þús. fram í því skyni, ættu menn að hvíla sig á slíku tali næstu vikurnar á eftir.

Þá flytjum við við þessa umr. eina nýja till., sem er framkvæmdaáætlun um að koma upp íslenzku sjónvarpi. Eins og áður hefur komið fram hér í umr. á hv. Alþ., hefur það verið stefnumál okkar og áhugamál, að upp kæmi íslenzkt sjónvarp. Og okkur er ljóst, að því erlenda sjónvarpi, sem ríkir eitt hér á landi nú, verður ekki útrýmt nema með íslenzku sjónvarpi. Þess vegna leggjum við á það áherzlu, að nú verði ákveðin framkvæmdaáætlun við að koma upp íslenzku sjónvarpi, og leggjum till. þar að lútandi fram við þessa umr. fjárl.

Enda þótt hæstv. fjmrh. viki ekki að því hér áðan, hefur það komið fram í umr., bæði hér á hv. Alþingi og eins í blöðum stjórnarsinna, að við framsóknarmenn hefðum sýnt mikið ábyrgðarleysi í sambandi við tillögur okkar við 2. umr. fjárl. og sé það gagnstætt þeirri ábyrgð, sem komi fram hjá hæstv. ríkisstj. í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. Út af þessu langar mig til þess að víkja nokkrum orðum að þessum fullyrðingum og þeim ummælum, sem fram hafa komið, og því nýja viðhorfi, sem skapazt hefur með flutningi á söluskattsfrv., sem hér liggur nú fyrir til afgreiðslu í hv. Nd.

Í fyrsta lagi vil ég segja það, að ég tel, að það sé hlutverk stjórnarandstöðunnar við fjárlagaafgreiðsluna að gera meiri kröfur til fjárveitinga heldur en ríkisstj. Mér er það fullkomlega ljóst, að ef stjórnarandstaðan gerði ekki meiri kröfur en stjórnarflokkarnir, yrði hér fljótlega steinrunnið og lítið um framkvæmdir og uppbyggingu í þessu landi. Þess vegna ber stjórnarandstöðunni, ef hún er sæmilega ábyrg, að gera meiri kröfur um fjárveitingar, en hins vegar skiptir mestu máli, að það sé til góðra og nytsamlegra mála, sem fjárveitinganna er krafizt. Og ég tel, að þó að við höfum verið hófsamir í þessu, eins og ég skal leiða rök að, hafi þessi kröfugerð okkar undanfarin þing þó borið nokkurn árangur. Ég vil t.d. nefna það, að við höfum á undanförnum þingum flutt till. um hækkun til fiskileitar, síldarrannsókna og síldarleitar. Þessar fjárveitingar voru mjög lágar, en þær hafa þó hækkað ár frá ári, m.a. og kannske fyrst og fremst vegna þess, að við höfum á hverju þingi flutt tillögu um fjárveitingu í þessu skyni. Ég vil líka segja það, að það, sem náðist í vegamálunum á s.l. ári, er einnig framhald af þeim kröfum, sem við höfum haldið uppi í þessu skyni. Sama er að segja um hafnarmálin og fleiri málaflokka, þar sem nokkuð hefur áunnizt, m: a. vegna þess, að stjórnarandstaðan hefur gert kröfur til þess að sækja lengra.

Í sambandi við tillögur okkar og þetta tal um ábyrgðarleysi vil ég geta þess, að á árunum 1960—63 hafa tekjur umfram fjárlög verið á ríkisreikningum þessara ára 690 millj., og greiðsluafgangurinn hefur verið 365 millj. þetta sama tímabil. Þetta sýnir, að úr verulegum fjárhæðum hefur verið að spila og það hefur verið á rökum reist, þegar við höfum haldið því fram, að hægt væri að áætla tekjurnar hærri en gert hefur verið og þær mundu sýna sig verulega hærri en áætlun fjárl. gefur til kynna. Nú hefur því verið haldið hér fram á hv. Alþ. í sambandi við árið 1964, að það muni ekki gefa greiðsluafgang eða tekjur umfram fjárlög muni reynast þar harla litlar. Eins og kom fram við 2. umr. fjárl. hér á hv. Alþingi, hafði fjvn. ekki borizt yfirlit yfir tekjur og gjöld ríkissjóðs til nóvemberloka, eins og það lá fyrir, eða yfir neinn annan mánuð ársins. Þetta gerði það að verkum, að ekki var auðvelt að átta sig á því, hvernig staðan mundi verða á yfirstandandi ári. Nú hefur hins vegar þetta yfirlit borizt, og það sýnir, að tekjur til nóvemberloka eru orðnar 2 milljarðar 276 millj. kr., en á tekjuáætlun fjárl. voru 2 milljarðar 690 millj. kr. Nú er við þetta mál það að athuga, að á tekjuáætlun fjárl. voru áætlaðar vegna benzínskatts og þungaskatts af bifreiðum tekjur ríkissjóðs, sem voru 104 millj. kr. 1 þetta tekjuyfirlit ríkissjóðs, sem nú liggur fyrir í nóvembermánaðarlok, eru ekki teknar með tekjur af benzínskatti eða þungaskatti nema upp á 13 millj. kr., vegna þess að slíkur skattur rennur nú beint í vegasjóð, en ekki til ríkissjóðs, eins og áður var. Þetta jafngildir því, að tekjur ríkissjóðs hefðu verið áætlaðar í fjárlagafrv. um 2600 millj. kr., en ekki 2690, eins og gert var, þegar þessi tekjuliður er niður felldur og tillit er tekið til þess, sem í þessu uppgjöri er tekið með. Þegar við berum nú saman tekjur þær, sem komnar eru í nóvembermánaðarlok, og tekjur þær, sem urðu í desembermánuði s.l., þykir mér ekki óeðlilegt að áætla, að tekjur ársins 1964 fari ca. 200 millj. kr. fram úr áætlun fjárlagafrv. Mér sýnist, að allt þetta bendi til þess, að svo geti orðið, þegar þetta er tekið með í dæmið. Út af útgjaldahliðinni í þessu yfirliti, sem fyrir fjvn. var lagt um stöðuna í nóvemberlok, skilst mér, að það séu talin með öll útgjöld vegna niðurgreiðslna, en samkv. lögum, sem samþykkt voru hér í jan. s.l., var þeim tekjustofni, þeim viðbótarsöluskatti, sem þá var samþ., ætlað að greiða ríkissjóði milli 80 og 90 millj. kr. vegna of lágrar áætlunar á niðurgreiðslum og 55 millj. kr. til Tryggingastofnunar ríkisins. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef beztar fengið, er ekki farið að telja þetta með í ríkistekjunum, en hins vegar eru gjöldin, eins og þau eru orðin, talin fullkomlega í yfirlitinu sem tekjur og gjöld í nóvembermánuði. Þess vegna virðast mér þarna liggja eftir um 100 millj. kr., og þá er það mín skoðun, að það muni sýna sig sem fyrr, að tekjur ríkissjóðs reynist verulega meiri en áætlað var í fjárlagafrv.

Nú vil ég líka bæta því við, að við í stjórnarandstöðunni höfum nokkra ástæðu til þess að taka varlega tekjuáætlanir hæstv. ríkisstjórnar. Dæmin um umframtekjurnar tvö síðustu árin hef ég nefnt. En þessu til viðbótar vil ég svo taka áætlunina um tekjur ríkissjóðs á fjárlagafrv. 1965, því sem hér er nú til 3. umr. Tekjuáætlun fjárlagafrv. var upp á 3 milljarða 212.8 millj. kr. Þann 16. des. s.l. mætti á fundi fjvn. forstjóri Efnahagsstofnunar ríkisins ásamt fulltrúa sínum. Þeir lögðu þar fyrir á fundinum nýja tekjuáætlun, sem þeir töldu byggða á niðurstöðum nýjustu rannsókna um þessi efni. Og þessi tekjuáætlun lækkaði tekjuliði fjárlagafrv. um 75 millj. kr. á næsta ári frá því, sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv., þegar það var lagt fram í haust. Þess vegna sýndist útlitið öllu svartara þá en við höfðum fyrir okkur, þegar fjárlagafrv. sjálft var skoðað. Hins vegar skeði það 18. des., eða 2 dögum seinna, að meiri hl. fjvn., stjórnarsinnarnir, lagði fram nýja tekjuáætlun, sem var 37.2 millj. kr. hærri en tekjuáætlun fjárlagafrv. eða 112.2 millj. kr. hærri en tekjuáætlun forstjóra Efnahagsstofnunarinnar tveim dögum áður. Og það gerðist fleira þennan sama dag, því að hæstv. ríkisstj. var þá búin að leggja fram frv. um söluskatt og gerði ráð fyrir því að hækka hann í 8%, en lækkaði hann svo hinn 16. des. um 1/2% eða um 68 millj. kr. Þegar þessir liðir eru svo teknir saman, annars vegar lækkunin á söluskattinum, hins vegar hækkunin á tekjuáætluninni frá till. forstjóra Efnahagsstofnunarinnar, er þetta breyting upp á 180 millj. kr. Þetta er framkvæmd hinnar ábyrgu ríkisstj. og meiri hl á Alþingi á meðferð fjárlagaafgreiðslunnar hér á hv. Alþingi.

Og þá er rétt í framhaldi af þessu að bera saman ábyrgð hinna óábyrgu, eins og stjórnarliðarnir kalla okkur, sérstaklega framsóknarmennina, vegna tillögugerðar okkar hér á hv. Alþingi við 2. umr. fjárl. En till. þær, sem við bárum fram, 1. minni hl. hv. fjvn., voru upp á 157 millj. kr., því að það eru alveg ný fræði, sem stjórnarblöðin hafa tekið upp, að taka upp sem útgjöld á fjárl. það, sem samþykkt er á heimildagrein fjárlagafrv. Ef sú regla ætti að takast upp, mundu fjárl. hækka allverulega hjá hæstv. ríkisstj., og finnst okkur hv. þm., að þau hækki nóg, þótt þeirri reglu sé ekki beitt. Það þýðir, að við höfum því flutt till., sem hafa um 30 millj. kr. minni áhrif á fjárlagafrv. heldur en breyting þeirra sjálfra á tekjuáætlun frv.

En ég vil svo geta þess út af þessu tali um okkar óábyrgu afstöðu, að við fjárlagaafgreiðslu fyrri ára fluttum við samtals við 2. umr. fjárlaga 1962 og 1963 till. til hækkunar á útgjaldahlið fjárl., sem voru 93.5 millj. kr. umfram það, sem voru beinar leiðréttingar vegna niðurgreiðslna og atvinnuleysistryggingasjóðs, sem stjórnin sjálf framkvæmdi. En á þessum 2 árum urðu umframtekjur ríkissjóðs umfram fjárlög 625 millj. kr. og greiðsluafgangurinn 286.5 millj. kr. Þetta sýnir hið mikla ábyrgðarleysi okkar í stjórnarandstöðunni, að við erum með till. samtals innan við 100 millj. kr. á tveim árum, þegar fjárl. skila ríkinu yfir 600 millj. umfram áætlun. Þetta er gott að hafa í huga nú, þegar hin ábyrga ríkisstj. hæstv. leggur fyrir sín háu fjárlagafrv., og ég veit ekki, hvort það verður talið til sérstakrar ábyrgðar eða góðrar búmennsku, þegar fjárlög hækka um nærri því 1 milljarð á milli ára, eins og á sér stað frá árunum 1962—1963, ef vegamálin væru tekin með á sama hátt og gert var við fjárlagaafgreiðsluna í fyrra. Mér finnst, að þeir, sem þannig halda á fjármálum ríkisins, hafi ekki efni á því í raun og sannleika að tala mikið um ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar, auk þess sem það hefur sýnt sig, að vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur haft rúmar hendur í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, hefur eyðsla farið vaxandi í landinu, eins og ég sýndi fram á við 2. umr. fjárlagafrv., og alls konar umframgreiðslur, sem ekki hefðu átt sér stað með sama hætti, ef ekki hefði verið svo ríflega skammtað sem raun ber vitni um.

Ég vil svo þessu til viðbótar aðeins víkja lítils háttar að þeim brtt., sem við fluttum hér við 2. umr. fjárlagafrv. Við lögðum þar til að hækka til vegamálanna um 60 millj., og gerði ég grein fyrir því máli, m.a. þar sem það er stefnumál okkar framsóknarmanna, að allir sérskattar skuli ganga til vegagerðarinnar, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þegar við síðar á þessu þingi förum að afgreiða vegamálin, finnum við til þess, að fjárveitingarnar eru lágar, en þó mun það sýna sig betur, þegar fram í sækir. Ég vil taka dæmi máli mínu til sönnunar. Það er gert ráð fyrir því í vegáætluninni, sem hér liggur fyrir, að á næstu fjórum árum hækki fjárveiting til vegaviðhaldsins ekki nema um 5 millj. kr. frá ári til árs, þ. e. verði 90 millj. á árinu 1965, en í lok áætlunarinnar 105 millj. kr. Hvernig hefði nú farið, ef slík áætlun hefði gilt fyrir árin 1962—1965. Á árinu 1962 voru 60 millj. kr. veittar til vegaviðhaldsins og 62 var eytt. En nú á árinu 1965 verða það 90 millj. Hækkunin er um 30 millj. eða helmingi meira en þeir ætlast til að hækkunin verði á næstu 4 árum. Hver vill svo halda því fram, að það sé ofgert við vegaviðhaldið á Íslandi, þrátt fyrir það þó að svo stórfelld hækkun hafi átt sér stað á þessum árum miðað við það, sem á að vera. Og ég vil benda á það, að samkv. skýrslu í vegáætluninni eru áætlaðir 12.7 aurar í viðhaldið á hvern ekinn km, en á árinu 1958 eru það 5.3. Þetta sýnir okkur, hvert stefnir, á sama tíma sem bílunum fjölgar stórkostlega, þeir þyngjast og við leggjum á þá meiri skatta en áður hefur verið. Það þarf því ekki að eyða um það mörgum orðum hér á hv. Alþingi, til hvers það stefnir, ef við afgreiðum vegamálin á þann hátt, sem stefnt er að því að gera hér nú.

Ég vil líka telja, að það tilheyri ekki ábyrgðarleysi, þó að veitt sé fé, eins og við lögðum til í sambandi við jarðeignir ríkisins, til þess að ríkissjóður geti greitt þær vanskilaskuldir, sem liggja hingað og þangað í verzlunum úti á landi eða hjá þeim, sem burt eru fluttir af jörðunum, vegna eigna þeirra þar, eins og nú á sér stað. Það hefði talizt til skila og ábyrgðar að veita fjárhæðina, til þess að hægt væri að leiðrétta þetta, sem nú er í vanskilum þarna.

Ég held, að það verði ekki heldur talið til ábyrgðarleysis, þó að reynt væri að halda í horfinu með það, að ríkissjóður yki ekki skuldir sínar við hafnirnar á ný. Ég benti á það í ræðu minni við 2. umr. málsins, að það hefði nokkuð áunnizt á árinu 1964 í þá átt, en nú mun verða horfið í sama farveg með því að veita ekki fé til hafnanna, eins og þörf er á samkv. þeim líkum, sem fyrir liggja.

Ég vil líka segja það, að það var ekki okkar ákvörðun að leyfa íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni að hefja byggingu á yfirstandandi ári, en það tilheyrir ábyrgðarleysi að láta hann ekki hafa fjárveitingu til að halda verkinu áfram, eins og nú er stefnt að með fjárlagaafgreiðslunni. Sama vil ég segja um framkvæmdina á Keldnaholti, sem búið er að verja 1300 millj. kr. til. Ef ekki verður haldið áfram, er það ábyrgðarleysi að fara þannig með fé. En það er ekki ábyrgðarleysi hjá þeim, sem vara við slíkum framkvæmdum.

Það hefur verið á okkur deilt fyrir það, að við höfum ekki flutt till. til lækkunar á fjárl. Ég benti á það við 2. umr. málsins, að við töldum slíkt svo vonlítið, að við reynum það ekki. Og mér dettur í hug í sambandi við fjármálastjórn hæstv. ríkisstj. og sparnaðartal saga af Þorsteini Dalasýslumanni, er hann sagði á stríðsárunum, þegar honum fannst, að fjármálin væru farin að ganga á allt annan veg en hann hafði vanizt og hans eðli stóð til, þá varð honum að orði: „Það þýðir ekkert að vera að tala um sparnað, maður verður sér bara til skammar með því.“ Og það er í raun og veru afskaplega hjáróma að fara að tala um sparnað hjá hæstv. ríkisstj., eins og fjárreiðum er háttað nú hér á landi. Enda hef ég sýnt fram á það hér í ræðu minni áður, að einmitt það að láta hæstv. ríkisstj. hafa svo rúman fjárhag sem hún hefur haft hefur orðið til meiri eyðslu og til þess að auka enn þá meira — ja, mér liggur við að segja: glundroðann í fjármálunum, heldur en að öðrum kosti hefði verið. Þess vegna hefur raunverulega eina sparnaðarleiðin, sem fær hefur verið eða reynd hefur verið, verið sú að verja þeim fjármunum, sem af fólkinu hafa verið teknir, til sem beztra verka, þ.e. til þeirra framkvæmda, sem þjóðina vanhagar mest um og hefur mestan áhuga á. Það hefur verið bezti sparnaðurinn, sem hægt hefur verið að reyna að koma við, þó að auðvitað hafi gengið hægt að koma honum við sem öðrum sparnaði hjá núv. hæstv. ríkisstj.

Það hefur komið fram og kom greinilega fram á fjvn.-fundi, þegar efnahagsmálaráðunautur ríkisstj. eða forstjóri Efnahagsstofnunarinnar mætti þar, að sú eina sparnaðarleið, ef sparnað skyldi kalla, sem hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðar geta látið sér koma til hugar, er niðurskurður á verklegum framkvæmdum. Það kom fram hjá forstjóra Efnahagsstofnunarinnar, að það væri raunverulega leiðin, sem ætti að fara til þess að hafa áhrif á fjárlagaafgreiðsluna, og hæstv. ríkisstj. hefur nú öðru sinni leitað eftir því við þingheim, að hann gefi sér heimild til þess að mega fresta verklegum framkvæmdum, sem fé er veitt til á fjárl., ýmist á vegum ríkissjóðs eða stofnana, þar sem ríkið sjálft veitir fé til framkvæmda. Það er í samræmi við þessa stefnu að trúa á það, að raunverulega eina leiðin til þess að draga úr ríkisútgjöldunum sé að fresta þessum framkvæmdum. Ég hef gert nokkra athugun á því, um hvað mikla fjárhæð mætti skera ríkisframlögin niður, ef að þessu væri horfið. Einna fyrirferðamest á útgjöldum fjárl. að þessu sinni, sem heyra undir verklegar framkvæmdir, eru sjúkrahúsin. Undanfarin ár höfum við í till. okkar gert till. um það að auka fjárveitingu bæði til byggingar landsspítalans og eins til þeirra sjúkrahúsa, sem verið er að reisa úti á landi, og það er nú fyrst, sem verulega er undir það tekið, og fjárveitingar til sjúkrahúsabygginga á þessum fjárl. eru miklu meiri og skynsamlegar á þeim málum tekið á allan hátt heldur en verið hefur á fjárl. undanfarinna ára. Ég er sannfærður um, að það mætti samt ekki fara að skera niður neitt sem héti af þessum fjárl., nema þá láta áfram óhreyft það, sem búið er að framkvæma, því að tiltölulega lítið af þessum fjárveitingum mun fara í nýbyggingu. Og ég hygg, að þó að leitað væri nokkuð vel í fjárlagafrv. og yrði farið í niðurskurð á þennan hátt með því að skera niður fjárveitingar til sjúkrahúsa, hafna, nýbyggingar skóla, þar undir menntaskóla, og til annarra slíkra stofnana, væri kannske hægt að skera niður 100—150 millj. kr. mest, ef ætti algerlega að stöðva alla uppbyggingu í landinu. En hver vildi stefna að því að hætta að byggja hafnir, hætta að byggja skóla eða hætta að byggja sjúkrahús, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Ég held, að slík ráðstöfun mundi hefna sin mjög fljótlega og tal í þessa átt sé ekki lausnarorðið. Ef á að fara í verulegan niðurskurð á fjárl., verður að ná samstöðu um það mál, en það verður að taka þá margt til athugunar, ef verulegar fjárhæðir eiga að nást. Hins vegar mætti draga úr þeirri eyðslu, sem nú er farin að verða áberandi í ríkisrekstrinum og eykst ár frá ári. Og með því fjárlagafrv., sem nú er verið að afgreiða, virðist mér stefna óðfluga í þá átt.

Eins og ég gat um áðan, hækkar þetta fjárlagafrv. með hliðstæðum samanburði og s.l. ár um hartnær einn milljarð og það verður yfir 2600 millj. kr. hærra heldur en fyrsta fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj.

Ég vil svo að lokum undirstrika það, að það á að verða stefna stjórnarandstöðunnar að ganga lengra í ábendingum um verkefni, sem leysa þarf, heldur en hæstv. ríkisstj. Þessu hlutverki höfum við gegnt, og það er fullkomin ábyrgð að ganga á þeirri braut. Í öðru lagi vil ég segja það, að tekjuáætlun fjárl. undanfarin ár og tekjuáætlun fjárl. nú hefur sannað það og sýnt, að hím er laus í reipunum og stefnt að því að hafa verulegan greiðsluafgang, svo að það er þess vegna engum láandi, þó að henni sé hæfileg virðing sýnd. Ég vil í þriðja lagi benda á það, að við höfum í till. okkar á árunum 1962—1963 gert ráð fyrir að hækka útgjaldahlið fjárlfrv. um 80—90 millj. þau árin, sem tekjur fóru um 625 millj. kr. fram úr áætlun. Ég vil í fjórða lagi benda á það, að till. okkar nú við fjárlagaafgreiðsluna, 1. minni hl. fjvn., eru um 30 millj. kr. lægri en breyting stjórnarsinnanna á fjárlagaáætluninni. Og ég vil í fimmta lagi undirstrika það, að till. okkar eru ekki miðaðar við nýjar álögur, heldur til þess að sporna við eyðslu og að þeir fjármunir, sem af þjóðinni eru teknir, verði notaðir til gagns fyrir þjóðina og í uppbyggingu í okkar mikið óuppbyggða landi. Ég vil svo í sjötta lagi taka fram, að það var alger óþarfi að leggja nú á nýjan skatt, ei hert hefði verið innheimta á söluskatti þeim, sem nú er í gildi. Það kom fram á fjvn.-fundinum, sem forstjóri Efnahagsstofnunarinnar kom á og fulltrúi hans, að innheimta á skattinum er verri á yfirstandandi ári en verið hefur undanfarin ár, og það verður að rekja beint til þess, að skatturinn var hækkaður. Það sýnir sig, að þá skilar hann sér verr, og með því að hækka hann enn þá meira verða heimturnar enn þá verri. Og í sjöunda lagi vil ég taka það fram, að ef það var skoðun hæstv. ríkisstj. í upphafi þessa þings, að það yrði að hækka söluskattinn eða auka tekjurnar, eins og hún hefur gert till. um, bar henni skylda til að leita eftir samstöðu á hv. Alþingi um að taka fjárl. til gagngerðrar endurskoðunar með niðurskurð fyrir augum. Það hefur verið gengið svo langt í skattheimtu hæstv. ríkisstj. á þjóðina, að það var óhugsandi með öllu að bæta þar hundruðum millj. á til viðbótar. Þess vegna bar hæstv. ríkisstj. að leita eftir samstöðu og gera þinginu grein fyrir því, að hjá því yrði ekki komizt annað tveggja, að skera niður eða fara þá leið, sem hún hefur farið öllum á óvart síðustu daga þingsins.

Þess vegna vil ég enn á ný undirstrika það, að hæstv. ríkisstj. og hennar málgögnum ferst ekki að tala um ábyrgðarleysi. Það er hennar stefna, sem hefur ráðið og verið að verki, þegar fjárl. hækka milljarð eftir milljarð. Það kemur fyrir, að Alþýðublaðið kemst stundum sniðuglega að orði, og maður hefur stundum tilhneigingu til þess að álykta, að það sé tilviljun, að svo er. Ein slík tilviljun henti það ágæta blað, Alþýðublaðið, nú miðvikudaginn 16. sept. Á forsíðu sagði það frá söluskattshækkuninni í 8%. En inni í blaðinu er leiðari, sem heitir „Í sjálfheldu“. Leiðari þessi er að vísu skrifaður norður á Akureyri, en þar segir frá því, að sauðkindin, sem er hin hyggnasta skepna, en hefur ekki verið hælt fyrir skynsemi og aðra slíka hluti, geri það stundum í góðu tíðinni á sumrin að leita til bjargar inn í klettabeltin, hún uggi ekki að sér, fyrr en hún sé komin í sjálfheldu, komist hvorki áfram né aftur á bak. Það fari misjafnlega um kindina í sjálfheldunni, stundum heppnist henni að finna leið að lokum, en venjulega er endirinn sá, að annaðhvort er hún skotin niður úr klettunum, og það er talið mikið kærleiksverk, eða þá hún dregst þar upp og hrapar að lokum.

Ég get ekki neitað því, að þegar ég las þennan leiðara, leit á forsíðuna um stefnu og störf hæstv. ríkisstj., fannst mér samhengið geysilega mikið. Og því er ekki að neita, að það er sótt í sömu átt, óhugnanlega í sömu átt og hjá kindinni í sjálfheldunni. Í staðinn fyrir að leita að leiðinni til baka, er sótt lengra í ófæruna, meiri sjálfheldu, og endalokin í fyrra tilfellinu eru okkur í flestum tilfellum kunn. Hæstv. ríkisstj. hefur með frv. sínu um hækkun á söluskatti sótt enn þá lengra í sjálfhelduna, og ég ætla ekki að spá því, hver endalokin verða þar.