21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

1. mál, fjárlög 1965

Björn Pálsson:

Herra forseti. Undanfarin ár hafa fjárlög farið hækkandi og útsvör einnig. Það er nú þannig með útsvörin, að þau eru háð löggjafarvaldinu, og meginið af þessu, sem greitt er af bæjarfélögunum, er meira og minna bundið af löggjöfinni, þannig að það er ekki hægt að neita því, að þing og stjórn bera höfuðábyrgðina á því, hve mikil útgjöldin eru og hvernig þeim er hagað. Sú breyting varð í stjórnartíð núv. stjórnar, að þetta var fært saman, þessi gjaldheimta, átti sennilega að vera til þess, að það væri betur gert og ódýrar. En reynslan hefur orðið sú, að það hefur aukið kostnaðinn, þannig að það hefur hækkað mjög mikið sá liður um innheimtu tolla og skatta, og þar að auki hygg ég, að þetta sé verr gert. Það var nú svo í dreifbýlinu, að þetta var yfirleitt unnið fyrir lítið, og þeir litu víðast hvar furðuvel eftir því, að þetta væri nokkurn veginn í lagi. Við þessa samanfærslu er erfiðari aðstaða. Skattheimtumennirnir eru minna kunnugir, aðstæðurnar eru þess vegna verri. Þar að auki er gjaldheimtan færð saman, þannig að þegar fólkið er krafið um skattana, er þetta allt á einum seðli og upphæðirnar verða nokkuð stórar, og það kemur mönnum í illt skap, þegar þeir fá þessa seðla, og ég gæti hugsað, að það yrði til þess að rýra frekar fylgi núv. ríkisstj., þannig að þessar ráðstafanir yrðu fjárhagslegt tap fyrir ríkið og atkvæðatap fyrir ríkisstj. Ég er sannfærður um, að Reykvíkingar hefðu ekki orðið jafnvondir í sumar, þegar þeir fengu sína gjaldheimtumiða, ef það hefði aðeins verið á honum skatturinn, en ekki útsvarið líka. Það er þannig með eðli manna, að þegar þeir fá þetta í einu, ofbýður þeim það. Fjárl. hafa farið hækkandi og eru nú 3523 millj., og það er ólíklegt annað en þau hækki, þannig að þau verði um 3700 millj. Sennilega verður það. Við þetta bætast svo gjöld til vega, tryggingagjöld og útsvörin, þannig að heildarútgjöld þjóðarinnar verða sennilega eitthvað yfir 5 milljarða. Nú má gera ráð fyrir því, raunar er ekki hægt að fullyrða um það, hverjar þjóðartekjurnar verða í ár og ef til vill aldrei, því að hagstofustjóri hefur sagt mér, að það sé alls ekki hægt að segja ákveðið um það, en sennilega verða þjóðartekjurnar eitthvað kringum 11—12 milljarða, það er ekki ólíklegt. Og þá fara 5/11 hlutar eða rúmlega það í opinber gjöld hjá fólkinu, og það er eðlilegt, að fólkið finni fyrir þessu.

Nú er það þannig, að það hefur verið mikið deilt um, að útgjöldin séu há, en það er lítið gert að því að koma fram með lækkunartillögur. Nú má öllum vera ljóst, að ekki er hægt að lækka útgjöldin nema minnka eyðsluna, það er útilokað. Það er aðeins hægt að deila um, á hv ern hátt eigi að skipta útgjöldunum milli þegnanna. Og þó að mikið sé talað um undandrátt og annað slíkt, er ég ekki viss um, hvað þessi nýja skattalögregla finnur mikið, því að flestir þeir, sem hafa dregið undan, eru vel að sér í þeim hlutum og ekki ólíklegt, að þeir geti falið það áfram, a.m.k. að nokkuð miklu leyti. Það hefur aldrei verið hægt að jafna sköttum fullkomlega réttlátlega niður. Vitanlega fer þetta til fólksins aftur, þessi miklu útgjöld, á ýmsan hátt. En það, sem skeður, er það, að þessi mikla innheimta, að innheimta svona mikið af tekjum einstaklinganna, er engin sönnun fyrir því, að það komi réttlátlega niður, og svo er því deilt út, og það verður oft ágreiningur um það. Þetta rennur til fólksins aftur í tryggingagjöldum og í niðurgreiðslum á vörum, þetta eru nú stærstu liðirnir, og svo ýmis kostnaður við ríkisreksturinn, opinber störf og annað, og þetta fer í framkvæmdir o.fl. En það má deila um, hvort þetta er ekki of mikið, og mín skoðun er sú, að gjöldin séu orðin of há. Þá þarf að athuga, hvað hægt er að gera til að lækka þau. Í raun og veru er það ekki nein lausn á málinu að heimta alltaf meira og meira í framkvæmdir og annað, en bera ekki fram neinar till. um bættan rekstur eða lækkun útgjalda á neinu sviði. Og það er þannig með okkur, þessa þm., að við erum allir að reyna að vinna fyrir okkar héruð og pota einhverju áfram, eftir því sem við höfum vit og getu til, og kröfurnar eru því frá okkur að nokkru leyti.

Þegar rætt er um þessi mál, þarf að taka þau raunhæft og rólega. Ég hef farið yfir fjárl., ég hef flett þeim og athugað lauslega hina ýmsu liði og verið að hugsa um, hvað hægt væri að laga og hægt væri að lækka, því að eins og ég sagði áðan, er ekki hægt að lækka útgjöldin í heild á fólkinu öðruvísi en minnka eyðsluna, og satt að segja datt mér í hug, þegar ég fór yfir þetta allt saman, að hausinn á þessu frv. ætti að vera: „Farið heilar, fornu dyggðir“, því að þegar ég var unglingur, var það brýnt fyrir okkur, að menn ættu að vera nýtnir og sparsamir, maður mátti engu eyða, sem ekki var alveg nauðsynlegt. En nú eru allir, sem minnast á sparsemi, þeir eru kallaðir afturhald, íhald, og menn þora varla að nefna þetta orð.

En það kom þó fyrir hjá hv. 3. þm. Reykv., Einari Olgeirssyni, að hann fór að tala hér um sparnað um daginn, og það eru eiginlega farin að verða endaskipti á hlutunum, þegar Einar Olgeirsson talar um sparnað, en enginn af sjálfstæðismönnunum minnist á sparnað hér í ræðustól a.m.k. , þá virðist þetta vera farið að snúa allöfugt. Raunar benti hv. 3. þm. Reykv. ekki á annað atriði en færa ekki á rekstrarreikning ýmsar byggingarframkvæmdir á 20. gr., og það er satt, þar er talað um allmiklar byggingarframkvæmdir, þ. á m. 20 millj. til landsspítalans og til ýmissa skóla. Og það má náttúrlega deila um það, hvort rétt sé, að ríkið greiði þetta á einu ári. En þó er þetta ekki nein veruleg lausn, því að þetta þarf þá að greiða síðar. En það er sannleikur, þetta er þess virði, að það sé athugað.

Ég verð að segja það, að í umr. um þennan nýja skatt, það skal ég játa, fannst mér Alþb-.mennirnir tala sanngjarnlega um þá hluti, og ég hef ekki í annan tíma verið ánægðari með þeirra málflutning. En það, sem allir forðast, er að minnast á, hvar eigi að spara. Það vill enginn nefna neitt. Og það er af því, að það er ekki hægt að spara öðruvísi en það komi við einhvern. Þetta er eins og þegar köttur læðist kringum heitan graut eða heitt vatn, eins og forsrh. hæstv. orðar það. En þetta er óraunhæft. En af því að stjórnmál eru nú svo lítill liður í mínu lífi og skipta mig svo litlu máli, er ég að hugsa um að nefna ýmislegt, sem mér hefur dottið í hug að gæti verið gerlegt að spara.

Ég hef ekki verulega trú á því, að það verði um mikinn tekjuafgang hjá ríkissjóði að ræða. Ég hef ekki haft aðgang að það miklum gögnum, að ég geti neitt fullyrt um þetta. En eftir því sem kemur fram í Hagtíðindum, er staða ríkisins við Seðlabankann í septemberlok um 246 millj. kr. lakari en á sama tíma í fyrra, og það bendir til þess, að það verði ekki meira en að ríkissjóður sleppi í ár. Má vera, að þetta breytist á þann hátt, að það hafi gengið verr að innheimta, ég skal ekki fullyrða það, en það má þá muna miklu, ef það á að verða um mikinn rekstrarafgang að ræða. Ég held því, að við getum ekki heimtað það, að skattarnir séu lækkaðir með það fyrir augum, að það verði svo mikill tekjuafgangur í ár. En hitt er satt, að það var tekjuafgangur árin 1962 og 1963. Ég hef ekki heldur verulega trú á því, að tekjurnar muni reynast miklu meira en gert er ráð fyrir miðað við gjöld á fjárl., sem nú liggja frammi. Þó skal ég játa, að mig skortir kunnugleika og gögn til þess að geta fullyrt um slíka hluti. En mér finnst einhvern veginn, að það sé mikið vafamál, þannig að ég hygg, að það sé ekki hægt að greiða atkv. á móti þessum sköttum á þeim grundvelli, að tekjuliðirnir á fjárhagsáætluninni séu áætlaðir of lágir eða um mikinn tekjuafgang verði að ræða í ár. Ég hef enga trú á, að þær forsendur haldi. Hækkunin á fjárl. nú hefur verið geysilega mikil. Það er raunar ekki rétt, að það séu 900 millj., eins og sagt var hér áðan, því að fjárl. í fyrra voru óraunhæf að því leyti, að það voru gerðar ýmsar ráðstafanir eftir áramót viðvíkjandi sjávarútveginum, eins og framlag til togara og aðstoð við sjávarútveginn og hækkun tryggingagjalds, þannig að raunveruleg fjárlög voru allmiklu hærri en gengið var frá þeim fyrir jólin. En þrátt fyrir það, þó að tekið sé tillit til þess, hafa fjárl. hækkað sennilega um 600 millj. kr., og þetta er gífurleg hækkun, og ef þessu fer fram, sjá allir menn, að boginn er spenntur um of. Það hefur verið sífelld hækkun á fjárl. undanfarin ár. Þó að tillit sé tekið til þess, að gengi krónunnar hefur breytzt, er hækkunin geysimikil. En þegar þetta er borið saman, hefur ekki verið tekið nægilegt tillit til þess, og það sjá allir menn, að ef þessu heldur áfram, nær þetta engri átt, og ég held satt að segja, að ef ríkisstj. hefur einhvern tíma verið í hættu, þá sé það nú, þá séu það þessi miklu gjöld, sem hún er í hættu fyrir. Það sagði einn góður sjálfstæðismaður, einn af framámönnum þeirra, við mig í sumar: Ríkisstj. gat boðið fólkinu upp á gengislækkun og vaxtahækkun og allt nema þessi blessuð gjöld. Þá ofbauð fólki. Vera má, að þetta sé bundið við fáa einstaklinga og það sé ekki hægt að fullyrða um heildina.

Ég held nú samt, að nú sé boginn orðinn svo spenntur, að það sé um of. Aðalhækkunin er á niðurgreiðslunum, þ.e. 306 millj., félagsmál 76 millj., sem kemur bæði af því, að fólkinu fjölgar, og eins vegna þess, að kaup hækkaði. Dómgæzla hefur hækkað um 30 millj. og virðist vera geysileg hækkun. Kostnaður við innheimtu skatta hefur hækkað um 14 millj. Þetta er miðað við síðustu fjárlög. Og til kennslumála hafa hækkanir orðið 73 millj. landbúnaður hefur hækkað um 60 millj. Sjávarútvegur breytist á fjárl., svo að það er ekki hægt að miða við það. Og til raforkumála hefur hækkað um 39 millj. Svo koma þessar blessaðar 42 millj., sem eiga að koma vegna þess, að gert er ráð fyrir, að kaupið hækki vegna vísitöluhækkunarinnar. Samgöngur á sjó hafa hækkað um 8 millj. Eitt af því, sem ríkisstj. ætlaði að gera, var að endurskoða allt viðvíkjandi Ríkisskip og allan þann rekstur, en það hefur ekkert borið á því, að sá rekstur lagaðist. Ég er í þessari blessaðri bátanefnd, og satt að segja skrifaði ég undir með fyrirvara, og er rétt, að ég geri grein fyrir því, af hverju sá fyrirvari var. Hann er af því, að það er styrkt skip hér, Akraborg heitir það víst, sem fer upp á Akranes og flytur aðallega fólk, og þeir þurfa eiginlega 2 millj. til að geta rekið þetta skip. Það er hætt að flytja mjólk og vörur með þessu skipi. Og satt að segja finnst mér þetta alveg óþarfi. Fólkið getur ferðazt á bílum eins og við norðan úr Húnavatnssýslu. Ríkið þarf ekki að eyða mörgum millj. í þetta, það mætti gera eitthvað annað við þetta skip. En það er mál út af fyrir sig. En ég hygg, að það sé þannig víðar, að megi nota meiri ráðdeild. Það er Efnahagsstofnun hér á landi. Þeir, sem þar starfa, eiga að leiðbeina ríkisstj. Ég vil ekki taka undir það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, þegar hann var að líkja þeim við blinda kettlinga, því að þetta eru gáfaðir menn. En ég held satt að segja, að það veitti ekki af því, að ríkisstj. hefði 1—2 menn, sem ferðuðust um. Það yrðu að vera menn, sem væru fæddir hagfræðingar, þannig að þeir væru hagsýnir, ekki aðeins að þeir hefðu hagfræðipróf, heldur væru það hagsýnir menn, til þess að líta eftir og athuga, hvað hægt væri að gera til þess að gera ríkisreksturinn ódýrari, skipuleggja hlutina betur.

Ég held, að það sé einn af aðalgöllunum hjá okkur, hvað allt er illa skipulagt. Við skulum taka félagsheimilin, sem ríkið á að borga 40% í. Þau eru byggð gersamlega skipulagslaust. Og hvaða vit er í þessu? Þegar ríkið leggur svona mikið fram, á það að hafa íhlutunarrétt, og það á að ákveða, hvar þurfi helzt að byggja félagsheimili, hvar þau skuli vera staðsett og hve mörg þau eigi að vera, hvernig á að byggja þau, og gera þetta af einhverju viti. Eins er með sjúkrahúsin, þetta er skipulagslaust. Það er alls ekki gerð nein heildaráætlun um, hve þau eigi að verða mörg og hvar þau eigi að vera staðsett. Þannig er með skólana. Þetta er fálm út í loftið. Hver kemur með sínar kröfur. Þetta þarf allt saman að athuga og skipuleggja. Vitanlega þurfa skólarnir að vera hæfilega stórir, til þess að reksturinn sé sem ódýrastur. En það er ekki von, að ráðh. geti þetta sjálfir að öllu leyti, því að þeir eru uppteknir af daglegum störfum. Þess vegna þyrftu þeir að hafa sér til aðstoðar 2—3 menn eða starfandi nefnd, en ekki eingöngu þessa herra, sem sitja inni á einhverri Efnahagsstofnun inni í stofum, fara lítið út um landsbyggðina, kynna sér ekki hlutina, en reikna út, hvað gengi eigi að vera og hvort eigi að taka skattana með söluskatti eða beinum sköttum. Það þarf að fylgjast með hlutunum og athuga, hvernig á að framkvæma þá, af mönnum, sem hafa aðstöðu og tíma til að kynna sér þá og vit til að sjá, hvað viturlegt er að gera. Þetta skipulagsleysi er svona á öllum sviðum. Þannig er þetta í uppbyggingu atvinnuveganna líka. Skipakaupin eru í raun og veru skipulagslaus.

Segja má, að það sé einnig skipulagsleysi í landbúnaðinum. Það er lánað til allra framkvæmda. Það er lánað jafnt út á fjárhús sem fjós án tillits til þess, hvort það er þörf á fleiri kúm eða ekki. Nú er það þannig, að það er framleidd miklu meiri mjólk heldur en þarf í landinu, og þetta er flutt út fyrir sáralitið verð. Ef eitthvað væri farið skynsamlega að þessu, ætti að steinhætta að lána út á fjós, þangað til mjólkin er fullnýtt, sem er í landinu, og auka sauðfjárræktina, því að það er minni níðurgreiðsla á hana. En það er allt skipulagslaust og ekkert ákveðið. Ef þetta væri gert, gæti ríkissjóður sparað sér þó nokkra. fúlgu, með því að það minnkuðu útflutningsuppbæturnar, og ég er sannfærður um það, að mjólkin, sem flutt er út, er minna virði en fóðurbætirinn, sem er fluttur inn, þannig að þjóðfélagslega séð er þetta bara hrein endileysa. En þetta getur ríkisvaldið haft í hendi sinni gegnum lánastofnunina, ef það bara vill. En þetta kostar vinnu, og það er ekki að búast við, að einstakir ráðh., sem eru uppteknir á Alþingi og í daglegum störfum, geti annað því að fylgjast með öllu slíku. En það er svona með alla hluti.

Ég er enginn kommúnisti. En ég er í raun og veru að því leyti sammála Einari Olgeirssyni, að ég vil hafa frelsið sem mest. En það er bara þannig með mig, að ég er að basla í þessum flokki, sem ann frelsi og vinnur fyrir frelsi, en hann hefur þjónað þeim flokki, þar sem ríkiseinræði og ríkisvald er ótakmarkað. Hann vinnur nefnilega á móti sannfæringu sinni, en ég vinn með henni. En ég er sammála honum um það, að við þurfum að skipuleggja allt betur en gert hefur verið hjá okkur og af meira viti. En ég vil gera það bara á lýðræðislegan hátt, en ekki með lögregluvaldi. Þetta getur ríkisvaldið, ef það bara vill, og við höfum engin efni á að búa svona. Það er hægt að spenna bogann, og það er hægt að eyða miklu í góðæri, en það er útilokað að gera það, ef eitthvað kemur fyrir.

Ég fór yfir hina einstöku liði fjárl. og var að athuga, hvað mér virðist vera hægt að spara, og ég er sannfærður um, að það má margt spara. En það er ekki til neins að ætla þm. að koma með till., það þora þeir ekki, þeir eru svo hræddir um þingmennskuna. Ég veit ekki heldur, hvort stjórnarandstaðan hefur áhuga á því heldur, að vel gangi í ríkisstj. A.m.k. eru þeir sparir í stjórnarandstöðunni að miðla neinu af viti. Ég ásaka ríkisstj. fyrir ýmislegt, eins og eðlilegt er og alltaf gengur. Mér hefur dottið í hug, að réttast væri að byrja að spara á toppinum, því að það er þannig, að þó að það skipti afar litlu máli, hvernig húsbóndinn breytir fjárhagslega, réttara sagt, hvort hann eyðir miklu eða litlu, þá hefur þetta móralska þýðingu. Mér hefur dottið í hug, að það ætti að byrja á toppinum að reyna að spara eitthvað. Það væri t.d. vel gerlegt að hafa ekki nema 6 ráðh. Sömuleiðis er ég sannfærður um, að ráðh. þyrftu ekki jafnmarga bílstjóra og þeir hafa. Það er mikil fyrirmynd hjá okkar hæstv. landbrh., eins og annað hjá honum, að hann ekur sínum bíl sjálfur, og má mikið af því læra. Sannleikurinn er sá, að bílstjórinn og bíllinn kostar miklu meira en ráðh. Svo þurfa þessir aumingja menn að bíða eftir því, hvenær ráðh. þóknast að stiga upp í bílinn. Ég hef oft haft samúð með þeim hérna á göngunum og sagt við þá, að það væri miklu lífrænna og skemmtilegra að vera fjósamaður hjá mér heldur en húka þarna. En það er meira en ráðherralaun, sem fer í þetta. Sömuleiðis þyrftu ekki endilega að mínu áliti allir ráðh. að hafa bíl, heldur væri hægt að aka þeim í einu, skjóta tveimur heim til sín í einu, en þetta eru dýr verkfæri og þurfa gott viðhald, og þeir mega ekki verða gamlir, því að þá þarf að fá nýja Buicka. En þetta skiptir ekki svo miklu fjárhagslega, en móralskt séð væri hægt að hafa þetta öðruvísi. Sömuleiðis er engan veginn útilokað að fá stöðvarbíl til þess að aka ráðh., ef á liggur, og borga þá bara upp í reikning. Það yrði ábyggilega ódýrara en að hafa bíðandi bílstjóra og bíl eftir sér, hvað sem þeir eru að gera, þessir blessaðir ráðh. Þetta er ekki af því, að ég sjái eftir þessum aurum eða telji þetta mikið atriði. Þetta gæti bara verið fyrirmynd fyrir aðra. Ég er t.d. alltaf í 17 ára gömlum bíl, jeppagarmi, til þess að sýna, hvað ég sé sparsamur og nýtinn á hlutina, og ég er viss um, að ég fæ fleiri atkvæði fyrir það, þegar ég er í kosningum.

Mér líkaði margt vel hjá Alþb.-mönnum um daginn og þá m.a. með sendiráðin. Það sjá allir lifandi menn, að það þarf ekki þrjá sendiherra á Norðurlöndum, við höfum ekki þau óskapa viðskipti við þau, og þetta eru yfirleitt uppgjafa fyrirmenn, sem eru settir þarna, og ekki mjög stórstígir, þó að þeir þurfi eitthvað að hreyfa sig. En ég er viss um, að það væri hægt að komast af með einn sendiherra, og meira að segja hefði hann bara gott af því, að hann hreyfði sig meira, ef hann þyrfti að fara á milli landanna. Hann lifði lengur, blóðið yrði þynnra. Þó að þetta sé ekki mikið atriði, væri hægt að gera ýmislegt til sparnaðar á þessu sviði. Þetta gæti verið fyrirmyndin, og þarna ætti að byrja. Sömuleiðis þyrfti ekki endilega allar þessar n. og sendimenn, sem fara til annarra landa. Það væri hægt að hafa þá eitthvað færri og jafnvel sleppa stöku ferð, þó að ég vilji engan veginn gera lítið úr því, að við eigum að vera með í alþjóðasamtökum og ekki einangra okkur.

Þá held ég, að við gætum skipulagt okkar skólamál og félagsmálastarfsemi betur. Ég minntist áðan aðeins lauslega á sjúkrahús og fleira. Ég er sannfærður um, að við gætum eitthvað sparað þar. Þeir sögðu mér, að það hefði einhver Norðmaður komið hér og athugað þessi mál með Ríkisskip, hvað þau bæru sig illa, og hann hefði séð ótalmargt að. Það væri ákaflega mikils virði að fara að framkvæma eitthvað af þessu, hagsýni í rekstri viðvíkjandi þessum bátum og skipum ríkisins, sem ganga í kringum landið. Það er búið að stórhækka fargjöldin og flutningana. Ég er ekki viss um nema mætti spara þar, og ég skil ekki í ríkisstj. að vera ekki búin að því, þegar þessi Norðmaður sat hér og gaf henni ráð. Þá held ég einnig, að það væri hægt að spara eitthvað á skattheimtunni, því að hún hefur hækkað svo mikið, og jafnvel lofa bændunum að reikna út skattskrárnar, eins og þeir gerðu, og hreppsnefndunum að jafna niður útsvörunum, því að þær tóku yfirleitt ekkert fyrir þetta, og þeim var ekkert of gott að æfa, sig í reikningi á þessu. Þeir höfðu yfirleitt ekki vélar, þetta liðkaði þá í margföldun, og þeir höfðu gaman af þessu, svo að ég held, að það hafi ekki verið af neinni hagsýni hjá hæstv. fjmrh., þegar hann fór að svipta þá þeim störfum, hvorki fyrir ríkissjóðinn né þá sjálfa. Ég gæti bezt hugsað, að þessi breyting yrði til þess að hafa mörg atkv. af hæstv. stjórnarflokkum.

Þá er ég sannfærður um, að á 14, gr. mætti stórspara. Þar er hrúgað ýmsu inn, sem mætti gjarnan fella út.

15. gr. er um kirkjumálin, og þau eru óskipulögð eins og fleira í okkar góða landi. Prestarnir eru óþarflega margir. Þetta er allt annað nú en áður fyrr, þegar samgöngurnar voru allt aðrar og þeir urðu að ferðast á hestum á milli. Nú er kominn bílvegur, og þeir fá víst bílastyrk meira að segja og eru enga stund á milli kirknanna. Það hefði þurft að endurskipuleggja allt þetta kerfi, og ég er viss um, að á þeim lið mætti spara margar milljónir. Prestunum er engin þægð í því að hafa þetta svona. Ég er sannfærður um, að þeir vilja hafa fullt starf, og þeir eiga að hafa fullt starf og svo á að borga þeim sómasamlega, eins og farið er að gera, en þá eiga þeir líka að vinna fullt verk.

Ég álít, að ef við hefðum einhverja nefnd til þess að aðstoða ráðherra við að framkvæma hagkvæmni í ýmsum rekstri, ættu þeir að athuga hverja einustu ríkisstofnun, hvort þar er vel unnið, hvort það er hægt að fækka fólki eða haga vinnunni af meiri hagkvæmni, að það sé ekki verið að dunda að deginum til þess að hafa sem mesta eftirvinnu, og láta þá fara, sem illa vinna, fylgjast sem sagt með, hvernig unnið er hjá stofnunum ríkisins. Ég efast um, að þetta sé gert eins og skyldi. Á þann hátt væri hægt að fækka eitthvað starfsliðinu, því að ríkisbáknið sjálft er orðið allt of þungt, eða a.m.k. finnst gjaldendunum það.

Á 16. gr. má margt spara. Ég þori varla að fara mikið út í það, af því að þar er sjávarútvegur og landbúnaður og iðnaður, vil ekki kveða upp úr um margt, en ég sá marga liði, sem má gjarnan spara. Það er t.d. ákaflega vafasamt, hvort ríkið á að vera að fleygja 8—9 millj. í skógrækt. Ég hef ekki trú á því, að skógrækt hafi nokkurn tíma fjárhagslega þýðingu fyrir Íslendinga, og það er spurning, hvort við ættum ekki að láta héruðin annast um þetta og láta þau hafa einhvern smástyrk. Þetta ættu sýslunefndirnar að gera eða sýslufélögin. Og það er mikil spurning með sandgræðsluna, hvort við ættum ekki að láta sýslufélögin annast framkvæmdina og ríkið styrkti þau sýslufélög, þar sem þyrfti mikið að gera, því að sannleikurinn er sá að hlutverk sýslufélaganna er orðið lítið í þjóðfélaginu og sýslunefndir hafa hér um bil engin verkefni.

17. gr. er um félagsmálin. Þau hafa hækkað upp úr öllu valdi undanfarin ár, eins og niðurgreiðslurnar á kjöti og mjólk. Það eru þessir tveir liðir, sem hafa hækkað langmest, og þar er ég sannfærður um að má spara mjög mikið. Til atvinnuleysistrygginga eru ætlaðar 49 millj. Annað eins er pínt út úr bæjarfélögum og fyrirtækjum í landinu, þannig að það eru píndar út úr fólkinu 100 millj., og þessu er safnað í atvinnuleysistryggingasjóð, og þar að auki eru allir vextirnir, þannig að hann fer nú að vaxa um hálft annað hundrað millj. á ári. Það verður ekki langt þangað til hann fer að vaxa um tvö. Þetta er allt saman pínt út úr fólkinu. Þetta var gert af umhyggju fyrir verkalýðnum á sínum tíma. En þetta getur gengið úr hófi. Þetta kemur niður á fyrirtækjunum og fólkinu. Það verður að borga þetta allt saman. Þetta er að verða plága. Þetta er einn liðurinn í þessum háu útgjöldum. Ef við lækkuðum þetta, gætu útsvörin lækkað og ríkisútgjöldin líka. Þetta er óþarfi, það er nægilegt, sem atvinnuleysistryggingasjóður vex af vöxtunum, og miklu meira en það. Og ég held, að þessir fulltrúar verkalýðsins ættu nú að beita sér fyrir því að hætta að leggja í þennan sjóð meira, því að þetta eru skattar, sem lagðir eru á fólkið. Það er ekki hægt að gera hvort tveggja, skammast út af háum sköttum og vilja svo ekkert gera til að lækka þá. Þetta fé er lánað í ýmsa þarflega hluti, til húsabygginga o.fl. Það er hægt að fá það lán á frjálsum markaði. Treysti fólkið verðgildi peninganna, þá koma þeir í bankana. Spariféð hefur stóraukizt á þessu ári. Ég er ekki í vafa um, að samningarnir í vor áttu sinn þátt í því. Fólkið fór að vona, að gengi krónunnar yrði stöðugt, og það var hægt að fá sparifé á frjálsum markaði. Það sýndi sig, þegar ríkisstj. bauð út vísitölubréfin, þau flugu út. Mér fannst óþarfi að vera að skamma hæstv. ríkisstj fyrir þau, því að í sannleika sagt tel ég það vera tilraun til þess að gefa fólkinu tækifæri til þess að geyma heiðarlega peningana, spariféð sé ekki verðfellt fyrir því, eins og gert hefur verið. Það er ekkert annað en eignarrán að taka við sparifé til geymslu, eins og ríkið hefur gert, og fella það svo um mörg hundruð prósent, eins og krónan hefur fallið undanfarna áratugi. Það væri kallaður þjófnaður hjá einstaklingi. En ég álít ekki rétt að skamma ríkisstj. fyrir, að hún sé að kenna mönnum að stela undan. Það er ekkert nema vitleysa, því að það máttu allir geyma peninga sina án þess að telja þá fram. Ég álít, að þetta sé heiðarleg og skynsamleg stefna, að selja gengistryggðu bréfin, þannig eigum við að afla rekstrarfjár til framkvæmdanna, en ekki með því að skylda bankana til að leggja einhverja ákveðna upphæð fram eða nota aðrar slíkar leiðir að skattleggja þegnana um of til þess að fá rekstrarfé, eins og hefur verið gert og er gert í stórum stíl, bæði gagnvart Búnaðarbankanum, fiskveiðasjóðnum, Iðnaðarbankanum og loks með þessum atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta er skattpíning og á sinn þátt í þeim miklu útgjöldum, sem fólkið verður að greiða. Það er eðlilegra, að meira og minna af þessu fé sé fengið með frjálsri sparifjársöfnun, og hún mundi að mestu nægja, ef fólkið getur treyst því, að gengið sé ekki fellt.

Það var hárrétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér í ræðu um daginn, að það voru húsabraskarar og bílasalar, sem urðu glaðir, þegar söluskattsfrv. kom. Það var satt, sem hann sagði. Þeir hafa sagt mér það, fasteignasalar, að þetta hafi verið mjög slæmur tími frá því í vor, að samið var um kaupið. Menn hægðu á sér að kaupa húsin. Þeir héldu, að verðið mundi verða stöðugra og það lægi ekkert á, og þeir, sem lágu með bílana, geta selt þá nú, þegar menn eiga von á þessari hækkun á bíla. Þetta var alveg laukrétt hjá hv. 3. þm. Reykv.

Ég held, að ekki sé ástæða til að greiða fjölskyldubætur með 2 fyrstu börnunum. Fólk, sem hefur sæmilega vinnu, eins og það hefur nú sem betur fer, það getur vel séð fyrir tveimur börnum, og jafnvel hjón eyða ekkert meiru, þótt þau eigi tvö börn, heldur en þótt þau séu barnlaus. Þau tolla meira heima, og þeirra líf verður öðruvísi, og ég hygg, að fjárhagur fólks verði ekkert lakari, þó að það eigi börn, heldur en þótt það sé barnlaust. En það er vitanlega ómögulegt að spara, án þess að það komi við einhvern. Ef fjölskyldubæturnar væru felldar niður með tveim fyrstu börnunum, yrði þar sennilega um 100—120 millj. kr. sparnað að ræða fyrir ríkissjóð.

Það er talað um það og búið að tala mikið um þennan blessaða söluskatt, og satt að segja held ég, að ríkisstj. breyti ekki rétt þar. Það er rétt, að það hefur ekki allt að segja, hvort vísitalan hækkar um 3 stig vegna þessa söluskatts og kaupið hækkar um 3 stig. Fólkið á að fá þetta bætt. En hin mórölsku áhrif hafa mikið að segja. Mér finnst Alþb.-mennirnir og aðrir þeir, sem hafa talað hér fyrir hönd vinnandi manna, sýna mikla sanngirni og hafa vilja til þess að stöðva dýrtíðina. Og ég held, að það sé dálítið hættulegt fyrir hvaða aðila sem er að slá á útrétta hönd. Þetta er aðalatriðið í málinu. Söluskatturinn er ekkert annað en gengislækkun. Það verður hver króna 2% verðminni. Það er ekkert annað en 2% gengislækkun. Og þegar vísirinn er settur á stað, heldur hann áfram að hreyfast, hjólið heldur áfram að snúast.

Ég held, ef hægt væri að leysa þetta mál öðruvísi en að knýja fram þennan söluskatt og hækka þar með vísitöluna, þá væri bezt fyrir ríkisstj. sjálfa að gera það og reyna a.m.k. til þrautar, hvort um samstarfsvilja er að ræða hjá stjórnarandstöðunni. Og ég held, að það sé. Ég held, að íslenzkur verkalýður sé búinn að sjá, að það er verst fyrir hann þessi sífellda þensla og verðhækkanir. Og sannleikurinn er sá, að þeir, sem hafa fjármuni og geta braskað og velt þeim allavega, það eru þeir, sem græða. En verðbólga og gengislækkanir koma alltaf niður á efnaminna fólkinu og því fólkinu, sem vinnur fyrir sínu daglega brauði með berum höndum, en græðir ekki á braski, þannig að skaðinn af verðbólgu, ef um hann er að tala, lendir alltaf á alþýðumanninum. Ég held, að íslenzkt alþýðufólk sé farið að sjá þetta og vilji af heilindum vinna að því, að breyting verði á þessu, ekki vegna þessara tveggja stiga, það er ekki aðalatriðið, heldur er þetta móralskur hlutur, og það er dálítið hættulegt fyrir ríkisstj. þess vegna að knýja þetta mál fram. Ég tel það enga vanvirðu fyrir hana, þó að hún frestaði þessu, leitaði eftir samstarfi við stjórnarandstöðuna um, hvað þeir vildu spara. Ef ég væri ráðh., sem ég verð aldrei, þá væri ég sannarlega búinn að spyrja stjórnarandstöðuna, hvað þeir vildu spara. Það verður annaðhvort að spara, lækka einhver útgjöld, og ég hef bent á liði í tryggingunum, sem nema 170 millj. og óbeint um 220 millj., ef tekið væri með það, sem bæjarfélögin þurfa að borga og fyrirtækin, og þá lækka líka þessar 42 millj., sem koma vegna kauphækkananna, en ekki nema að nokkrum hluta. Það var ekki rétt hjá hinum mikla gáfumanni, Lúðvík Jósefssyni, 5. þm. Austf., er hann taldi, að þessar 42 millj. kæmu allar af söluskattinum. Það verður einhver hluti af hækkuninni, sem kemur án hans, þannig að ef vísitalan hækkaði ekki vegna söluskattsins, þá mundi þetta sennilega vera 25—27 millj., sem lækkuðu af því. Svo er hægt að finna aðrar skattaleiðir en söluskattinn, sem ekki yrðu til þess að þrýsta upp vísitölunni, ef vel væri leitað.

Við vitum, að ferðalög eru mikil til annarra landa. Það er ekki nóg, að gjaldeyrir eyðist þannig í stórum stíl, heldur er flutt inn mikið af vörum, sem ekki er borgaður tollur af, svo að það verður eyðsla bæði fyrir ríkið og einstaklingana, þjóðfélagsheildina. Þetta er orðið þannig, að vefnaðarvörukaupmennirnir geta lítið selt, er mér sagt, því að það eru allir búnir að birgja sig upp, skreppa til Englands, og þeir segja, að þeir fái ferðina borgaða með því að kaupa sér föt. Og það er illt að afklæða fólkið, þegar það kemur heim. Það er gjarnan í þessu, sem það er nýbúið að kaupa. Það er ef til vill illt að koma því við, en ósanngjarnt væri það ekki eða óviturlegt að leggja einhvern skatt á ferðamannagjaldeyri. Raunar skal ég játa, að það er dálítið erfitt að hafa hann allt of háan, því að þá má maður búast við, að þeir kaupi gjaldeyrinn utan við bankana. En einhvern veginn væri hægt að hafa hann þannig, að það ynnist eitthvað upp af þessu, sem fólkið skýtur sér undan að borga toll af, að ríkissjóður fengi eitthvað af því þannig. Ég sé ekkert við það að athuga. Í fyrsta lagi er það vafasamt, hvort við höfum efni á því að sólunda öðru eins í ferðalög og gert er, og í öðru lagi er ekki rétt, að sumir greiði toll af hverju einasta snitti, sem þeir kaupa, eins og fólkið verður að gera úti á landsbyggðinni, en aðrir geti skemmt sér og keypt tollfrjálsa vöru, því að svo að segja öll þessi ferðalög eru farin af fólki hér í þéttbýlinu. Mér finnst þetta alls ekki réttlátt. Það verður á einhvern hátt að koma í veg fyrir þetta, annaðhvort með strangari tollgæzlu eða þá með dýrari gjaldeyri, sem fólkið fengi í þessi ferðalög.

Það væri betra að skömminni til að leggja skatt á benzín heldur en að leggja á þennan söluskatt. Það mundi ekki hafa eins greinileg áhrif á vísitöluna. Það væri jafnvel hægt að hækka vínið. Það er smyglað svo miklu af því, að ég held, að það yrði ekkert meira, þó að það yrði hækkað, og væri sannarlega einhver ástæða til að fara að líta betur eftir því. Sömuleiðis væri mjög æskilegt, að ríkisstofnanir færu vel með fjármuni sína. Mér er sagt t. d., hef það frá bæjarbúa, að Bændahallar-Þorvaldur hafi keypt Matborgina og selt svo eitthvert horn af henni fyrir nærri eins mikið verð og hann keypti hana og vínverzlunin hafi keypt þetta. Þetta eru sögur, sem maður heyrir úti í bæ. En ef Þorvaldur hefur mikið af eigninni fyrir ekkert, þá finnst mér þetta ekki vel farið með fjármuni, og hefði verið réttara af vínverzluninni að kaupa fyrst Matborg og selja svo Þorvaldi. Ég er ekki það kunnugur, að ég viti þetta fyrir vist, en sagan gengur.

Það eru t.d. þessir þrír liðir. Svo er hægt að finna ótal aðra liði. Ég sé ekki, að það væri syndsamlegt eða óskynsamlegt af ríkisstj. að ræða þetta allt við þá menn, sem berjast mest á móti þessum söluskatti. Ég held, að það væri bezt fyrir ríkisstj. sjálfa að finna einhverjar aðrar lausnir, sem allir gætu sætt sig við. Hins vegar er ég sammála stjórnarliðinu í því, að ég hef ekki trú á því, að það sé óhætt að lækka tekjurnar um mörg hundruð millj., án þess að það verði tekjuhalli.

Svo má náttúrlega deila um það, hvort endilega er nauðsynlegt, að ríkið borgi allar þær framkvæmdir, sem er verið að gera nú. Það hefur lagt í ýmsa hluti, eins og t.d. fjárfestingu í bönkum. Það á fiskveiðasjóðinn. Ríkið á fiskveiðasjóðinn eða telur sig eiga hann, þó að útgerðarmenn borgi alltaf í hann. Það er lagt í stofnlánadeildina, það er lagt í fiskveiðasjóð, þetta eru líklega einar 50 millj. Svo er, eins og hv. 3. þm. Reykv. benti á, lagt mikið í byggingar. Það má deila um, hvort endilega þarf að borga þetta allt á sama árinu, a.m.k.

það fé, sem bankar fengju þannig og fá að lána út aftur og fá vexti af. Það má deila um það, hvort það sé endilega full þörf á því.

Ég skal játa það, að söluskatturinn er leiðinlegur skattur. Hann kemur illa við fyrirtækin, sem þurfa að svara honum út. Hann kemur sérstaklega illa við þær verzlanir, sem hafa lánastarfsemi, og innheimta gengur yfirleitt illa nú bæði hjá vélaverkstæðum og netagerðar- og nótaviðgerðarverkstæðum. Félög, sem hafa bændaverzlun, reka yfirleitt lánastarfsemi. Það kemur illa við þau fyrirtæki, sem reka lánastarfsemi. Annað, sem er hans mesti galli, er, að það er vafasöm innheimta. Og það er ákaflega illt að sætta sig við það, þegar skatturinn er kominn upp í 7—8%, ef menn geta innheimt hann hjá fólkinu og stungið meira eða minna af honum í eigin vasa. Ég efast ekki um, að það má bæta eitthvað eftirlitið með skattheimtunni. En það er mikið verk, og það verður ógerlegt nema hafa strangan samanburð. Og þó koma margir liðir þar inn í, eins og með vöruafskriftir og vörubirgðir o.fl., o.fl., sem getur verið villandi, og annað, að bókhald ýmissa fyrirtækja er þannig, að það er illmögulegt að sanna, hvað þau hafa selt mikla vinnu og þjónustu, þannig að þetta er leiðinlegur vandræðaskattur. En eitthvað verður að gera. Einhvers staðar þarf að innheimta gjöldin, og það þarf þá annaðhvort að lækka útgjöldin eða finna einhverjar aðrar skattaleiðir. Ég held, að báðar leiðirnar séu færar, bæði hægt að finna aðrar leiðir til þess að skattleggja fólkið og eins að lækka útgjöldin, og það væri það bezta, og er eina ráðið til þess að létta byrðunum af fólkinu. Það þýðir ekkert að skamma bæjarstjórnir og hreppsnefndir fyrir há útgjöld, þegar megnið af þessum gjöldum er bundið með löggjöf. Eigi útsvörin að lækka, þá verður að vera þar um samvinna milli ríkisvalds og sveitarstjórna. Þá verður að breyta löggjöfinni að einhverju leyti. En það verða allir að gera sér ljóst, að með því að heimta alltaf skilyrðislaust meira og meira, þá er ekki hægt að ætlast til þess, að útgjöldin lækki mikið.